Bæjarráð Garðabæjar tók fyrir á fundi sínum í síðustu viku fyrirspurn um deiliskipulagsbreytingu á lóðinni Ránargrund 4 á Sjálandi. Erindið kemur frá Zeppelin arkitektum, fyrir hönd World Class.
Í erindinu koma fram hugmyndir um að stækka núverandi húsnæði með það að markmiði að opna annars vegar líkamsræktarstöð og heilsulind í viðbyggingu, og hins vegar veitingastað og veislusal í núverandi byggingu.
Bæjaryfirvöld hafa ákveðið að rýna málið sérstaklega með hliðsjón af nokkrum mikilvægum þáttum, meðal annars þess að Arnarnesvogur, sem liggur í nágrenni lóðarinnar, er friðlýstur og þarf því að meta áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfið.
Einnig kemur fram að áformin gera ráð fyrir byggingarmagni umfram það sem kveðið er á um í gildandi deiliskipulagi fyrir Ása og Grunda. Breytingin myndi einnig ná út fyrir skilgreindan byggingarreit og hafa áhrif á lóð Ránargrundar 2.
Samhliða þarf að skoða og meta bílastæðaþörf og mögulega aukna umferð sem fylgja rekstri veitingastaðar og heilsulindar á svæðinu.
Erindinu hefur verið vísað til umhverfissviðs Garðabæjar til nánari skoðunar og úrvinnslu.