Samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar sem gefin var út í júní hækkar fasteignamat sérbýla í Kópavogi að meðaltali um 26,2% og fjölbýla um 23,95%, sem er meiri hækkun en á sér stað að meðaltali á öllu höfuðborgarsvæðinu, þar sem sérbýli hækkar um 26% og fjölbýli um 21,7%. Fasteignamat á milli áranna 2022 og 2023 hækkar því gríðarlega á milli ára og það hefur í raun ekki hækkað meira á milli ára frá því fyrir hrun í það minnsta. Þessar miklu hækkanir á fasteignamati fyrir árið 2023 munu að öllu óbreyttu kosta fasteignaeigendur í Kópavogi hundruð milljóna króna, nema að bæjaryfirvöld í Kópavogi bregðist við með lækkun á fasteignaskatti sem þau hyggjast gera.

Hæsta meðaltals fermetraverðið innan hverfis í Kópavogi er 656 þúsund fyrir fjölbýli
Hæsta fermetraverð sérbýla í Kópavogi er í Linda- og Salahverfi, en það er að meðaltali 594 þúsund kr. á fermetra. Lægsta fermetraverð sérbýlis er í Austurbæ Kópavogs, 543 þúsund kr. á fermetra. Fasteignamat sérbýla fyrir árið 2023 hækkar mest í Linda- og Salahverfi eða um 28,7%. Minnsta hækkunin er í Hjalla- og Smárahverfi en þar hækkar fasteignamatið um 23,2%.
Hæsta fermetraverð fjölbýlishúsa er einnig í Linda- og Salahverfi, 656 þúsund á fermeterinn en lægsta verðið er í Kórahverfi, 600 þúsund. Mesta hækkun á fermetraverði fjölbýla fyrir árið 2023 er í títtnefndu Linda- og Salahverfi, en það hækkar um 28,7%. Minnsta hækkunin fyrir fjölbýlishús er Vesturbæ Kópavogs, en þar hækkar fasteignamatið um slétt 20%