Nú er eitt ár er liðið síðan Kópavogsbær hélt opinn kynningarfund um deiliskipulag Vatnsendahæðar, sem
þá var í forkynningu, en þar er gert ráð fyrir nýju íbúðahverfi með fjölbreyttu formi íbúða, samreknum leik- og grunnskóla, útivistarsvæðum ásamt verslun og þjónustu. Deiliskipulagssvæðið fyrir hið nýja hverfi
er um 29 hektarar og liggur það að mörkum Reykjavíkur (Breiðaholts), Kórahverfis og Hvörfum í Vatnsenda. Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir allt að 500 íbúðum af því erum um 150-200 sérbýli, rað- eða parhús.
Kópavogspósturinn sló á þráðinn til Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi, og spurði hana hver staða mála væri hvað Vatnsendahæðina varðar? ,,Tillaga að breytingu á aðalskipulagi fyrir svæðið hefur verið send Skipulagsstofnun til athugunar, þegar Skipulagsstofnun heimilar kynnum við tillögurnar samtímis, að breyttu aðal- og deiliskipulagi. Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði kynntar í apríl,” segir Ásdís.
Hvenær reiknið þið með að auglýsingaferlið klárist og hvenær reiknið þið með að framkvæmdir við gatnagerð geti hafist? ,,Áætlað er að nýtt deiliskipulag geti tekið gildi í haust, svona um það bil í ágúst eða september. Þá tekur við hönnun gatnakerfisins sem væntanlega tekur einhverja mánuði áður en gatnagerð hefst.
Hverfið fullbyggt árið 2030
Og þessi uppbygging verður væntanlega í áföngum – hvenær er gert ráð fyrir að svæðið verði fullbyggt? ,,Í áætlun aðalskipulagsins er gert ráð fyrir að hverfið geti verið fullbyggt árið 2030.“
Með uppbyggingu á nýju hverfi þarf líka ákveðin þjónusta að fylgja með eins og til dæmis skóli og leikskóli. Er gert ráð fyrir skóla og leikskóla í hverfinu og á þá sú uppbygging að fylgja uppbyggingu í hverfinu? ,,Það er gert ráð fyrir samreknum leik- og grunnskóla fyrir yngsta skólastigið miðsvæðis í hverfinu. Kópavogsbær stefnir á að hægt verði að taka skólann í notkun þegar nýir íbúar flytja í hverfið,” segir hún.
Fyrirkomulag úthlutunar í vinnslu
Hvenær reiknið þið með að bjóða út fyrstu lóðirnar og eruð þið farin að velta fyrir ykkur með hvað hætti lóðirnar verða boðnar út? ,,Fyrirkomulag úthlutunar er í vinnslu og verður kynnt þegar það liggur fyrir.”
Mikilvæg vegna öryggissjónarmiða og vefna viðbragðstíma neyðaraðila
Og fyrst við erum á Vatnsendahæð þá er búið að bjóða út lokaáfanga Arnarnesvegar, það hlýtur að vera mikill léttir að verkið sé komið í útboð og það skiptir væntanlega miklu máli fyrir íbúa í efri byggðum Kópavogs að fá þann veg og létta á umferð um Vatnsendaveg? ,,Það eru mjög góð tíðindi að nú sjái fyrir endann á Arnarnes-vegi, þó að vissulega séu nokkur ár í að framkvæmdinni ljúki, Vegagerðin áætlar verklok 2026. Framkvæmdin er bæði mikilvæg út frá öryggissjónarmiðum vegna viðbragðstíma neyðaraðila. Þá mun um-ferð létta á Vatnendavegi hún er mjög mikil á annatímum.”
Beðið með úthlutun á Glaðheimasvæðinu
Og svona að lokum, hver er staðan með áframhaldandi uppbyggingu á Glaðheimasvæðinu, vesturhluta – í hvað ferli er það og hvernig verður framvindan? ,,Verið er að vinna stefnumótandi forsendugreiningu fyrir framtíðar fyrirkomulag Reykjanesbrautar á þessu svæði og fyrirhugaðan stokk. Fyrstu niðurstöður úr þeirri vinnu eru væntanlegar fljótlega. Mikilvægt er að huga að heildarmynd svæðisins og því hefur verið beðið með úthlutun lóða á Glaðheimasvæðinu,” segir Ásdís að lokum.
Forsíðumynd: Ásdís segir að tillaga að breytingu á aðalskipulagi fyrir Vatnsendasvæðið hafi verið send Skipulagsstofnun til athugunar. ,,Þegar Skipulagsstofnun heimilar kynnum við tillögurnar samtímis að breyttu aðal- og deiliskipulagi. Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði kynntar í apríl,” segir hún