Villja að matarkostnaður í leik- og grunnskólum falli undir reglur um tekjutengingu

Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ingvar Arnarson bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans vilja að matarkostnaður í leik- og grunnskólum falli undir reglur um tekjutengingu og lögðu þau fram eftirfarandi tillögu.

„Í febrúar á þessu ári tóku gildi reglur í Garðabæ um tekjutengingu afsláttar af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra. Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn samþykki að undir þessar reglur falli einnig matarkostnaður í leik- og grunnskólum.“

Ingvar Arnarson

Í greinagerð sem fylgdi tillögu þeirra kemur m.a. fram að ekkert veganesti sé betra fyrir barn en að alast ekki upp við efnislegan skort. ,,Þetta sýnir fjöldi rannsókna ítrekað. Það var þess vegna mikið framfaraskref þegar tekjutengingu á gjöldum fyrir leikskóla, dagforeldra og frístund var komið á í Garðabæ í febrúar 2022. Í þeim reglum kemur fram að þær eigi að endurskoða við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. 
Garðabæjarlistinn vill við þessa endurskoðun gera enn betur fyrir tekjulægri fjölskyldur, ekki síst með hliðsjón af t.d. heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (sjá markmið 1 og 2). Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er einnig fjallað sérstaklega um rétt barna til næringar og skyldu stjórnvalda til að uppfylla þau réttindi (grein 27). Það er öllum til hagsbóta að jafna stöðu barna í sveitarfélaginu og í efnahagsástandi líkt og nú ríkir er sérstaklega mikilvægt að sá hópur sem mest þarf á að halda njóti ríkari afsláttarkjara.“
Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúar.

Bæjarstjórn vísaði framkominni tillögu til afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.

Forsíðumynd: Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar