680 tilboð bárust í lóðir í Vatnsendahvarfi 

Lögð voru fram 680 tilboð frá 62 aðilum í byggingarrétt lóða í Vatnsendahvarfi í nýafstöðnu útboði. Opið var fyrir tilboð í lóðir frá 23. janúar til 20. febrúar og voru í þessum áfanga í boði lóðir fyrir einbýlishús, parhús, klasahús og fjölbýli.  

Ánægjulegt að sjá mikla þátttöku í útboðinu

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikil þátttaka er í útboðinu en kemur ekki á óvart, miðað við áhugann sem við höfum fundið. Vatnsendahvarf verður fallegt hverfi á frábærum útsýnisstað. Við erum þegar byrjuð á gatnagerð og að undirbúa skóla í Vatnsendahvarfi og það verður spennandi að fylgjast með hverfinu í uppbyggingu næstu árin,” segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs. 

Næsta skref að fara yfir tilboðin

Tekið var á móti tilboðum í gegnum útboðsvef Kópavogsbæjar, Tendsign. Þess má geta að haldinn var sérstakur kynningarfundur  um útboðskerfið sem mæltist vel fyrir. Allar spurningar og svör við þeim voru gerðar aðgengilegar í Tendsign í framhaldinu.  

Næsta skref er að fara yfir tilboðin, meta tilboð út frá úthlutunarskilmálum og hvort þau eru gild. Að þeirri vinnu lokinni verða þau tekin til afgreiðslu á fundi bæjarráðs og í kjölfarið til afgreiðslu bæjarstjórnar.  

Tilboðsgjafar sem eiga hæsta tilboð í tilteknar lóðir eru skuldbundnir til að leggja inn umsókn um byggingarleyfi eigi síðar en 12 mánuðum frá úthlutun lóðar. Úthlutun lóða telst samþykkt frá og með staðfestingu bæjarstjórnar. 

Í Vatnsendahvarfi verða 500 íbúðir í fjölbýli og sérbýli og fellur byggðin vel að nágrenninu. Lögð er áhersla á umhverfisvæna byggð og góðar samgöngutengingar fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur. Fyrsti áfangi úthlutunar lóða í hverfinu var í maí 2024, nú er verið að fara yfir tilboð í öðrum áfanga úthlutunar. Þriðji og síðasti áfangi úthlutunar verður síðar á þessu ári. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins