Sem frambjóðandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi hef ég verið að hringja í flokksfólk síðustu daga og vikur. Þar sem ég bý í Garðabæ hef ég aðallega verið að hringja í Garðbæinga og er búin að spjalla við mörg hundruð manns á öllum aldri sem hefur verið virkilega ánægjulegt. Það kemur skýrt í ljós í spjallinu – sem ég vissi reyndar áður – að Garðbæingar eru jákvætt og skemmtilegt fólk sem er í langflestum tilfellum til í að spjalla í stutta stund um kosningarnar sem framundan eru. Mjög margir óska flokknum, mér og framboðinu góðs gengis sem er dýrmætt að heyra þegar maður er að hella sér út í þessi mál í fyrsta sinn. Aðrir vilja ræða einstök mál, hafa spurningar sem fara á dýptina og þá er gott að geta boðið þeim að fá símtal frá okkar ágæta forystufólki og þingmönnum sem staðið hafa vaktina síðustu ár og hafa svör við öllum spurningum á reiðum höndum. Það er nefnilega oftast þannig að þegar fólk fær greinargóðar útskýringar á því hvers vegna ákvarðanir voru teknar og hlutir framkvæmdir eins og raun ber vitni, þá skilur fólk niðurstöðuna. Og ef enn er einhver vafi þá er mjög gott að geta bent á hversu vel Garðabær og sveitafélög undir stjórn Sjálfstæðismanna í Kraganum eru rekin og hversu gott það sé að búa í Garðabæ.
Eftir risastórar áskoranir síðustu ára s.s. heimsfaraldur, stríð í Evrópu, brottflutning heils sveitafélags og aðrar náttúruhamfarir þá er hreinlega ósanngjarnt að horfa bara á það sem hefði getað verið gert á annan hátt. Við kjósendur þurfum að vera skynsöm og sanngjörn í gangrýni okkar, horfa á það sem vel var gert og treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn muni halda áfram að stýra landinu í átt til frekari hagsældar. Vaxtalækkunarferli er hafið, það er stærsta hagsmunamál okkar allra þessa mánuðina og það verður að auka aðhald í ríkisfjármálum og stöðugleika svo vextirnir haldi áfram að lækka. Ég tek því undir orð varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að við kunnum þetta – en þurfum sterkt umboð til að framkvæma.
Munum það 30. nóvember og setjum x við D.
Sunna Sigurðardóttir skipar 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi