94 hugmyndir í kosningu

Opnað var fyrir kosningu í Okkar Kópavogi sl. miðvikudag og stendur kosningin til hádegis 9.febrúar. Þetta í fjórða sinn sem íbúar í Kópavogi geta valið á milli nýrra verkefna
og forgangsraðað verkefnum innan sveitarfélagsins. Í þetta sinn eru 94 hugmyndir í kosningu, 14-20 í hverju hverfi. Kosningin er rafræn.

Kosningaaldur í Okkar Kópavogi hefur verið lækkaður um tvö ár og geta nú allir þeir sem verða fjórtán ára á árinu tekið þátt í atkvæðagreiðslu, svo framarlega sem þeir eru með rafræn skilríki. Alls eru ríflega 32 þúsund manns með kosningarétt í kosningunum.

Sigrún María Kristinsdóttir verkefnastjóri íbúatengsla hjá Kópavogsbæ

Hugmyndir sem um er að velja eru af mjög fjölbreyttum toga, og er kostnaður við þau frá einni til 25 milljónir. Kópavogi er skipt í fimm hverfi aðalskipulags í verkefninu, Kársnes, Digranes, Smárann, Fífuhvamm (Lindir og Salir) og Vatnsenda og hefur hverfunum verið ráðstafað fé í hlutfalli við fjölda íbúa en alls verður 200 milljónum varið til framkvæmda verkefnanna árin 2022-2023.

Metþátttaka 2021

„Metþátttaka var í hugmyndasöfnun síðastliðið haust og geta íbúar valið milli mjög flottra verkefna í kosningunum sem við vonum að sem flestir, fjórtán ára og eldri, taki þátt í,“ segir Sigrún María Kristinsdóttir verkefnastjóri íbúatengsla hjá Kópavogsbæ.

Flest verkefnin sem nú eru í kosningu snúa að útivistarsvæðum bæjarins, leik- og grunnskólalóðum. Meðal þess sem íbúar hafa valið til þessa eru leiktæki, trjágróður, bekkir og öryggismyndavélar.

Myndir af mörgum skemmtilegum verkefnum sem hafa náð í gegn í Okkar Kópavogur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar