Vilja seinka upphafi skóladags í á unglingastigi í Garðabæ

Garðabæjarlistinn hefur lagt fram tillögu að stofnun starfshóps vegna seinkunar á upphafi skóladags á unglingastigi, en það var Harpa Þorsteinsdóttir sem bar tillöguna upp fyrir hönd Garðabæjarlistans á fundi bæjarstórnar í síðustu viku og lagði fram greinagerð.

Harpa Þorsteinsdóttir.

Greinargerð Garðabæjarlistans: 

,,Góður svefn er öllum nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Svefn hefur meðal annars jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, á námsgetu og einbeitingu, hjálpar heilanum að festa upplýsingar í minni og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna.

Umræða um seinkun skólabyrjunar í Garðabæ er ekki ný af nálinni. Það er áskorun fyrir skólana að taka þetta skref og sérstaklega ef að sveitarfélagið styður ekki vel við bakið á þeim því breytingin á sér ekki eingöngu stað innan skólanna. Það þarf að rýna vel hvernig skipulag sveitarfélagsins styður við og ég hef fulla trú á því að tækifærin séu til staðar í okkar góða samfélagi. 

Við viljum fjárfesta í heilsunni með aðgerðum sem stuðla að bættum svefni. Við þurfum að þora að taka skrefið og seinka skólabyrjun á unglingastigi ásamt því að auka vægi fræðslu um mikilvægi svefns. Þannig getum við stutt við heilbrigða framtíð, með mótvægisaðgerð eins og að seinka skólabyrjun lengjum við svefn ungmenna og erum með því að sporna við þeim áhættuþáttum sem við erum að takast á við í auknum mæli í samfélaginu, t.d. streitu og kvíða.

Lagt er til að skipaður verði starfshópur með fulltrúum skóla, íþrótta og tómstunda í Garðabæ, sem verði falið að leggja grunn að breiðu samráði um mögulegar leiðir til að seinka upphafi skóladags í á unglingastigi í Garðabæ. Mikilvægt er að kalla eftir samráði við nemendur, kennara, starfsfólk, skólastjóra, fulltrúa íþrótta- og tómstundastarfs ásamt því að tekið verði tillit til reynslu annarra sveitarfélaga sem nú þegar stefnt í þessa átt. Einnig er lagt til að starfshópurinn muni greina frá vinnu sinni til upplýsinga og umræðu til skólanefndar og íþrótta- og tómstundanefndar og þá sé stefnt að því skýrsla liggi fyrir 20. febrúar 2025.“

Lagt var til að tillögunni yrði vísað til umfjöllunar í skólanefnd grunnskóla, íþrótta- og tómstundaráði og rædd í ungmennaráði. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar