Viðreisn landaði stórsigri í Garðabæ

Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar náði kjöri í sveitarstjórnarkosningunum 11. maí sl., en Sara Dögg hefur undanfarin fjögur ár verið bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.

Garðapósturinn spurði hvort hún væri sátt með árangurinn sem Viðreisn náði í kosningunum miðað við að þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn býður fram undir eigin nafni í Garðabæ? ,,Viðreisn landaði stórsigri í Garðabæ. Flokkurinn hefur hvergi mælst með þetta fylgi á sveitarstjórnarstiginu frá upphafi. Þannig að já, ég er afar stolt og þakklát kjósendum okkar. Það eru hinsvegar ákveðin vonbrigði að 13,3% fylgi gefi ekki tvo menn en svona eru úthlutunarreglurnar.”

Vagga Viðreisnar er í Garðabæ

Þið ákváðu að slíta samstarfinu við Garðabæjarlistann og bjóða fram undir eigin nafni. Var það rétt ákvörðun? Hefði Garðabæjarlistinn ekki fengið fjóra bæjarfulltrúa ef atkvæðafjöldi beggja lista er lagður saman? ,,Það var algjörlega hárrétt ákvörðun fyrir okkur í Viðreisn að fara fram sér. Vagga Viðreisnar er í Garðabæ það vissum við og vildum láta á það reyna. Við vissum að ákveðið fylgi Viðreisnar skilaði sér ekki til Garðabæjarlistans. Því fögnuðu því margir að nú í fyrsta sinn væri alvöru val um að kjósa til hægri án þess að þurfa að kjósa Sjálfstæðiflokkinn. Og niðurstaðan kosninganna eftir því,” segir hún og bætir við: ,,Við erum ekki Garðabæjarlistinn. Ég er hins vegar afar stolt af tilvist hans og veit að þar á ég stóran hluta að máli, ég var rödd Garðabæjarlistans á sama tíma og sterkt Viðreisnarhjarta sló sinn takt á nýliðnu kjörtímabili. Garðabær er að vaxa sem fjölbreytt samfélag og því fagna ég góðri niðurstöðu stjórnarandstöðu en við erum samtals með 50,9% atkvæða sem þýðir meirihluta atkvæða við bæjarstjórnarborðið. Það eru heldur betur tíðindi fyrir Garðabæ. Við teljum mikilvægt að geta talað skýrt fyrir stefnu Viðreisnar við bæjarstjórnarborðið og með 13,3% fylgi höfum við töluvert vægi fyrir utan að ég hef hingað til látið ágætlega í mér heyra sýnt mikilvægt aðhald á sama tíma og ég hef komið málum á dagskrá og í framkvæmd. Það skiptir máli.”

En hvernig fannst þér kosningabaráttan vera? ,,Kosningabaráttan var frábær. Hún var gleðileg og málefnaleg. Ég saknaði þess þó að við fengjum meira pláss hjá fjölmiðlum til þess að ræða málin. Enda sást það vel í þeim þáttum sem við fengum pláss hver voru inni í starfsemi sveitarfélagsins og höfðu fram að færa einhverja framtíðarsýn. Það hefði skipt máli að fleiri hefðu fengið tækifæri til að heyra í okkur og sjá.”

Eftir fjögur ár í bæjarstjórn þekkirðu vel stöðuna í Garðabæ. Hver verða þín helstu áherslur nú þegar ný bæjarstjórn kemur saman? ,,Við í Viðreisn tölum fyrir sanngjörnu samfélag fyrir okkur öll. Þess vegna viljum við ábyrga fjármálastjórn í þágu velferðar.
Í fyrsta lagi viljum við hækka þjónustustig við íbúa við viljum hækka þjónustustig gagnvart fólkinu okkar sem þarf að styðjast við félagsþjónustuna ekki síst fötluðu fólki og fjölskyldum fatlaðra barna. Við viljum markvissa uppbyggingu á félagslegu húsnæði sem byggir á því að tryggja 5% af öllum nýjum íbúðum undir félagslegt húsnæði.
Hér þurfum við líka að horfa til stjórnsýslunnar sérstaklega. Stækkandi sveitarfélag þýðir aukinn þjónustuþörf þvert á alla málaflokka, hvort heldur sem litið er til skipulagsmála eða félagsþjónustunnar eða skólamála. Stafræna umbreytingin þarf að fara að eiga sér stað í Garðabæ til þess að einfalda líf fólks og auka gæði þjónustunnar.

Í öðru lagi að mæta barnafjölskyldum sérstaklega. Lækka leikskólagjöld strax og stefna á gjaldfrjálsan leikskóla. Alvöru val um sumarfrístund fyrir börn. Við viljum koma á systkinaafslætti í íþróttir og tómstundir. Það á ekki að vera þannig að um leið og þú flytur með fjölskylduna þína í Garðabæinn mæti þér þessi mismunun þ.e. leikskólagjöld eru hvergi hærri en í Garðabæ og ekkert annað sveitarfélag sem leggur mestar álögur á barnafjölskyldur.
Lágt útsvar er gott og gilt en í dag þá kemur það sér fyrst og fremst vel fyrir eldra fólk. Fólk sem er komið yfir miðjan aldur og er búið að koma upp sínum börnum og hefur þess vegna um færri að sjá og meira á milli handanna alla jafna.

Í þriðja lagi viljum við alvöru val um umhverfisvænan lífsstíl. Við viljum umhverfisvænt skipulag með lýðheilsu fólks í forgrunni. Við viljum uppbyggingu 15 mínútna hverfa með öflugum almenningssamgöngum og blóm-legri atvinnustarfsemi. Við erum með stór hverfi sem þarfnast betri tenginga og samgangna inn í miðbæinn bæði Álftanes og Urriðaholtið sitja þar á hakanum og íbúar í þessum hverfum búa við mun lakari þjónustu en aðrir íbúar þegar kemur að aðgengi að almenningssamgöngum sem og öruggum samgönguleiðum með tilliti til hjóla- og göngustíga. Þess utan viljum við standa með atvinnupp-byggingu innan hverfa og leyfa hverfum að springa út með sína sérstöðu í verslun og þjónustu. Síðast en ekki síst er mikilvægt að rýna íbúaþróun og nemenda-samsetningu grunnskólanna okkar. Þar er verk að vinna og við í Viðreisn viljum sjá skólana okkar eflast og vera alvöru valkost fyrir öll óháð búsetu og staðsetningu skóla,” segir Sara Dögg.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar