Viðburðarríkur vetur á Bókasafni Garðabæjar

,,Eftir samkomutakmarkanir og strembna tíma er loksins hægt að bjóða upp á fullan vetur af gríðarlega spennandi viðburðum. Við hlökkum svo til að fá gesti til okkar og bjóða þeim upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir alla aldurshópa,” segir Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, viðburðarstjóri hjá Bókasafni Garðabæjar.   

Ásamt föstu viðburðum bókasafnsins fyrir börn á borð við Sögur og söng og Lesið fyrir hund verður ein smiðja í hverjum mánuði í tengslum við verkefnið Við langeldinn/Við eldhúsborðið og má þar nefna til dæmis teiknimyndasmiðju, hnefatafl og ritsmiðju sem snýr að því að skapa sína eigin Íslendingasögu. ,,Einnig verður árlega jólabókaspjallið á sínum stað í lok nóvember þar sem fjórir rithöfundar koma til okkar og skemmtilegir viðburðir fyrir alla fjölskylduna á borð við Stjörnur og norðurljós með Stjörnu – Sævari 23. október,“ segir hún. 

Það verður líka margt í boði fyrir eldri gesti safnsins eins og erindi um Jane Austen og skvísubækur þriðjudaginn 28. október, og svo verður erindi um hrollvekju og hryllingsskrif frá Emil Hjörvari Petersen  þann 1. nóvember.  

,,Við ákváðum líka að gefa handavinnuklúbbnum okkar, Garðaprjóni, smá lyftistöng með því að bjóða Sigurbjörgu Hjartardóttur textílkennara að koma og vera með okkur og leiðbeina. En við viljum reyna að bjóða upp á alls kyns menningu og samverustundir því bókasafnið á að vera eins og annað heimili íbúanna hér í kring og annarra sem kjósa að heimsækja okkur,”  segir Díana og bætir við að það sé einnig komin saumavél á safnið sem á að geta nýst mörgum.  

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar