30 ára vígsluafmæli Hjallakirkju

Það eru merk tímamót í Hjallakirkju á Páskadag, en þá fagnar kirkjan 30 ára afmæli.

Af því tilefni verður boðið upp á morgunmessu í Hjallakirkju á Páskadag kl. 09:00 þar sem 30 ára vígsluafmæli verður fagnað og 36 ára afsmæli safnaðarins. Boðið verður upp á morgunverð og páskaeggjaleit. Áslagu Helga Hálfdánardóttir og Matthías V. Baldursson sjá um tónlistarflutningi. Prestar eru sr. Sunna Dóra Möller og sr. Alfreð Örn Finnsson, en Kópavogspóst- urinn sló á þráðinn til Alfreðs og spurði hann nánar um afmælið.

Hvað á svo að gera í tilefni af 30 ára vígsluafmælis Hjallakirkju og 36 ára afmæli safnarins? ,,Það verður afmælisveisla á páskadag. Dagskráin hefst með messu kl. 9, eftir messu býður sóknarnefnd upp á morgunverð, kaffi og afmælisköku. Leiðtogar æskulýðsstarfsins ætla svo að fela páskaegg um kirkjuna fyrir yngri kynslóðina,” segir Alfreð Örn.

Sr. Alfreð Örn

Fjölbreyttara messuform

Hvernig hefur svo afmælisbarnið elst á þessum 30 árum hvað starfið varðar? ,,Kirkjustarfið þarf alltaf að fylgjast með tíðarandanum og því hefur starfið vissulega breyst á 30 árum. Það er engu að síður margt sem er líkt og áður var, kórastarf, barnastarf o.s.frv. Síðan má nefna dæmi um hópastarf eins og foreldramorgna og ýmis námskeið sem boðið er upp á og telst til nýjunga. Líklega er boðið upp á fjölbreyttara messuform en áður var.”

Og aftur að afmælinu á páskadag þá stýrir þú og sr. Sunna Dóra Möller afmælismessunni á páskadag – verður eitthvað farið yfir sögu Hjallakirkju eða verður þetta bara hefðbundin messa á páskadag? ,,Þetta verður hefðbundin messa en tímamótanna verður minnst og farið yfir söguna.”

En það er annars nóg um að vera hjá ykkur yfir páskana, hvernig verður dagskráin hjá ykkur? ,,Á skírdagskvöld verður messað í Hjallakirkju og gengið til altaris, þar sem allt verður tekið af altarinu í lok messunnar og borið inn aftur á páskadagsmorgun. Í prestakallinu verða tvær athafnir á föstudaginn langa. Fallegar og áhrifaríkar stundir, í Digraneskirkju verður fiskmáltíð að lokinni stund en í Hjallakirkju verður mikið lagt upp úr tónlistinni. Á páskadag viljum við gjarnan skapa góða samverustund með því að snæða saman, fagna afmælinu og bjóða upp á skemmtilega dagskrá fyrir krakkana.”

Það er sem sagt mikil og góð páskastemmning í bæði Hjalla- og Digraneskirkju yfir páskana? ,,Já, engin spurning, það hefur gengið vel í fermingunum, vor í lofti og stemningin góð. Okkur hlakkar til páskanna og sendum öllum okkar bestu páskakveðjur.”

Óska eftir að tilheyra okkkur

Þann 1. desember 2010 tilheyrðu um 6200 manns Hjallasöfnuði, af þeim eru u.þ.b. 4700 innan Þjóðkirkjunnar. Í dag eru 2900 í Hjallasókn innan þjóðkirkjunnar. ,,Helsta skýring á þessari miklu fækkun er sú að innan sóknarmarkanna er fjölmennt hverfi þar sem samsetning íbúa hefur breyst mikið á undaförnum árum, fólks sem tilheyrir öðrum trúfélögum og er kaþólska kirkjan þar fjölmennust. Það gleðilega má þó segja að á síðustu árum hafa margir þessara íbúa leitað til okkar um aðstoð og eru dæmi um það að þau hafi óskað eftir að fá að tilheyra okkur og skráð sig í þjóðkirkjuna,” segir Alfreð Örn.

