Bæjarráð hefur samþykkt að skipa Stellu Stefánsdóttir, formann umhverfisnefndar og varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans og Guðbjörgu Brá Gísladóttur, deildarstjóra umhverfis og framkvæmda í stýrihóp til að vinna drög að fimm ára hjólreiðaáætlun fyrir Garðabæ, en Garðabæjarlistinn lagði til í sumarbyrjun tillögu um gerð hjólreiðaáætlunar fyrir Garðabæ.
Í tillögunni kemur fram að stýrhópurinn fái það verkefni að vinna að drögum að fimm ára hjólreiðaáætlun fyrir Garðabæ. Stefnt verði að því að drög verði tilbúin á vordögum 2023 og kynnt fyrir bæjarstjórn. Í hjólreiðaáætlun skulu vera mælanleg markmið, framkvæmdir og aðgerðir fyrir árin 2023-2028, en hún er smíðuð og sett fram í því skyni að auka hlutdeild hjólandi vegfarenda í Garðabæ.
Hjólreiðar eru skemmtilegur, hagkvæmur og heilsusamlegur ferðamáti
Í greinagerð sem fylgdi tillögu Garðabæjarlistans kemur m.a. fram að með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins fylgi fjöldamörg tækifæri. ,,Fyrirhuguð borgarlínustöð við Ásgarð mun gjörbylta aðgengi Garðbæinga að hágæða almenningssamgöngum út úr bænum, en mikilvægt er að Garðabær hafi farið í markvissa vinnu til þess að auka hlutfall þeirra sem nýta virka ferðamáta til þess að byggja undir þær framkvæmdir. Í bænum okkar eru stór tækifæri til bætinga á þessu sviði.
Hjólreiðar eru skemmtilegur, hagkvæmur og heilsusamlegur ferðamáti. Fyrir sveitarfélagið er aukin áhersla á hjólreiðar leið til þess að vinna að mörgum mikilvægum málum í einu. Hér er um að ræða lýðheilsumál (sbr. Heilsueflandi samfélag), lífsgæðamál, loftslagsmál og mál sem er til þess fallið að minnka mengun af völdum bílaumferðar. Til viðbótar er ljóst að hjólreiðaáætlun og framfylgd hennar mun auka umferðaröryggi hjólandi og gangandi vegfarenda á öllum aldri, bæta lífsgæði íbúa og bæjarbraginn,“ segir í greinagerðinni.
Forsíðumynd: Stella Stefánsdóttir