Sigurður Bjarnason fékk gullstjörnu með lárviðarsveig

Á aðalfundi Stjörnunnar sem fram fór á dögunum fékk Sigurður Bjarnason, fyrrverandi formaður aðalstjórnar félagsins æðstu heiðursviðurkenningu Stjörnunnar, gullstjörnu með lárviðarsveig, en Sigurður á langan og farsælan feril með félaginu, bæði sem leikmaður, þjálfari, sjálfboðaliði, stjórnarmaður í aðalstjórn og sem formaður aðalstjórnar Stjörnunnar.

Uppvaxtarárin

Sigurður, eða Siggi eins og hann er jafnan kallaður, hefur átt langan og farsælan feril hjá Stjörnunnni. Hann byrjaði sjö ára að æfa knattspyrnu og handbolta og var ljóst frá byrjun að þessar greinar lágu vel fyrir honum.

Með liðsfélögum sínum í yngri flokkum varð hann:

Íslandsmeistari í 5.flokki í handbolta, árið 1982

Íslandsmeistari í 4.flokki í handbolta, árið 1984

Íslandsmeistari í 3.flokki í handbolta, árið 1985

Íslandsmeistari í 3.flokki í knattpsyrnu, árið 1986

Íslandsmeistari í 2.flokki í knattspyrnu, árið 1987

Íslandsmeistari í 2.flokki í handbolta, árið 1989

Gaman er að segja frá því að þegar 5. flokkur varð Íslandsmeistari árið 1982 var það fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í yngri flokkum Stjörnunnar í handknattleik og það sama var upp á teningnum þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í 3. flokki í knattspyrnu árið 1986, en það var fyrsti Íslandsmeistaratitilinn sem félagið vann í yngri flokkum hjá drengjum.

Siggi spilaði með meistaraflokki karla í handbolta frá 16 ára aldri og fram á fullorðinsár með nokkrum hléum, eða á árunum 1987-1991, 1994-1995 og 2003-2004. Árið 1989 varð meistaraflokkur karla í handbolta bikarmeistari en þar spilaði Siggi leiðtogahlutverk innan liðsins. Með liðinu tók Siggi einnig þátt í Evrópukeppni bikarhafa árin 1987 og 1989.

Ásamt því að vera lykilmaður í meistaraflokki Stjörnunnar í handbolta spilaði Siggi einnig með meistaraflokki karla í knattspyrnu á þessum árum. Á þeim tíma vann liðið sig hægt og bítandi upp úr 3. deild í 1. deild. Má þar m.a. nefna að Siggi var í liðinu sem spilaði fyrsta deildarleik meistaraflokks Stjörnunnar í knattspyrnu í efstudeild (Pepsi-Max deildin í dag) þar sem 2-0 sigur vannst á Þór Akureyri.
Árið 1989 var Siggi valinn efnilegasti handboltamaður 1. deildar og árinu seinna Íþróttamaður Garðabæjar ásamt því að fá útnefninguna Afreksmaður UMSK.

Árið 1991 hélt Siggi erlendis í atvinnumennsku í handknattleik og spilaði í Þýskalandi um tíu ára skeið með eftirfarandi liðum:

  • Grosswallstadt, frá árinu 1991-1994.
  • Minden, frá árinu 1996-1997
  • VfL Bad Schwartau, frá árinu 1997-1999
  • HSG Wetzlar, frá árinu 1999-2003

Landsliðsferillinn

Siggi spilaði með öllum yngri landsliðum Íslands í handbolta á sínum uppvaxtarárum og tók meðal annars þátt í Heimsmeistaramóti 21 árs leikmanna og yngri á Spáni árið 1989 og í Grikklandi árið 1991. Einnig spilaði Siggi 15 landsleiki með U-16 ára landsliði Íslands í knattspyrnu árin 1985 og 1986. Siggi tók sín fyrstu skref með A-landsliði Íslands í handbolta þegar liðið mætti Ólympíumeisturum Sovétríkjanna árið 1989 en þá var hann aðeins 18 ára gamall.

Meðal annarra verkefna sem Siggi tók þátt í á landsliðsferlinum voru:

Heimsmeistara B-keppni árið 1991

Ólympíuleikarnir í Barcelona árið 1992

Heimsmeistara A-keppni árið 1993

Evrópukeppni árið 2000

Heimsmeistaramótið árið 2003

Siggi spilaði alls 175 landsleiki fyrir Ísland og skorðaði yfir 400 mörk ásamt því að hafa borið fyrirliðabandið í fjórum leikjum.

Formaður aðalstjórnar Stjörnunnar! Siggi tók við sem formaður aðalstjórnar Stjörnunnar árið 2015 og stýrði störfum félagsins til ársins 2020, en hann kom fyrst inn í aðalstjórn árið 2011

Þjálfun og stjórnunarstörf

Eftir að Siggi lagði skóna á hilluna sem atvinnumaður tók hann við þjálfun meistaraflokks karla í handbolta hjá Stjörnunni. Stýrði hann liðinu árin 2003-2004 og aftur 2005-2007 en liðið varð bikarmeistari undir hans stjórn árið 2006. Árið 2008 tók Patrekur Jóhannesson við af honum sem aðal-þjálfari liðsins en Siggi hélt áfram sem aðstoðarþjálfari það ár.

Árið 2011 óskaði Jóhann Ingimundarson, þáverandi formaður aðalstjórnar, eftir kröftum Sigga í aðalstjórn Stjörnunnar. Siggi vék sér að sjálfsögðu ekki undan því kalli og sat hann sem varaformaður í fjögur ár í formannstíð Jóhanns. Tók hann svo við formennsku aðalstjórnar árið 2015 og stýrði störfum aðalstjórnar til ársins 2020, eða samfleytt í fimm ár.

Á þeim tíma var unnið að mörgum góðum breytingum til að styrkja innviði og verkferla félagsins, m.a. stofnun Afrekssjóðs Stjörnunnar árið 2013 þar sem Siggi var í lykilhlutverki. Sat hann einnig í nefnd innan Stjörnunnar um íþróttasvæðið í Vetrarmýri og í nefnd á vegum Garðabæjar um skipulag á íþróttasvæðinu í Vetrarmýri. Tók hann þátt í stefnumótun félagsins árið 2011-2012 og aftur 2018 þar sem hlutverk, tilgangur og gildi félagsins voru mótuð: Fagmennska, Samvinna, Gleði, Árangur. Átti hann frum-kvæðið að ritun sögu félagsins, Skíni Stjarnan, og sat í ritnefnd. Auk þess átti Siggi sæti í afreks-nefnd UMSK árin 2012-2014.

Í dag situr Siggi í stjórn handknattleiksdeildar Stjörnunnar og tekur öflugan þátt í því uppbyggingarstarfi sem einkennir handboltann í Garðabæ.

Til marks um það bláa Stjörnuhjarta sem Sigga býr í brjósti má nefna að hann hefur hvorki spilað né unnið fyrir neitt annað félag á Íslandi en Stjörnuna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar