Breiðablik leggur áherslu á að ætíð sé fyllsta jafnréttis gætt og að aldrei halli á hvort kyn

ÍTF, hagmunasamtök félaga í efstu deildum karla og kvenna, hefur sætt gagnrýni síðustu daga í ljósi meintrar mismununar gegn kvennafótbolta og nú hefur stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðunnar.

,,Stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks fagnar af heilum hug aukinni umræðu og áhuga á knattspyrnu kvenna, hvort sem það snýr að kynningarmálum, aðstöðumálum eða öðru.
Þar má sérstaklega nefna eftirtektarverða samstöðu fyrirliða í Bestu deild kvenna undanfarna daga.

Knattspyrnudeild Breiðabliks leggur áherslu á að í þeim samtökum eða verkefnum sem félagið er aðili að sé ætíð fyllsta jafnréttis gætt og að aldrei halli á hvort kyn.

Á síðustu árum hefur leiknum sannarlega verið breytt þannig að áhugi og áhorf á knattspyrnu kvenna hefur aukist verulega. Af þeim sökum er mikilvægt að allir sem að því verkefni koma séu samstíga og gæti vel að framsetningu og markaðssetningu enda er auðvelt að misstíga sig og falla út af sporinu. Nú skiptir máli að ÍTF, félögin og leikmenn nái að byggja upp traust sín á milli og að lærdómur verði dreginn af atburðarrás síðustu daga. Knattspyrnudeild Breiðabliks mun beita sér í þeirri vegferð. 

Við í Breiðabliki höfum á vettvangi KSÍ og annars staðar talað fyrir sjónarmiðum jafnréttis og jafnræðis með margvíslegum tillöguflutningi og umræðu og munum halda því áfram af öllu okkar afli. Við viljum eiga gott samstarf með öllum þeim sem vilja vinna að vexti og hag knattspyrnu kvenna og halda áfram að leggja okkar af mörkum en um leið vera óhrædd við að benda á það sem betur má fara.“

Mynd: Flosi Eiríksson er formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar