Greining á hááhættu- og hættusvæðum vegna gróðurelda í upplandi Garðabæjar var rædd á fundi umhverfisnefndar í síðustu viku, en nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að hagaðilar vinni saman við að meta áhættu á gróðureldum og setja fram aðgerðaráætlun um forvarnir og viðbragð.
Garðabær fékk Ásdísi Björk Friðgeirsdóttur hjá Búnaðarháskóla Íslands vinna skýrslu og greiningu á hááhættusvæðum og hættusvæðum í gróðureldum í upplandi Garðabæjar. Verkefnið var unnið í samstarfi við sveitarfélagið Garðabæ þar sem Hrönn Hafliðadóttir, verkefnastjóri skipulagsmála hjá Garðabæ, var tengiliður við Landbúnaðarháskóla Íslands, en hún kynnti verkefnið og kom að upplýsingaöflun. Verkefnið snýr að því að nota landslagsgreiningu til að skilgreina hættumat vegna gróðurelda á grónu landi í upplandi Garðabæjar. Hluti af því svæði tilheyrir Heiðmörk en einnig er Sandahlíð hluti af svæðinu.
Gott skipulag dregur úr og kemur jafnvel í veg fyrir náttúruhamfarir vegna náttúruvár
Gróðureldar flokkast sem náttúruvá en ljóst er að ein mikilvægasta forvörnin til að draga úr og jafnvel fyrirbyggja náttúruhamfarir vegna náttúruvár er gott skipulag. Það byggir m.a. á hættu- og áhættumati. Með slíku verklagi má draga verulega úr tjónnæmi samfélagsins og auka seiglu þess. Hættu- og áhættumat stuðlar einnig að bættu eftirliti vegna náttúruvár.
Verkefnið felst í að leggja mat á útivistarsvæði í upplandi Garðabæjar þar sem ákveðin þemu eru skoðuð út frá hættu vegna bruna á skógar- og gróðurlendi. Nýlegt deiliskipulag liggur fyrir á svæðinu og svæðið, sem fellur innan lands Garðabæjar, afmarkar það svæði verkefnisins sem unnið er með. Flóttaleiðir eru skoðaðar, aðgengi að vatni og aðgengi fyrir viðbragðsaðila m.t.t. ástands og burðarþols vega, þéttleika gróðurs og vatnsverndar, svo eitthvað sé nefnt, með það að markmiði að undirbúa upplýsingar fyrir viðbragðsáætlanir á svæðinu.
Þéttur gróður, ekkert aðgengi að vatni, fjölsótt svæði og aðgengi slökkviliðs slæmt
Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a. að þegar eingöngu er stuðst við þætti úr skilgreiningum Almannavarna höfuðborgarsvæðisins þá flokkast Vífilsstaðahlíð, Vífilsstaðasel og Hjallamisgengi sem hááhættusvæði. ,,Helstu þættir sem leiða til þessarar niðurstöðu eru að á þessum svæðum er mjög þéttur gróður, aðgengi að vatni á svæðum er ekkert og svæðin eru fjölsótt af almenningi. Ennfremur er aðgengi slökkviliðs slæmt í Vífilsstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli.
Þegar allir þættirnir eru teknir með þá flokkast sömu svæði áfram sem hááhættusvæði ásamt friðlandi í kringum Vífilsstaðavatn, skógargarðinum í Sandahlíð og svæðinu í kringum útilífsmiðstöðina og Grunnavatn nyrðra. Helstu þættir sem leiða til þessarar niðurstöðu eru að á þessum svæðum er mjög þéttur gróður og almenningur notar þessi svæði mikið til útivistar. Á þessum þremur svæðum, sem bættust við þegar allir þættirnir eru notaðir til greiningar, þá er aðgengi slökkviliðs metið sem slæmt. Í þessari greinargerð var sérstaklega horft til svæðisins í kringum útilífsmiðstöðina og Grunnavatn nyrðra, í ljósi þess að þetta svæði verður mikið notað fyrir börn og ungmenni á komandi árum í tengslum við útilífsmiðstöðina Vífilsbúð. Með tilkomu og nýtingu á borholu við Vífilsbúð er tryggt aðgengi að vatni en til þess að slökkviliðið geti nýtt það vatn þá þarf það að komast að Vífilsbúð.
Önnur svæði flokkast sem hættusvæði. Þegar horft er á niðurstöður úr greiningunni þá er um að ræða svæðin fyrir sunnan útilífsmiðstöðina að Hjallamisgengi og fyrir sunnan Sandahlíð, austan við Grunnavatn nyrðra og norðan við vatnsverndarsvæðið. Á þessum svæðum 24 skapast ekki hááhætta í gróðureldum en að sjálfsögðu eru þessi svæði nálægt skilgreindum hááhættusvæðum og því þarf jafnframt að gæta vel að forvörnum, viðhaldi gróðurs/vega og skipulagi á hættusvæðum.“
Ásókn almennings til að koma á svæðið til útivistar mun aukast á næstu árum og áratugum og því mun hááhætta og hætta aukast
Ásdís segir að ef horft er á greininguna þannig að reynt er að komast að því á hvaða þætti er hægt að hafa áhrif þá er ljóst að ásókn almennings til að koma á svæðið til útivistar mun aukast á næstu árum og áratugum og því mun hááhætta og hætta aukast með auknum fjölda fólks á svæðinu. Bæði vegna fólksins og einnig fyrir fólkið.
Vífilsstaðahlíðin þarfnast jafnframt stöðugrar vöktunar og grisjunar
,,Almenningur vill hafa gróður og sums staðar þéttan gróður í upplandi Garðabæjar. Eitt af því sem gerir upplandið að því sem það er í dag sem útivistarsvæði er gróðurinn og þéttur gróður á vissum svæðum. Gæta þarf vel að forvörnum með grisjun og einnig hvernig gróðursett er í ný svæði. Vakin er sérstök athygli á svæðinu í kringum Vífilsbúð þar sem búið er að gróðursetja furum ansi þétt. Ekki er talið ráðlagt að gróður þéttist um of á þessu svæði. Vífilsstaðahlíðin þarfnast jafnframt stöðugrar vöktunar og grisjunar,“ segir í skýrslunni.
Grillaðstaða og útieldun skólabarna við Vífilsbúð varhugaverð
Þá segir Ásdís að grillaðstaða og fyrirætluð útieldun skólabarna við Vífilsbúð sé varhugaverð og því þurfi að gæta vel að brunavörnum í því tilliti. ,,Með tilkomu og nýtingu á borholu við Vífilsbúð er tryggt aðgengi að vatni á því svæði en til þess að slökkviliðið geti nýtt það vatn þá þarf það að komast að Vífilsbúð. Gert er ráð fyrir að slökkviliðið geti notað línuveginn sem liggur upp í gegnum Vífilsstaðahlíð en sá vegur er grófur og torfær á köflum þannig að það er spurning hvort hægt sé að segja að vegurinn sé greiðfær slökkviliðsbílum. Sinna þarf betur línuveginum með reglulegu viðhaldi og tryggja þarf aðgengi slökkviliðs yfir í land Kópavogs, en núverandi reiðleið frá Vífilsbúð og yfir í Kópavog er mjög ákjósanleg til að skilgreina sem flóttaleið, sérstaklega í ljósi þess að línuvegurinn í gegnum Vífilsstaðahlíð er ekki greiðfær og getur lokast vegna gróðurelda í Vífilsstaðahlíð. Æskilegast væri að gera þessa tæplega 2 km reiðleið frá Vífilsbúð og yfir í Kópavog að vegi því Kópavogs megin tekur svo við línuvegur í beinu framhaldi. Það þarf að huga að auknu aðgengi slökkviliðs og tryggja viðhald og burðarþol vega og stíga í öllu upplandi Garðabæjar. Ljóst þykir að það er erfiðara að hafa áhrif á aðgengi að vatni sem er mjög takmarkað á flestum svæðum upplandsins nema með því að bora eftir vatni eða tryggja aðgengi slökkviliðs og þar með fæst aðgengi að vatni. Á svæðinu fyrir sunnan útilífsmiðstöðina er vatnsverndarsvæði og þar ber að fara að öllu með gát.“
Það svæði sem má helst brenna í upplandi Garðabæjar er svæðið sunnan Sandahlíðar, austan við Grunnavatn nyrðra og norðan við vatnsverndarsvæðið
Þegar horft er á tengingu þátta við þemu verkefnisins þá sést að flestir þættir tengjast þema sem snýr að landnotkun, innviðum og mannvirkjum, en á það þema er einmitt hægt að hafa hvað mest áhrif. ,,Í gróðureldum ber að vernda gróður, verndarsvæði, menningarminjar og mannvirki. Það svæði sem má helst brenna í upplandi Garðabæjar er svæðið sunnan Sandahlíðar, austan við Grunnavatn nyrðra og norðan við vatnsverndarsvæðið. Þar er í raun engin hááhætta til staðar nema gagnvart aðgengi slökkviliðs og aðgengi að vatni. Svæðið fyrir sunnan Vífilsbúð og að Hjallamisgengi er á vatnsverndarsvæði sem að auki skapar hááhættu í gróðureldum en það svæði flokkast samt eingöngu sem hættusvæði,“ segir í skýrslunni.
Helstu atriði sem þarf að huga að út frá niðurstöðum þessa verkefnis eru:
- Tryggja og auka aðgengi slökkviliðs og einnig burðarþol og viðhald á vegum og stígum í upplandi Garðabæjar.
- Huga vel að brunavörnum í umhverfi útilífsmiðstöðvarinnar Vífilsbúðar og að gróður verði ekki of þéttur þar í kring.
- Í gróðureldum ber að vernda mannvirki, gróður, menningarminjar og verndarsvæði.
- Við frekari framkvæmdir á svæðinu þarf að huga að því að þær hafi ekki neikvæð áhrif á upplifun þeirra sem sækja svæðið og að þær falli vel að umhverfinu.
Hægt að hafa mikil áhrif á aðgengi slökkviliðs og þéttleika gróðurs
,,Eftir að hafa farið í gegnum þessa greiningu þá liggur það í augum uppi að hægt er að hafa mikil áhrif á aðgengi slökkviliðs og þéttleika gróðurs. Með auknu og bættu aðgengi slökkviliðs ásamt náinni vöktun á vexti gróðurs með viðeigandi viðbrögðum er verið að stuðla að öryggi fólks, menningarminja og gróðurs, og draga þannig úr hááhættu og hættu í gróðureldum í upplandi Garðabæjar,“ segir Ásdís í lok skýrslunnar.
Forsíðumynd: Vífilsstaðahlíð