Saga Hjallasafnaðar

Hjallasókn var mynduð með skiptingu Digranessóknar. Stofndagur var 25. maí 1987 en þann dag var stofnfundur Hjallasóknar haldinn í Digranesskóla í framhaldi af því að Dóms- og kirkjumálaráðuneytið birti auglýsingu um stofnun safnaðarins viku fyrr. (19. maí 1987).

Fyrsta sóknarnefndin var þannig skipuð: Formaður: Hilmar Björgvinsson; varaformaður: Arnór Pálsson; gjaldkeri: Jónína Júlíusdóttir; ritari: Snorri Halldórsson; meðstjórnendur: Guðmundur Þorkelsson, Gunnar S. Þorleifsson, Jóhanna Thorsteinsson, Ragnar Ásmundsson, Stefán B. Sigurðsson; varamenn: Anna Gunnarsdóttir, Anna Björg Thorsteinsson, Árni Guðjónsson, Bragi Lárusson, Ingunn Björnsdóttir, Ingjaldur Ísaksson, Jóhanna Björgvinsdóttir, Ólöf Davíðsdóttir, Sig-ursteinn Sævar Einarsson.

Fyrstu verkefni sóknarnefndarinnar voru þau að kjósa nýjan prest og var sr. Kristján Einar Þorvarðarson valinn. Safnaðarstarf hófst í Digranesskóla en messuheimili safnaðarins var vígt í skólanum hinn 10. janúar 1988.

Byggingarsaga
Sóknarnefndin skipaði fimm manna byggingarnefnd í ársbyrjun 1988 sem hún fól að annast undirbúning og umsjón framkvæmda við Hjallakirkju. Byggingarnefnd skipuðu Karl M. Kristjánsson, formaður, Bragi Lárusson, ritari, Jónína Júlíusdóttir, gjaldkeri sóknarnefndar, Gunnar Þorleifsson og Steingrímur Hauksson. Með bygg- ingarnefndinni starfaði sóknarprestur, Kristján Einar Þorvarðarson.

Hróbjartur Hróbjartsson, arkitekt Vinnustofu arkitekta hf. var ráðinn til að teikna kirkjuna. Að lokinni ítarlegri kynningu á tillögunum meðal safnaðarfólks var samþykkt á aðalsafnaðarfundi í maí 1991 að hefja byggingu kirkjunnar. Þá hafði bæjarstjórn afhent söfnuðinum lóðina við Álfaheiði 17 en hún hafði verið afmörkuð sem kirkjulóð þegar hverfið var skipulagt. Vinnu við byggingu kirkjunnar lauk að mestu í byrjun árs 1993.
Kirkjan var svo vígð á Páskadag, 11. apríl 1993.

Biskup Íslands, hr. Ólafur Skúlason, vígði kirkjuna og sóknarprestur, sr. Kristján Einar Þorvarðarson þjónaði fyrir altari. Yngri og eldri barnakór Hjallaskóla söng á undan athöfn undir stjórn Guðrúnar Magnúsdóttur. Kór Hjallakirkju flutti Þýska messu eftir Franz Schubert, einsöngvari með kórnum var Sigríður Gröndal. Gunnar Kvaran lék á selló, Guðrún Birgisdóttir og Martial Nardeu á flautur. Organisti og söngstjóri var Oddný J. Þorsteinsdóttir.

Sóknarmarkamál
Á aðalsafnaðarfundi Digranessóknar þann 11. maí 1997 og framhaldsaðalsafnaðarfundi Hjallasóknar þann sama dag var samþykkt tillaga um að veita sóknarnefndum og sóknarprestum þessara sókna fullt umboð til að leita samkomulags um breytingu á mörkum milli sóknanna samkvæmt þeirri megin hugmynd að makaskipti yrðu á Smára- hverfi og þeim hluta Snælandsskólahverfis sem þá var í Digranessókn. Sú tillaga var samþykkt þann 8. september sama ár og staðfest á Safnaðarráðsfundi í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Aðal hugsunin að baki þessara makaskipta var að sameina skólahverfi Snælandsskóla og jafnframt færa Smárahverfið undir Digra-nessókn vegna nálægðar við kirkjuna.

Þann 1. janúar 2002 var ný sókn stofnuð í Linda-, Sala- og Vatnsendahverfi í Kópavogi. Þau hverfi höfðu fram að þeim tíma (frá árinu 1987) tilheyrt Hjallasókn. Sóknin hlaut heitið Lindasókn. Sóknarnefndin valdi sóknarprest þá um vorið og varð sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, þá prestur í Hjallakirkju, fyrir valinu. Hann hóf störf hjá söfnuðinum þann 1. júlí 2002.

Þann 1. desember 2010 tilheyrðu um 6200 manns Hjallasókn, af þeim voru u.þ.b. 4700 innan Þjóðkirkjunnar. Nú 12 árum síðar tilheyra 2900 (2897) íbúa í Hjallasókn þjóðkirkjunni.

Formenn sóknarnefndar frá upphafi:

• Hilmar Björgvinsson 1987 – 1994
• Eggert Hauksson 1994 – 1998
• Karl M. Kristjánsson 1998-2010
• Guðrún Hulda Birgisdóttir 2010 – 2020
• Andrés Jónsson 2020-

Kirkjuorgel
Ákvörðun um að fá orgel í kirkjuna var tekin á sóknarnefndarfundi í ársbyrjun 1998 og var organista falið að byrja að vinna að málinu. Fljótlega var ákveðið að reyna að fá Björgvin Tómasson, orgelsmið í Mosfellsbæ, til að smíða orgelið. Hafist var handa við undirbúningsvinnu og sú ákvörðun tekin að hljóðfærið yrði 24 raddir plús framlengingar sem gerir að verkum að orgelið nýtist sem 27 radda hljóðfæri.

Uppsetning orgelsins í kirkjunni hófst 4. janúar 2001. Þann 5. febrúar hófst lokaspretturinn og að mörgu leyti sá vandasamasti, sem er hljómgun orgelsins. Til þessa verks fékk Björgvin til liðs við sig þýskan meistara sinn, Reinhard Tzchöckel, sem hafði komið að skoða kirkjuna þegar málið var á umræðustigi og hrifist svo af hljómburðinum að hann bað um að fá að taka þátt í lokahljómgun orgelsins. Orgelið var síðan vígt 25. febrúar og var það dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, sem vígði orgelið og prédikaði við vígsluguðsþjónustuna. Orgelvígslutónleikar voru síðan kl. 20.30 sama kvöld. Næstu fjögur kvöld voru síðan orgeltónleikar þar sem leikin voru verk frá öllum tímabilum tónbókmenntanna.

20 ára vígsluafmæli orgelsins var því í febrúar á síðasta ári. Það voru uppi áform um að gera eitthvað skemmtilegt við þau tímamót en ekkert varð úr því v/Covid og fl.

Prestar kirkjunnar frá upphafi:

• Sr. Kristján Einar Þorvarðarson, sóknarprestur 1987-1999
Sr. Kristján lést 2. Nóvember 1999.
• Sr. Bryndís Malla Elídóttir, prestur 1995-1996
• Sr. Íris Kristjánsdóttir, prestur 1996-1999, settur sóknarprestur 1999-2000, sóknarprestur 2000-2012
• Sr. Magnús Guðjónsson, settur sóknarprestur 1998-1999
• Sr. Hjörtur Hjartarson, prestur 1999-2000
• Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, prestur 2000-2002
• Sr. Sigfús Kristjánsson, prestur 2002-2012, sóknarprestur 2012-2017
• Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur 2012 -2016
• Sr. Halldór Reynisson, settur Sóknarprestur 2016 – 2017 ?
• Sr. Karen Lind Ólafsdóttir, prestur 2017-
• Sr. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur 2018-2020, eða þar til Hjallaprestakall og Digranesprestakall sameinuðust haustið 2020.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar