Skýrsla um nýtingu hvatapeninga í Garðabæ árið 2024 var nýverið kynnt í íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar og sýnir hún að mikill meirihluti barna sem áttu rétt á stuðningi nýttu hann. Hvatapeningar eru fjárhagslegur stuðningur sem foreldrar og forráðamenn barna geta nýtt til að niðurgreiða þátttöku barna sinna í íþrótta- og tómstundastarfi, með það að markmiði að efla virkni, félagslega þátttöku og heilsueflingu barna og ungmenna í sveitarfélaginu.
tjarnan3020 börn (77,7%) nýttu sér hvatapeningana
Árið 2024 áttu alls 3886 börn á aldrinum 5–17 ára rétt á hvatapeningum. Af þeim nýttu 3020 börn (77,7%) sér rétt sinn að einhverju leyti. Samtals nam úthlutunin 163.310.454 krónum, sem er aukning frá árinu áður þegar heildarúthlutun var tæplega 154 milljónir.
Flestir hvatapeningar runnu til félaga innan Garðabæjar og þar bar íþróttafélagið Stjarnan höfuð og herðar yfir önnur félög með rúmlega 92,5 milljónir króna, sem jafngildir 56,7% af heildargreiðslum og um 76,6% af þeim greiðslum fóru til félaga í Garðabæ. UMFÁ fékk tæpar 8,2 milljónir króna, eða 5% af heildinni.
Auk hefðbundinna hvatapeninga var sérstakur stuðningur í boði fyrir tekjulægri heimili. Alls nýttu 24 börn þann stuðning sem nemur 15.000 kr. í viðbótarhvatapening eða samtals 360.000 kr. í viðbótargreiðslur.
Meðaltalsnýting hvatapeninga yfir alla árganga var 77% árið 2024 eins, sem er lítil hækkun frá 75% árið áður. Það er greinilegt að hvatapeningarnir eru virkt úrræði til að auka aðgengi barna að skipulögðu frístundastarfi.