Við höfum alla burði til þess að lyfta þeim stóra í ár

Knattspyrnusumarið í Bestu deild kvenna er að hefjast í dag, en Stjörnustúlkur, sem léku við hvern sinn fingur í fyrra og enduðu í 2. sæti í deildinni, leika upphafsleik sinn á morgun, miðvikudaginn 26. apríl, er Þór/KA kemur í heimsókn á Samsung-völlinn og hefst leikurinn kl. 18.

Stjörnunni er spáð góðu gengi í sumar og nokkuð margir hallast að því að liðið geti orðið Íslandsmeistari, en í byrjun apríl lék Stjarnan á móti Þór/KA í úrslitaleik Lengjubikarsins þar sem Stjarnan hafði betur í vítaspyrnukeppni. Stjarnan lék síðan við Íslands- og bikarmeistara Vals í síðustu viku í Meistarakeppni KSÍ og bar sigur úr býtum í jöfnum leik, þar sem Stjarnan tryggði sér sigur í vítaspyrnukeppni, eftir markalausan leik.

En hvernig líst fyrirliðanum Önnu Maríu Baldursdóttur á komandi tímabil fyrir hönd Stjörnunnar? ,,Mér líst mjög vel á það. Það er góð stemning í liðinu, við höfum æft vel í vetur og erum spenntar að byrja mótið,” segir Anna María.

Hafa orðið miklar breytingar á liðinu á milli ára og telurðu að þið komið sterkari til leiks í ár en í fyrra? ,,Það hafa orðið einhverjar breytingar á liðinu frá því í fyrra. Þeir leikmenn sem hafa komið inn í hópinn eru mjög sterkir og hafa haft góð áhrif á liðið bæði innan og utan vallar. Við höfum sótt leikmenn með reynslu í þessari deild og utan hennar og tel ég að við munum koma sterkar til leiks.”

Og ertu sátt með hvernig liðinu hefur gengið á undibúningstímabilinu, góður taktur búinn að vera í liðinu? ,,Við höfum spilað slatta af leikjum í vetur og náð góðum úrslitum sem endaði á sigri í Lengjubikarnum og í leik Meistarar meistaranna. Við höfum verið að slípa okkur saman og átt margar góðar frammistöður sem lofar góðu fyrir sumarið.”

Þið náðuð flottum árangri í fyrra og enduðu í 2. sæti í Bestu deildinni – margir spá ykkur jafnvel Íslandsmeistaratitlinum í ár – er það raunhæft og hver eru markmiðin fyrir tímabilið? ,,Það er klárlega raunhæf spá en þetta verður krefjandi og spennandi tímabil. Ég held að deildin muni verða mjög jöfn og fullt af óvæntum úrslitum muni líta dags- ins ljós. Við erum með góða blöndu af ungum leikmönnum og eldri reynslumeiri og við höfum alla burði til þess að lyfta þeim stóra í ár.”

Meistaradeild Evrópu bíður

Og með silfurverðlaunum í fyrra þá fenguð þið keppnisrétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu, það hlýtur að vera góð gulrót inn í tímabilið? ,,Já, það er tilhlökkun fyrir því að taka þátt á ný í Meistaradeild Evrópu. Það lengir mótið og fjölgar leikjum sem er jákvætt og það verður gaman að spila og máta okkur við erlend lið.”

Nú er fyrsti leikurinn í Bestu deildinni á móti Þór/KA á morgun (miðvikudag). Þið eruð nýbúnar að leika við liðið í úrslitaleik Lengjubikarsins svo þið rennið ekki blint í sjóinn, hvaða væntingar ertu með fyrir þann leik? ,,Sá leikur var kaflaskiptur en heilt yfir þá vorum við sterkari aðilinn. Þær eru vel skipulagðar svo við munum þurfa að undirbúa okkur vel fyrir þann leik og fara yfir það, hvað þarf til svo að við tökum öll stigin þrjú í þeim leik.”

Hvernig líst þér svo á nýtt fyrirkomulag í Bestu deild kvenna, nú verður úrslitakeppni eftir að deildarkeppninni lýkur þar sem fimm efstu liðin spila á móti hvort öðru í efri deild úrslitakeppninnar og 5 neðstu liðin í neðri deild keppninnar? ,,Það verður gaman að sjá hvernig það mun koma út. Það lengir tímabilið og eykur að öllum líkindum spennuna í deildinni. Flest lið breytast að einhverju leyti í lok júlí þar sem margir leikmenn fara til Bandaríkjanna í skóla svo það mun vera áhugavert að sjá hvaða lið halda dampi út alla leiktíðina.”

En hvernig er staðan á liðinu nú nokkrum dögum fyrir mót, allar leik-menn heilir og hvað með fyrirliðann sjálfan, búin að vera með allt undirbúningstímabilið? ,,Það er eitthvað um meiðsli hjá okkur og hefur verið í vetur. Leikmenn eru að týnast inn á næstu vikum úr meiðslum og úr skólum í Bandaríkjunum svo að breiddin fer að aukast hjá okkur. Ég hef verið heil að mestu leyti í vetur og náð að spila alla leiki í Lengjubikar svo vonandi helst ég heil í sumar.”

Þakklátar fyrir stuðninginn en vilja sjá fleiri á vellinum í sumar

Og þú ert spennt að mótið sér að byrja og vonast eftir góðum stuðningi á Samsung-vellinum? ,,Já það er mikil spenna hjá okkur stelpunum og við hlökkum til að sjá sem flesta á vellinum í sumar. Við erum þakklátar fyrir þann stuðning sem við fáum, en ég vil sjá enn fleiri mæta svo ég hvet alla Garðbæinga, Stjörnumenn og konur til að láta sjá sig. Við lofum skemmtilegu spili, leikgleði og stemningu á Samsung í sumar,” segir fyrirliðinn að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar