Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2024 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Almar Guðmundsson bæjarstjóri kynnti helstu lykiltölur og niðurstöður rekstrarársins og þakkaði jafnframt starfsfólki bæjarins fyrir þeirra hlut í góðum rekstri bæjarsjóðs.
Kallar eftir áhættumeðvitaðari umræðu
Guðlaugur Kristmundsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, lagði fram bókun á fundinum þar sem hann lýsti ánægju með afkomuna en lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að auka áherslu á áhættugreiningu og opna umræðu um alla þætti rekstrar sveitarfélagsins. „Við í Viðreisn erum ánægð að sjá afgang af rekstri sveitarfélagsins. Hluti af þeim árangri er að íbúafjöldi hefur aukist umfram spár sem hefur aukið útsvarstekjur sveitarfélagsins umfram tekjuáætlanir og aukin hlutlæg framlög úr jöfnunarsjóði vegna málaflokks fólks með fötlun,“ sagði Guðlaugur.
Hann hrósaði jafnframt stjórnendum fyrir dýrmætar aðhaldsaðgerðir sem hafi skilað sér í góðri niðurstöðu.
Þurfum öll í bæjarstjórn að skilja og þekkja hvaða áhættu rekstur sveitarfélagsins felur í sér
Guðlaugur hvatti til þess að bæjarstjórn nálgist fjármálaáætlanir og ársreikninga með auknum áherslum á áhættumiðaða greiningu. „Við í pólítíkinni ættum, í samvinnu við starfsmenn bæjarins, að venja okkur við umræðu og vinnubrögð við ársreikninga og fjárhagsáætlanir með áhættumiðaðri umfjöllun í huga. Við þurfum öll í bæjarstjórn að skilja og þekkja hvaða áhættu rekstur sveitarfélagsins felur í sér, hvort sem hún er fjárhagsleg eða felur í sér óefnislega áhættu, eins og vistun gagna, fjármögnun, veikleika eða fyrirséðar ógnir sem geta haft áhrif til skemmri eða lengri tíma.“