Jólahátíðin er framundan með öllum sínum girnilegu kræsingum, en þetta er einmitt sá tími sem við gleðjumst saman og gerum vel við okkur í mat og drykk. Nú hefur verið opnað fyrir hið margrómaða og ævintýralega jólahlaðborð Fjörukráarinnar sem hefst 18. nóvember næst komandi, en Fjörukráin er lítið og persónulegt fjölskyldufyrirtæki sem Garðbæingurinn, Jóhannes Viðar Bjarnason hefur rekið frá árinu 1990.
Það er ekki eingöngu að jólahlaðborðið sé skreytt með fjölbreyttu úrvali af góðum jólamat heldur er mikill ævintýrablær yfir Fjörukránni, sem jafn spennandi fyrir börn og fullorðna, en Fjörukráin er í víkingastíl, skreyttur með yfir 100 uppstoppuðum dýrum og þar er líka að finna 1200 lítra fiskabúr sem er fyrir ofan 16 metra langan útskorin bar svo fátt eitt sé nefnt. En aftur að jólahlaðborði Fjörukráarinnar.
Garðapósturinn heyrði í Garðbæingnum og dóttir Jóhannesar Viðars, Birnu Viðarsdóttur, veitingastjóra Fjörukráarinnar og spurði hana nánar um jólahlaðborðið.
Jólahlaðborðin breytast kannski ekki mikið á milli ára enda úrvalið fjölbreytt – hvað bjóðið þið upp á í ár? ,,Það er engin ástæða til að breyta því sem vel gengur, þetta er orðið 33 ára viðburður og fólk kemur aftur ár eftir ár,” segir Birna en matseðilinn er hægt að skoða á www.fjorukrain.is
Eins og þú segir þá hafið þið verið með jólahlaðborð Fjörukráarinnar í 33 ár, hvað hefur kitlað bragðlauka gesta einna mest í gegnum árin? ,,Það er svo sem ekkert eitt fram yfir annað. Við höfum haft þetta með klassísku sniði og ég held að fólk sé að sækja í þetta gamla góða. Eins hefur það áhuga að komast í öðruvísi umhverfi, en við erum dugleg að skreyta og fólk kemst í jólaskap um leið og það gengur hér inn,” segir hún.
Og er þetta alltaf skemmtilegur en annasamur tími fyrir ykkur og starfsfólkið? ,,Já, þetta er mjög skemmtilegur tími, alltaf fullbókað um helgar og allir í jólaskapi.”
Og það er alltaf dálítill ævintýraljómi yfir Fjörukránni enda húsnæði einstakt? ,,Já, þetta er veitingastaður sem á sér engan líkan, endalaust hægt að skoða og jafnt börn sem fullorðnir hafa gaman af því að koma.”
En ásamt flottu jólahlaðborði verður þá líka boðið upp á lifandi músík? ,,Víkingasveitin okkar er alltaf á sínum stað, sumir búnir að vera hjá okkur í 30 ár og aðrir fara og koma aftur. Það eru mismargir söngvarar á kvöldin en þeir eru frá tveimur og uppí fimm talsins. Söngvararnir ganga um á milli borða og syngja og spila á gítar og spjalla við gestina. Á jólahlaðborðinu verðum við svo með Braga Árnason trúbador sem heldur uppi stuðinu eftir að borðhaldi líkur,” segir Birna að lokum, en bókanir eru í fullum gangi og hún hvetur fólk til að bóka sem fyrst.
Jólahlaðborðið kostar 14.500 kr. á mann og hægt er að bóka í gegnum tölvupóst, á netfangið [email protected]