Sér strákatímar fyrir 3-9 ára í Ballettskóla Eddu Scheving

Ballettskóli Eddu Scheving býður áfram upp á kennslu á þremur stöðum, í Kópavogi, Grafarvogi og í Skipholti, en Ballettskóli Eddu Scheving er að fara inn í 62. starfsár sitt, skólinn var stofnaður árið 1961.
Ballettskóli Eddu Scheving sérhæfir sig í kennslu í klassískum ballett fyrir alla aldurshópa frá 2ja ára aldri en býður einnig upp á jazzballett og söngleikjadans fyrir forskóla og jazz/modern fyrir eldri nemendur. Ballett-fitness eru tímar fyrir fullorðna og svo eru Silfusvanir sem er frábært prógramm fyrir 65 ára og eldri. Einnig býður skólinn upp á matpilates tíma.

Nýjungin hjá skólanum í ár er að bjóða upp á sér strákatíma fyrir aldurinn 3-9 ára.

Við spurðum skólastjórann, Brynju Scheving af hverju að bjóða upp á sér strákatíma? „Ég hef
hugsað þetta lengi en læt nú verða af því að bjóða upp á þetta. Fyrir rúmum 20 árum eða svo vorum við beðnar um að sjá um ballettkennslu í leikskóla sem bauð upp á mjög skemmtilegt nám sem var mikið byggt upp á ýmsum listgreinum og þar á meðal ballett. Við byrjuðum eins við vorum vanar að skipta í hópa eftir árgöngum en við höfðum aldrei verið með eins marga stráka í sama hóp. Oftast eru kannski 1-2 strákar í hóp að meðaltali. En orkan sem fylgdi svona fjölmennum hóp var svo mikil og drengirnir þurftu bara meiri útrás og meira fjör. Svo við skiptum upp hópunum í sér stelpu- og sér strákahópa,” segir Brynja og heldur áfram: ,,Allir nutu sín betur, stelpurnar blómstruðu í rólegra umhverfi og strákarnir fengu meira prógramm við sitt hæfi þar sem þeir þurftu að hreyfa sig meira, hoppa eins og superman eða leika dreka og rúlla eins og boltar sem dæmi þannig að það var mun meira um að vera í strákatímunum.
Tækni- og undirstöðuæfingar voru að sjálfsögðu þær sömu hjá báðum hópunum og síðan voru æfingar sem hentuðu betur hvoru kyni um sig. Þannig fengu allir meira út úr tímanum. Ég held líka að þetta verði til þess að auka áhugann hjá fleiri strákum, þar sem þeim býðst að koma í sér strákatíma því einhverjum finnst kannski erfitt að koma og vera eini strákurinn í sínum hóp en svo hentar það auðvitað öðrum og að sjálfsögðu má áfram skrá sig í blandaða hópa.“

Hvað er annað svona helst í boði hjá ykkur á komandi skólaári? „Við erum með margt í boði eins og tímar frá 2ja ára og upp úr. Það er einstaklega gaman að kenna þessum yngstu en jafnframt afar krefjandi. En svo er svo gaman að sjá árangurinn og hvað þessir ungu nemendur ná að gera og herma eftir okkur. Þau öðlast styrk og öryggi, þjálfa jafnvægi og fínhreyfingar um leið og þau fá að njóta sín í alls konar leikjum og dönsum. Svo eykst þjálfun með hverjum stigi fyrir sig.
Við bjóðum einnig boðið upp á jazzballett/söngleikjadans og jazz/modern tíma fyrir alla.
Ballett fyrir fullorðna er skemmtilegt prógramm sem við höfum boðið upp á lengi og svo eru Silfursvanirnir eru frábærir tímar fyrir aldurinn 65 ára og eldri. Þar bjóðum við upp á mjúka og létta tíma sem einkennast þó mest af tignarlegum hreyfingum, glæsileika og fallegri tónlist.
Pilates tímarnir er frábært kerfi til að styrkja miðju líkamans. Tímarnir byggjast á styrktar- og jafn-vægisæfingum og djúpvöðvaþjálfun,” segir Brynja að lokum.

Myndirnar sem fylgja eru teknar í kennslustund hjá skólanum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar