Áætlað er að íbúum fjölgi um 8.598 manns á næstu 10 árum í Kópavogi

Kópavogsbær hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025. Spáð er að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 8.598 manns á næstu tíu árum, sem er 21,9 prósent aukning. Til samanburðar hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 4.352 frá árinu 2020 eða um 11,6 prósent, en þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Húsnæðis og mannvirkjastofnun sem birt var sl. mánudag.

Þörf á 314 íbúðum á ári á næstu 10 árin

Samkvæmt húsnæðisáætluninni er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir um 314 íbúðir á ári, 1.572 íbúðir á næstu 5 árum og 3.307 íbúðir næstu 10 ár. Til samanburðar þá hefur fullbúnum íbúðum fjölgað að meðaltali um 303 á ári síðastliðin 5 ár.

Samkvæmt síðustu talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 718 íbúðir í byggingu í september 2024. Þessi tala er lítillega lægri en á sama tíma síðustu tvö ár. Stór hluti þessara íbúða er á framvindustigi 2 og 3, sem þýðir annars vegar að undirstöður séu fullgerðar og hins vegar að unnið sé við að reisa burðarviki mannvirkisins. Fjöldi íbúða í byggingu er því í takt við þá íbúðaþörf sem sveitarfélagið áætlar að það standi frammi fyrir á næstu tveimur árum en nauðsynlegt að nýjar framkvæmdir fari af stað svo ekki verði frekari samdráttur í fjölda í búða í byggingu.

Stærsti hluti nýbygginga næstu ára verði fjölbýlishúsabyggð, með sérstakri áherslu á minni íbúðir

Kópavogsbær leggur ríka áherslu á fjölbreytt framboð húsnæðis og tryggt aðgengi allra að öruggu heimili á viðráðanlegu verði. Með þéttingu byggðar á skilgreindum þróunarsvæðum er markvisst unnið að blandaðri landnotkun. Þá er gert ráð fyrir að stærsti hluti nýbygginga næstu ára verði fjölbýlishúsabyggð, með sérstakri áherslu á minni íbúðir, allt að 90 fermetrum.

Markmið bæjarfélagsins er að efla almennan leigumarkað, fjölga félagslegum íbúðum og styðja fyrstu kaupendur

Markmið bæjarfélagsins er að efla almennan leigumarkað, fjölga félagslegum íbúðum og styðja fyrstu kaupendur með auknu framboði hagkvæmra fasteigna. Til að ná þessum markmiðum vinnur sveitarfélagið markvisst að samstarfi við byggingaraðila, með það m.a. að leiðarljósi að hluti nýrra íbúða renni inn í félagslegt húsnæðiskerfi og stuðli þannig að betra jafnvægi á markaðnum.

Stefnt á að úthluta lóðum fyrir allt að 2.714 íbúðir á næstu 5 árum

Kópavogsbær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 3.284 íbúðir og á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið að því að úthluta lóðum fyrir allt að 2.714 íbúðir. Lóðaframboð ætti því að  mæta vel áætlaðri íbúðaþörf gangi úthlutunaráætlanir eftir. Sé hins vegar litið til stöðu lóðanna í skipulagi þá er talsverður fjöldi þeirra tilgreindur sem framtíðarsvæði.

  • Áætlað er að íbúum fjölgi um 4.086 manns á næstu 5 árum, sem er fjölgun um 10,4 prósent.
  • Fjöldi íbúða í byggingu í dag er í takt við fólksfjölgun og áætlaða fjölskyldustærð í sveitarfélaginu.
  • Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir 2.714 íbúðir á næstu 5 árum til að tryggja nægt framboð.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins