Vonandi getur Gróska haldið hátíð í haust með stuðningi Garðabæjar

Eins og kemur fram í aðsendri grein frá stjórn Grósku hér á síðunni þá verður engin Jónsmessa haldin í ár þar sem enginn samningur er við Garðabæ um hátíðina. Þá hafa töluverðar umræður skapast á samfélagssíðum undanfarna daga um málið. Garðapósturinn leitaði svara um málið hjá Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, samskiptastjóra Garðabæjar.

„Okkur finnst auðvitað afskaplega leiðinlegt að ekki varð af Jónsmessuhátíðinni, en vonum að Gróska haldi hátíð í haust með okkar stuðningi. Garðabær hefur átt og vill áfram eiga í góðu samstarfi við félagið,“ segir Ásta Sigrún Magnúsdóttir, samskiptastjóri Garðabæjar.

Verður að vera hægt að sýna í hvað skattfé bæjarbúa fer

En hvers vegna er ekki búið að ljúka við samningagerðina? „Garðabær hefur haft vilja til að klára það mál með sóma fyrir báða aðila. Þegar unnið er að styrkveitingum til félagasamtaka þarf bærinn að fá upplýsingar um rekstrar- stöðu, ársreikning og upplýsingar um það í hvað styrkurinn verður nýttur og í sumum tilfellum hvernig síðasta styrk var ráðstafað. Það er mikilvægt þegar farið er með skattfé bæjarbúa að við get- um staðið skil á því hvernig þeim er ráðstafað. Við höfum fundað með Grósku og bæjarstjóri hefur átt í góðu samtali við formann Grósku um þessi mál. Eftir stendur að til þess að hægt væri að klára samningagerðina vantaði okkur þessi tilteknu gögn. “

Setjumst niður með Grósku og förum yfir stöðuna

Og verður þá hægt að ljúka samningi núna? „Alveg örugglega. Nú setjumst við niður með Grósku og förum yfir stöðuna, göngum vonandi frá samningi eftir sumarleyfi og höldum áfram að styðja við blómstrandi menningarlíf Garðabæjar. Menningarstarfið okkar er fjölbreytt og það hefur verið á mikilli sigl- ingu – og verður auðvitað áfram,“ segir Ásta Sigrún.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar