Við kappkostum að veita frábæra þjónustu, bæði persónulega og á eins sanngjörnu verði og við getum

Á dögunum tóku systurnar Lilja og Lovísa Bryngeirsdætur Vattnes við rekstri fjölskyldufyrirtækisins, Efnlaug Garðabæjar, af foreldrum sínum,þeim Bryngeiri Vattnes og Rögnu Gísladóttur.

Efnlaug Garðabæjar hefur verið innan fjölskyldunnar allt frá upphafi en það voru foreldrar Lilju og Lovísu sem stofnuðu fyrirtækið á Garðatorgi árið 1986 og spurning hvort Lilja og Lovísa hafi verið að væflast í kringum þau í efnalauginni frá upphafi? ,,Við erum búin að vera sníglast hérna frá því fyrirtækið opnaði, byrjum svo að vinna hérna eitthvað að ráði eftir að við menntuðum okkur, fyrst að leysa foreldra okkar af til þess að þau kæmust í frí og svo tókum við þátt í jólahasarnum til að hjálpa. Ætli við höfum síðan ekki verið komnar í fasta vinnu fyrir kannski 7 árum,” segir Lilja.

Þannig að þið vitið hvað bíður ykkar og þekkið vel til rekstursins? ,,Við vitum mjög vel að hverju við erum að ganga, frábæru fyrirtæki sem hefur alltaf verið rekið með miklum dugnaði, vandvirkni og persónulegri þjónustu við viðskiptavini,” segir Lovísa.

Systurnar Lilja og Lovísa. ,,Við vitum mjög vel að hverju við erum að ganga, frábæru fyrirtæki sem hefur alltaf verið rekið með miklum dugnaði, vandvirkni og persónulegri þjónustu við viðskiptavini,“ segja þær

Gaman að þjónusta viðskiptavinina

Var það alltaf á dagskránni að þið tækjuð við rekstrinum af pabba ykkar og mömmu?
,,Nei, alls ekki. Við menntuðum okkur í því sem við höfðum áhuga á, en svo þegar við sáum hversu gaman er að þjónusta viðskiptavinina okkar og vinna í þessu frábæra fyrirtæki að þá slógum við til. Auðvitað blundaði þetta alltaf í mömmu og pabba að við tækjum við,” segir Lovísa.

Reyna eftir bestu getu að vera umhverfisvæn

Efnalaug Garðabæjar opnaði fyrir 35 árum (1986), hafa orðið miklar breytingar á rekstrinum síðan þá? ,,Við höfum alltaf reynt að fylgja straumnum hvað varðar bestu tækin hverju sinni, höfum verið duglegar að fara á sýningar og endurnýjum eftir því sem við á. Við reynum eftir okkar bestu getu að vera eins umhverfisvæn og við getum, tökum við plasti og herðatrjám til baka td sem við endurnýtum. Við bjóðum upp á poka til að koma með og sækja fatnað í og eða hvetjum fólk til að koma með fötin í þar til gerðum pokum svo við getum afgreitt þau út án þess að nota plast,” segir Lilja.

Traustir viðskiptavinir

Og hvað með viðskiptavinina, hafa þeir fylgt ykkur margir hverjir öll þessi ár? ,,Við erum með heilu kynslóðirnar af fjölskyldum sem versla við okkur, alveg sama hvort það býr í bænum eða ekki. Viðskiptavinir okkur hafa verið okkur mjög tryggir í gegnum árin og alltaf að bætast við nýir,” segja þær.

Og þið hafið ávallt boðið upp á vandaða hreinsun og nú seinni ár lagt enn meiri áherslu á umhverfisvænan rekstur eins og þú nefnir – með hvaða hætti þá? ,,Við sérhæfum okkur í að hreinsa allan betri fatnað ásamt því að taka dúka og sængurfatnð í þvott. Jafnframt tökum við sængur, kodda, svefnpoka og dúnúlpur í þrif. Jafnframt erum við alltaf að bæta við okkur þekkingu í allavegana hreinsun á hinum ýmsu efnum,” segir Lilja.

Og þið hafið verið þekkt fyrir skilvirkni og sanngarnt verð? ,,Við kappkostum við að veita frábæra þjónustu bæði persónulega og á eins sanngjörnu verði og við getum. Við bjóðum upp á sækja og senda tvisvar í viku ef verlsað er fyrir 5000 kr eða meira innan Garðabæjar,” segir Lovísa

Léttir undir heimilistörfunum

Er fólk duglegt að koma með fatnað og rúmföt í hreinsun, eða hvað er fólk helst að koma með til ykkar? ,,Við fáum allt milli himins og jarðar í fatnaði til okkar. Sumir eru auðvitað duglegri að koma en aðrir, en auðvitað heldur það fatnaðinum og sængurfatnaðinum enn fallegri lengur. Það hefur færst í vöxt að fólk komi með sængurfatnað til okkar og þannig leyft okkur að létta töluvert undir heimilisstörfin,” segir Lilja.

Ekki sóðar þótt sumir oftar en aðrir

Hafið þið nokkuð tekið eftir því að það sé einhver viðskiptavinur sóðalegri en aðrir, komi oftar með jakkafötin eða kjólinn en flestir aðrir, spyr blaðamaður i léttum tóni? ,,Nei, við flokkum viðskiptavinina ekki eftir því, bara alls ekki,” segja þær brosandi og halda áfram: ,,Það þýðir ekki að ef þú kemur oft til okkar að þú sért meiri sóði en einhver sem kemur sjaldnar. Eins og ég sagði áðan þá heldur fatnaður sér mikið betur ef hann er hreinsaður reglulega og af fagaðilum. Eins mælum við með að sumarfötin/vetrarfötin séu hreinsuð áður en þau eru sett inn í skáp að vori/hausti. Með því forðumst við að taka flíkurnar út úr skápum einhverjum tíma síðar með föstum blettum í,” segir Lilja.

En þið eruð ekki eingöngu að þjónusta bæjarbúa í Garðabæ og nágrannasveitarfélögun-um heldur þjónustið þið líka hin ýmsu fyrirtæki? ,,Já, við erum að þjónusta hin ýmsu fyrirtæki, sækjum og sendum fatnað/þvott nokkrum sinnum í viku víðsvega um bæinn,” segir Lovísa.

Sækja og senda

Og þið hafið boðið upp á heimsendingu, þ.e.a.s. bæði sótt og skilað þvotti fyrir og eftir þrif? ,,Já við bjóðum upp á að bæði sækja og senda ef verslað er fyrir meira en 5000 kr. Við gerum þetta tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum á milli 18 og 19 á kvöldin. Þetta er alltaf að verða vinsælla og vinsælla. Fólk er að átta sig betur á hvað tíminn er dýrmætur og þetta léttir mikið undir hjá fólki sem nýtir sér þessa þjónust,” segir Lilja.

En þið systur en nú teknar við rekstrinum, hvernig líst ykkur á framhaldið og komandi ár? ,,Við erum mjög bjartsýnar um komandi framtíð og hlakkar mikið til að takast á við þetta saman ásamt frábærum viðskiptavinum. Við bjóðum alla velkomna til okkar,” segja þær.

Núna í nóvember eru þær systur með þvottatilboð á dúkum, bjóða 20 % afslátt, en það þarf að sækja fyrir 1. des til þess að afslátturinn sé gildur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar