10.500 fermetra skrifstofu- og þjónustubygging í farvatninu

Föstudaginn 12. nóvember sl. var fyrsta skóflustungan tekin á lóðinni Dalvegi 30 í Kópavogi sem tákn um upphaf framkvæmda á lóðinni. Merkúr ehf., dótturfélag fasteignafélagsins Íþöku ehf. er lóðarhafi og stendur að framkvæmdunum.

Dalvegur 30, horft austur eftir Reykjanesbraut.a

Á Dalvegi 30 var áður rekin gróðurstöð sem nú hefur verið fjarlægð. Þess í stað munu verða byggð á lóðinni þrjú glæsileg skrifstofu- og þjónustuhús auk niðurgrafinnar bílageymslu. Í fyrsta áfanga rís fimm hæða 10.500 fermetra bygging auk fyrsta áfanga bílakjallarans.

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum hér í dag. Undanfarin fimm ár höfum við unnið að þróun uppbyggingar lóðarinnar á Dalvegi 30. Skipulagsvinnunni lauk fyrir réttu ári síðan þegar bæjarstjórn Kópavogs samþykkti nýtt deiliskipulag lóðarinnar. Síðan þá höfum við unnið að hönnun fyrstu byggingarinnar, sem við erum nú í þann veginn að hefja framkvæmdir við,“ sagði Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Íþöku ehf., þegar fyrsta skóflustunga að framkvæmdum á lóðinni var tekin.

Framkvæmdir í farvatninu

Aðaluppdrættir byggingarinnar sem fyrst verður byggð á lóðinni eru nú til umfjöllunar hjá byggingarfulltrúanum í Kópavogi. Arkitektar hússins eru ASK Arkitektar ehf.
Þegar byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingaráformin og gefið framkvæmdaleyfi hefst jarðvinna á lóðinni. Byggingarfélagið Eykt ehf., systurfélag Íþöku ehf., mun annast allar framkvæmdir á lóðinni. Áætlað er að bygging þessa fyrsta húss þar taki tvö ár.
Samhliða framkvæmdinni verður unnið að hönnun tveggja annarra húsa sem rísa munu á Dalvegi 30 en þar er um að ræða tvær u.þ.b. 3.000 fermetra byggingar.

Dalvegur 30, skrifstofu- og þjónustubygging, aðalinngangur. Fyrsti leigjandinn hefur þegar verið kynntur til sögunnar, en það er Deloitte, sem mun yfirgefa Turninn á Smáratorgi

Starfsemi hefst á svæðinu eftir tvö ár

Í samtali við blaðamann segir Gunnar Valur Gíslason að fasteignafélagið Íþaka ehf. muni annast útleigu allra bygginga á Dalvegi 30 og rekstur þeirra og umsjón í kjölfarið. Áætlað er að skrifstofu- og þjónustustarfsemi hefjist þar eftir tvö ár.
„Fyrsti leigjandi á svæðinu er Deloitte hf. sem flytur starfsemi sína í nýju skrifstofu- og þjónustubygginguna á Dalvegi 30 eftir um tvö ár. Á þeim tíma áætlum við að byggingin verði að fullu útleigð,“ segir Gunnar Valur að lokum.

Ljóst er að fasteignafélagið Íþaka ehf. er með metnaðarfull áform um uppbyggingu á Dalvegi 30. Framkvæmdir þar eru hluti af þeirri uppbyggingu sem í gangi er í Smáranum en svæðið norðan Reykjanesbrautar er smám saman að taka á sig mynd öflugs fjármálahverfis.
Fullbyggt verður svæðið fjölbreytt með blöndu af skrifstofustarfsemi, verslun og hvers kyns þjónustu, sannkölluð miðja höfuðborgarsvæðisins.

Olnbogi í olnboga eftir fyrstu skóflustunguna! F.v. Signý Magnúsdóttir hjá Deloitte, Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri Deloitte hf, Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri Íþöku ehf og Pálína Árnadóttir hjá Deloitte

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar