Vill kolefnisjafna rekstur Garðabæjar með greiðslu í Votlendissjóð

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar hefur lagt fram tillögu í bæjarráði um að kolefnisjafna rekstur Garða-bæjar ár hvert með greiðslu í Votlendissjóð til þess að undirstrika mikilvægi þess að draga úr losun koltvíoxíð.

Í greinagerð með tillögunni kemur fram að núverandi kolefnisspor af rekstri sveitarfélagsins nemi um 650 tonnum af CO2 ígildum. ,,Hægt væri að kolefnisjafna reksturinn á hverju ári og taka ábyrgð á fyrri losun, t.d. með því að láta viðurkenndan aðila eins og Votlendissjóð endurheimta votlendi fyrir sömu upphæð. Endurheimt votlendis er skjótvirkasta loftslagsaðgerðin og hefur mikil jákvæð áhrif á vistkerfið. Garðabær vinnur markvisst að því að draga úr losun frá starfsemi sveitarfélagsins en er í skuld við framtíðina vegna fyrri losunar. Því er kjörið tækifæri til að stíga fram fyrir skjöldu og kolefnisjafna síðustu 10 ár og verða fyrsta sveitarfélagið sem kolefnisjafnar sig.

Árið 1976 varð Garðabær kaupstaður og það væri metnaðar-fullt að stefna að því á 50 ára afmælinu árið 2026 væri sveitarfélagið kolefnisjafnað frá upphafi.

Kostnaðurinn við þessa aðgerð miðað við verð Votlendissjóðs á hvert tonn er 2.000 krónur. Fyrir hvert ár væri áætlað verð í kring um 1.3 milljónir króna.“

Bæjarráð vísaði tillögunni til umfjöllunar umhverfisnefndar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar