Við þurfum Viðreisnarlegt hjartalag

Sara Dögg Svanhildardóttir mun leiða lista Viðreisnar í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, en tillaga uppstillinganefndar um lista Viðreisnar í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí nk. var samþykkt á fjölmennum félagsfundi á dögunum. Þetta er í fyrsta sinn sem Viðreisn í Garðabæ býður fram til sveitarstjórnarkosninga.

Óendanlega þakklát fyrir traustið

Þú ert væntanlega ánægð með það traust sem þér er sýnt að leiða lista Viðreisnar fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar? ,,Já, svo sannarlega. Ég er óendanlega þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með því að vera falið að leiða Viðreisn í Garðabæ á þessum sögulegu tímum þar sem Viðreisn fer fram í sveitarfélaginu í fyrsta skipti. Ég hlakka mikið til og tek hlutverk mitt mjög alvarlega,” segir Sara Dögg og heldur áfram: ,,Við finnum það meðal íbúa að eftir okkar sýn og áherslum er kallað. Ég hef sem bæjarfulltrúi allt þetta kjörtímabil fundið fyrir miklum meðbyr meðal íbúa með mínum málflutningi. Mínar áherslur hafa verið alveg skýrar og legið í því að taka Garðabæ inn í nútímann með til að mynda gjörbreyttum samgöngum til og frá hverfa líkt og hefur nú raungerst í Urriðaholtinu, frístund fyrir fötluð ungmenni er annað mál sem ég fékk samþykkt og hefur fest sig í sessi sem og kvíðanámskeið fyrir ungmenni á grunnskólaaldri í gegnum fjarþjónustu. Enda viljum við í Viðreisn sjá Garðabæ vaxa sem velferðarsamfélag. Sanngjarnt samfélag. Við þurf-um Viðreisnarlegt hjartalag við stjórn sveitarfélagsins því er ég svo óendanlega spennt og full tilhlökkunar.”

Alveg hreint magnað fyrirbæri

Nú var Viðreisn í samstarfi með nokkrum flokkum um stofnun Garðabæjarlistans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 þar sem þú varst í oddvitasætinu. Flokkurinn náði góðum árangri og fékk þrjá menn kjörna í bæjarstjórn. Það kom því nokkuð á óvart þegar Viðreisn tilkynnti þá ákvörðun að slíta samstarfinu við Garðabæjarlistann. Á hvað forsendum var það gert og var samstarfið ekki farsælt? ,,Já það er rétt. Okkur gekk svo sannarlega vel. Mér þykir óendanlega vænt um að hafa komið að því að búa til Garðabæjarlistann. Alveg hreint magnað fyrirbæri. Mér var falið að leiða framboðið án þess að ég gerði nokkurn tímann tilkall til þess sem mér þótti og þykir óendanlega vænt um. Ég eignaðist mjög góða vini í gegnum Garðabæjarlistann og óska vinum mínum þar alls hins besta.

Ástæða þess að Viðreisn tók þá ákvörðun að slíta samstarfi var fyrst og fremst vilji Viðreisnar til að stækka enn frekar. Enda finnum við að Viðreisn á góðan stuðning íbúa hér í okkar góða Garðabæ. Við töldum því rétt að taka skrefið og fylgja okkar hjartalagi hvað það varðar. Við erum miðjuflokkur sem tölum fyrir hægri hagstjórn og vinstri velferð og eigum gott með að starfa með öðrum. Ég held að ég geti fullyrt það að það hafi aldrei komið upp ágreiningur að neinu viti. Ég kveð Garðabæjarlistann með hlýju og væntumþykju sem enda hef ég fulla trú á því að við getum saman í sitthvoru lagi tekið meira af Sjálfstæðisflokknum í komandi kosningum og það er auðvitað mark-mið okkar allra sem stígum inn á hið pólitíska svið hér í Garðabæ,” segir hún.

Vilja sanngjarnara samfélag í Garðabæ

Þetta er í fyrsta sinn sem Viðreisn í Garðabæ býður fram lista til sveitarstjórnarkosninga og samkvæmt fréttatilkynningu frá uppstillingarnefnd flokksins var mikill áhugi hjá bæjarbúum að starfa með Viðreisn. Ertu ánægð með hvernig gekk að stilla upp á listann? ,,Já, ég er gríðarlega ánægð með hvernig til tókst. Við erum með mjög kraftmikið fólk sem kemur úr ólíkum áttum og á það sameiginlegt að brenna fyrir sanngjarnara samfélagi í Garðabæ. Listinn samanstendur af nýju fólki sem hefur flest ekki látið til sín taka í pólitík áður og það er svo geggjað og gefur þessu þetta extra. Frumkraftur, gleði og metnaður til þess að koma okkur á góðan stað við bæjarstjórnarborðið þann 14. maí. Viðreisn er víða eins og einhver sagði og orangeisthe-newblue er eitthvað sem við erum svolítið að vinna með.”

Aðeins minna íhaldssöm og örlítið meira frjálslynd

Nú þekkir þú bæjarmálin vel eftir að hafa setið í bæjarstjórn í tæp fjögur ár. Hvað má betur fara í Garðabæ og hverjar verða ykkar helstu áherslur í kosningum sem framundan eru? ,,Rétt. Ég hef á þessum fjórum árum lagt mig einlæglega fram við að setja mig vel inn í öll mál, vanda málflutning og gagnrýna það sem betur má fara. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einn með sjálfum sér í einhver 45 ár. Það er einfald-lega engum hollt að þurfa aldrei að tala eða eiga skoðanaskipti við aðra eða taka ákvarðanir út frá öðru en eigin skoðunum.

Við þurfum að styðja mikið betur við velferð í Garðabæ og félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum er farið að finnast það líka. Loksins. En þau þurfa sannarlega aðstoð við að koma þeim málum á þann stað að hægt verið að tala um framúrskarandi þjónustu í þágu íbúa sem þurfa á félagsþjónustu að halda. Þau hafa eftir öll þessi ár sýnt að þau eru ekki fær um það. Við erum tilbúin til að aðstoða við það verkefni svo sannarlega. Við þurfum sömuleiðis að hafa meiri kjark til breytinga, stafræn þjónusta er eitthvað sem Garðabær á að vera í fararbroddi með, vera meira leiðandi á öllum sviðum samfélagsins. Aðeins minna íhaldssöm og örlítið meira frjálslynd. Þetta er ekkert svo flókið í raun. Við þurfum líka að standa vörð um uppbyggingu hverfa og skipulagsmál. Við þurfum að vera styðjandi við fjölbreytta atvinnustarfsemi sem fer ört vaxandi og skiptir máli fyrir tekjur sveitarfélagsins. Við þurfum sömuleiðis að standa vaktina í uppbyggingu innviða þannig að ekki skapist viðlíka kaos og hefur skapast í kringum Urriðaholtið og barnafjölskyldur sem gjalda fyrir ranga forgansröðun fjármuna sem hefur leitt til þess að í fyrsta skipti lenda barnafjölskyldur með börn á leikskólaaldri í vandræðum því ekki fæst leikskólapláss í hverfinu sem þú býrð í líkt og er að eiga sér stað í Urriðaholtinu. Þar hefur birtingarmynd íhaldsins og gamla tímans kristallast undir forystu Sjálfstæðismanna. Í formi lélegra almenningssamgangna og metnaðarleysi að mínu mati þar sem hefur skort að setja í forgang að byggja upp aðlaðandi umhverfi og stemningu fyrir ungmenni að sækja heimaskólana sinn.

Umgjörðin um skólana okkar í dag býður því miður ekki upp á raunverulegt val um skóla líkt og félagar mínir í meirihlutanum er svo tíðrætt um. Við í Viðreisn stöndum fyrir alvöru valfrelsi óháð því í hvaða hverfi þú kýst að búa í.

Við stöndum fyrir ábyrga fjár-málastjórn í þágu velferðar. Og viljum sjá gagnsæ og fagleg vinnubrögð.
Skýra sýn og aðgengilegar áætlanir en um það hef ég sérstaklega staðið vörð um á þessu kjörtímabili og komið ótrúlega mörgu í gegn til úrbóta sem snýr að verkferlum og reglum tengt þjónustu er varðar félagsleg úrræði. Síðast en ekki síst viljum við barnvænt samfélag að við tökum mark á börnum, hlustum á þeirra rödd og styðjum við þau á öllum sviðum. Heilt yfir viljum við í Viðreisn virðingu fyrir fjölbreytileikanum og tryggja sam-félag þar sem öll eru velkomin.”

Þú nefndir í fréttatilkynningu eftir að listinn var kunngerður að nú birti svo sannarlega til í Garðabænum. Er bjart framundan? ,,Já, það er svo sannarlega bjart framundan. Það blása sterkir ferskir vindar með framboði Viðreisnar næstu misserin.”

Við erum komin í gírinn

Ertu spennt fyrir komandi kosningum og er kosningabaráttan hafin? ,,Ég er mjög spennt já. Kosningabaráttan er við það að hefjast. Við í Viðreisn erum að minnsta kosti komin í gírinn og farin að stilla saman strengi og kjarna þau mál sem við komum til með að setja á oddinn í kosningabaráttunni með hag íbúanna allra að leiðarljósi. Ég og mitt fólk erum tilbúin til þess að láta gott af okkur leiða í stækkandi sveitarfélagi þar sem fókusinn þarf að vera á stóru málunum. Þjónustu við alla íbúa, unga sem aldna,” segir Sara Dögg, oddviti Viðreisnar í Garðabæ að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar