Víkja ekki frá ákvæðum gildandi deiliskipulags

Á síðasta fundi skipulagsnefndar Garðabæjar var lögð fram tillaga að breytingum á deiliskipulagi Garðahverfis að lokinni forkynningu.

Lagðar voru fram þær ábendingar sem borist hafa, en skipulagsnefnd telur ekki ástæðu til þess að víkja frá ákvæðum gildandi deiliskipulags hvað varðar flatarmál nýrra íbúðarhúsa. Í kynningu Alta ehf á síðasta fundi nefndarinnar voru sýnd dæmi um íbúðarhús frá þeim tíma sem flest íbúðarhús í Garðahverfi voru byggð en grunnflötur þeirra var jafnan minni en deiliskipulag heimilar. Auk Garðahverfis voru tekin dæmi úr Hafnarfirði.

Leggja áherslu á að ákvæðum deiliskipulagsins sé fylgt fast eftir

Vandað var til deiliskipulags Garðahverfis þegar það var í mótun og nefndin leggur áherslu á að ákvæðum deiliskipulagsins sé fylgt fast eftir til þess að markmiðum þess um yfirbragð byggðarinnar náist. Skipulagsnefnd bendir hinsvegar á að full ástæða er til þess að skoða tillögur að íbúðarhúsum með opnum hug þegar þar að kemur og útilokar ekki að vikið verði að einhverju leyti frá ákvæðum skipulags ef það er mat nefndarinnar að útfærsla byggingar falli vel að markimiðum deiliskipulagsins.

Hnappsettar nýbyggingar

Fram kom í kynningu Alta ehf þá var við deiliskipulagningu Garðahverfis lögð áhersla á að nýbyggingar yrðu hnappsettar ásamt þeim býlum sem eru þar fyrir með það að tilgangi að túnin milli bæjanna haldi sér og að hver þyrping myndi endurspegla það búsetulandslag sem deiliskipulaginu er ætlað að viðhalda. Þessvegna leggur nefndin til að nýjar byggingar verði staðsettar eins og deiliskipulag gerir ráð fyrir.

Skipulagsnefnd leggur einnig til að ákvæði um göngustíg beint frá Garðaholti að Garðakirku verði óbreytt en að einnig verði gert ráð fyrir tengingu meðfram Garðavegi og aðkomuvegi að Görðum. Stígur þvert yfir túnið verði hinsvegar ekki lagður nema með samþykki eigenda að Görðum.

Skipulagsnefnd leggur til að gert verði ráð fyrir nýrri lóð fyrir íbúðarhús við Nýjabæ 2 og Eystri Dysjar í samræmi við óskir ábúenda. Sömu ákvæði skulu gilda um þær byggingar og um önnur íbúðarhús innan þess svæðis í Garðahverfi sem skilgreint er sem landbúnaðarland í aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030.

Meirihluti skipulagsnefndar samþykkti að vísa tillögu að breytingu deiliskipulags Garðahverfis með ofangreindum breytingum til auglýsingar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar