Símamót Breiðabliks verður haldið í 37. sinn dagana 8.-11. júlí næstkomandi, en það hét í upphafi Gull og Silfurmótið fyrir þá sem muna það langt aftur. Mótið hefur farið stækkandi ár frá ári en á síðasta ári kröfðust aðstæður þess að hugsað yrði fyrir því hvernig hægt væri að stýra fjölda þannig að það stæðist kröfur yfirvalda varðandi fjölda.
Kópavogspósturinn hafði samband við Jóhann Þór Jónsson, formann Barna- og unglingaráðs Breiðabliks til að forvitnast um það hvernig undirbúningur fyrir mótið hafi gengið þetta árið. ,,Undirbúningur gengur mjög vel en það sem hefur kannski mest komið á óvart er sú mikla aukning sem við sjáum í skráningum en það stefnir í að mótið sé að stækka um rúm 10% og að þátttakendur verði í kringum 3 þúsund í 5-7 flokki. Þetta er reyndar í takt við það sem við heyrum í umhverfinu í kringum okkur en flest af þessum yngri flokka mótum virðast vera að stækka talsvert á milli ára og virkilega gaman að sjá þessa aukningu hjá iðkendum kvennamegin,“ segir Jóhann.
Til viðbótar við hefðbundnda dagskrá var ákveðið að bjóða yngsta hópnum í 8. flokki að prófa „Litla Símamótið“ en þar keppa stelpurnar á litlum völlum 5-6 leiki fyrir eða eftir hádegi og fá því aðeins smjörþefinn af því að mæta á Símamótið.
Reynslan frá því í fyrra reynist vel
,,Á síðasta ári þurfum við að hugsa aðeins út fyrir boxið og skoða með hvaða ráðum hægt væri að stilla mótinu upp þannig að fjöldamörk yrðu virt og að hægt yrði að stýra álagi inn á svæðið eins vel og mögulegt væri. Þannig kom upp sú hugmynd að staðsetja 5. flokk alfarið í Fagralundi og bjóða þeim stelpum sem væru þá á þeirra síðasta unglingamóti áður en alvaran tekur við upp á þeirra eigið mót. Þetta heppnaðist afskaplega vel í fyrra og fundum við fyrir því að það var í raun mun minna flækjustig að halda þessum hópi afmörkuðum enda frekar lítið fyrir stelpum haft sem eru búnar að fara á öll þessi yngri flokka mót í gegnum árin. Þær fengu síðan sína eigin bíósýningu á laugardagskvöldinu sem mæltist mjög vel fyrir. Í ár gista liðin utan af landi í Snælandsskóla þannig að ferðalagið getur varla verið styttra fyrir þær á keppnissvæðið.
Í fyrra þurfti sömuleiðis að skilja vel á milli 6. og 7 flokks mótsins en vonumst við til þess í ár þó að losna við að reisa hálfan kílómeter af girðingum frá vinum okkar í Byko en beina frekar tilmælum til þeirra sem heimsækja svæðið að virða sóttvarnarreglur og halda sig sem mest á sínu svæði á meðan þeirra stelpa er að keppa. Sjónvarp Símans verður áfram með beinar útsendingar frá fjölmörgum leikjum þannig að þar geta einnig þeir sem ekki eiga að heimangengt fylgst með næstu stjörnum íslenska kvennaboltans í beinni útsendingu,“ segir hann.
Sjálboðaliðarnir og baklandið mikilvægt
Breiðablik er ríkt félag af sjálboðaliðum sem leggjast á árarnar með stjórnendum mótsins og segir Jóhann að sjálfsagt verði um að ræða ríflega 250 dagsverk sem liggi í valnum þessa 4 daga sem mótið stendur. ,,Til viðbótar við sjálboðaliðana sem standa vaktir verður einnig að þakka starfsmönnum félagsins, bæjarstarfsmönnum og ekki síst aðal styrktaraðila mótsins, Símanum, sem gerir okkur möguleg að gera þetta að eins glæsilegu móti og raun ber vitni. Mótsstjórn Símamótsins hlakkar til helgarinnar 8-11 júli og vonast til að sjá sem flesta í Smárann eða Fagralund til að upplifa stemminguna,“ segir Jóhann að lokum.