10.500 fermetra skrifstofu- og þjónustubygging í farvatninu

Föstudaginn 12. nóvember sl. var fyrsta skóflustungan tekin á lóðinni Dalvegi 30 í Kópavogi sem tákn um upphaf framkvæmda á lóðinni. Merkúr ehf., dótturfélag fasteignafélagsins Íþöku ehf. er lóðarhafi og stendur að framkvæmdunum.

Dalvegur 30, horft austur eftir Reykjanesbraut.a

Á Dalvegi 30 var áður rekin gróðurstöð sem nú hefur verið fjarlægð. Þess í stað munu verða byggð á lóðinni þrjú glæsileg skrifstofu- og þjónustuhús auk niðurgrafinnar bílageymslu. Í fyrsta áfanga rís fimm hæða 10.500 fermetra bygging auk fyrsta áfanga bílakjallarans.

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum hér í dag. Undanfarin fimm ár höfum við unnið að þróun uppbyggingar lóðarinnar á Dalvegi 30. Skipulagsvinnunni lauk fyrir réttu ári síðan þegar bæjarstjórn Kópavogs samþykkti nýtt deiliskipulag lóðarinnar. Síðan þá höfum við unnið að hönnun fyrstu byggingarinnar, sem við erum nú í þann veginn að hefja framkvæmdir við,“ sagði Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Íþöku ehf., þegar fyrsta skóflustunga að framkvæmdum á lóðinni var tekin.

Framkvæmdir í farvatninu

Aðaluppdrættir byggingarinnar sem fyrst verður byggð á lóðinni eru nú til umfjöllunar hjá byggingarfulltrúanum í Kópavogi. Arkitektar hússins eru ASK Arkitektar ehf.
Þegar byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingaráformin og gefið framkvæmdaleyfi hefst jarðvinna á lóðinni. Byggingarfélagið Eykt ehf., systurfélag Íþöku ehf., mun annast allar framkvæmdir á lóðinni. Áætlað er að bygging þessa fyrsta húss þar taki tvö ár.
Samhliða framkvæmdinni verður unnið að hönnun tveggja annarra húsa sem rísa munu á Dalvegi 30 en þar er um að ræða tvær u.þ.b. 3.000 fermetra byggingar.

Dalvegur 30, skrifstofu- og þjónustubygging, aðalinngangur. Fyrsti leigjandinn hefur þegar verið kynntur til sögunnar, en það er Deloitte, sem mun yfirgefa Turninn á Smáratorgi

Starfsemi hefst á svæðinu eftir tvö ár

Í samtali við blaðamann segir Gunnar Valur Gíslason að fasteignafélagið Íþaka ehf. muni annast útleigu allra bygginga á Dalvegi 30 og rekstur þeirra og umsjón í kjölfarið. Áætlað er að skrifstofu- og þjónustustarfsemi hefjist þar eftir tvö ár.
„Fyrsti leigjandi á svæðinu er Deloitte hf. sem flytur starfsemi sína í nýju skrifstofu- og þjónustubygginguna á Dalvegi 30 eftir um tvö ár. Á þeim tíma áætlum við að byggingin verði að fullu útleigð,“ segir Gunnar Valur að lokum.

Ljóst er að fasteignafélagið Íþaka ehf. er með metnaðarfull áform um uppbyggingu á Dalvegi 30. Framkvæmdir þar eru hluti af þeirri uppbyggingu sem í gangi er í Smáranum en svæðið norðan Reykjanesbrautar er smám saman að taka á sig mynd öflugs fjármálahverfis.
Fullbyggt verður svæðið fjölbreytt með blöndu af skrifstofustarfsemi, verslun og hvers kyns þjónustu, sannkölluð miðja höfuðborgarsvæðisins.

Olnbogi í olnboga eftir fyrstu skóflustunguna! F.v. Signý Magnúsdóttir hjá Deloitte, Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri Deloitte hf, Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri Íþöku ehf og Pálína Árnadóttir hjá Deloitte

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins