Við eigum öll að hafa gaman af lífinu

Kennarinn og rithöfundurinn Kolbrún Aðalsteinsdóttir hefur kennt sjálfstyrkingu í grunnskólum í fjölmörg ár. Hún trúir því staðfast að sterk sjálfsmynd sé grundvallaratriði þegar kemur að lífshamingju okkar og í því samhengi þykir henni mikilvægt að börn fái öll möguleg tækifæri til að styrkja eigin sjálfsmynd, og um leið læra að bera kennsl á eigin verðleika.

Kolbrún hefur nú tekið skrefið og komið á fót formlegum sjálfstyrkingarnámskeiðum sem miðuð eru að börnum og unglingum. Garðapósturinn heyrði í Kolbrúnu og bað um nánari upplýsingar um fyrirkomulag námskeiðanna og tilurð þeirra.

Kolbrún Aðalsteinsdóttir

Símtölin yljuðu mér um hjartarætur

Segðu mér aðeins frá bakgrunninum þínum. Hver var kveikjan að þessum námskeiðum? ,,Í grunninn er ég danskennari að mennt og hef m.a. starfað í fjölda grunnskóla víða um land. Dans er mér mjög hugleikinn enda er ávinningur hans svo margskonar. Hann getur t.d. haft ofboðslega jákvæð áhrif á sjálfstraust og í lok námskeiðanna sá ég oft mikinn mun á sjálfstrausti barnanna með breyttum líkamsburði og aukinni samskiptafærni,” segir Kolbrún og heldur áfram: ,,Ég sá þó líka að danskennslan ein og sér var ekki alltaf það eina sem þurfti til að hjálpa börnunum og það kveikti áhuga minn á sjálfstyrkingarfræðum sem ég innvinklaði síðan í danskennsluna mína. Þegar uppi var staðið var ég því einnig farin að standa fyrir sjálfstyrkingarnámskeiðum samhliða dansinum, en ég leit þó alltaf fyrst og fremst á mig sem danskennara. Markmiðið mitt var ekki að starfa við sjálfstyrkingu, heldur var námið mitt í þeim fræðum algjörlega drifið áfram af persónulegum áhuga. Árin liðu og alltaf hélt ég áfram að viða að mér þekkingu í sjálfstyrkingarfræðum, samhliða störfum á öðrum vettvangi. Það sem síðan gerðist fyrir ekki svo löngu síðan, er að nokkrir af fyrrum nemendum mínum höfðu samband við mig og sögðu mér hve dýrmæt sjálfstyrkingar- kennslan hafi verið þeim í æsku. Þessi símtöl yljuðu mér svo um hjartarætur, enda er alltaf markmið kennarans að hafa varanleg og góð áhrif á nemendur sína. Sumir nemendanna spurðu mig út í frekari sjálfstyrkingarkennslu, enda höfðu sumir þeirra nú eignast eigin börn og sýndu því mikinn áhuga að þau fengju sömu tækfæri til að þróa með sér sterkari sjálfsmynd. Eftir þetta var ekki aftur snúið og byrjaði ég að einbeita mér að fullum krafti af því að búa til þessi nýju námskeið sem ég býð núna upp á í gegnum Sjálfstyrking.is.”

Fáum fréttir af óförum barna og unglinga nánast daglega

Hvers vegna telur þú vera þörf á þessum námskeiðum? ,,Nánast daglega sjáum við fréttir af óförum barna og unglinga. Það segir mikið um hve vandasamt það er að vera barn eða unglingur í nútímaþjóðfélagi. Áreitið sem þau búa við er mikið og ógnanir við sjálfsmyndina leynast víða. Þessar ógnanir eru margskonar, en þar má t.d. nefna félagslega stöðu í hópi samnemenda í formi vinsælda eða jafnvel útlits, eða efnahags-lega stöðu í formi veraldlegra eigna eða klæðaburðar.
Það skiptir miklu máli að hjálpa börnum að átta sig á því að það eru ekki vinsældir eða veraldlegar eigur sem skilgreina virði þeirra. Þau verða ekki að merkilegra eða betra fólki með því að ganga um í rándýrri merkjavöru eða eiga nýjasta símann. Það hjálpar þeim sömuleiðis ekki að upphefja sig með því að tala aðra niður og leggja í einelti. Hinsvegar leita börn stundum í þessar aðferðir og oft má rekja orsökina til vanmáttartilfinninga sem viðkomandi býr við. Langvarandi vanmáttartilfinningar geta haft mjög skaðleg áhrif á sjálfsmynd barna. Fyrst um sinn kann barnið að grípa til ofangreindra aðferða til að tryggja stöðu sína, en ef það bregst og barnið lendir endurtekið í áföllum er hætta á því að barnið loki sig alveg af. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar, einkum hvað varðar samskiptafærni og skólagöngu.”

Hægt að vinna bug á neikvæðum tilfinningum og efla sjálfsmyndina

En hvað er hægt að gera? Hvernig hjálpum við þeim sem nú þegar glíma við vanmáttartilfinningar? ,,Það fyrsta sem allir þurfa að vita, er að sjálfsmynd okkar er í stöðugri þróun. Það er hægt að vinna bug á neikvæðum tilfinningum og efla sjálfsmyndina, og því fyrr sem við kennum einstaklingum þá aðferðarfræði, því auðveldara eiga þeir með að takast á við ógnanir síðar á lífsleiðinni.
Hvað varðar aðferðafræðina sjálfa, þá snýst þetta í meginatriðum um að kenna börnum að sjá sig í réttu ljósi og hjálpa þeim að bera kennsl á allt það góða sem býr í þeim. Við viljum valdefla þau og gefa þeim styrk til að taka réttar ákvarðanir í líf-inu.”

Eigum skilið að fá að hlæja og treysta þeim sem okkur þykir vænt um

Getur þú lýst námskeiðunum nánar? ,,Á námskeiðunum okkar beitum við margþættum æfingum sem eru snérsniðin að hverjum aldurshóp, en námskeiðunum er skipt upp eftir aldri. Við vinnum mikið með samtals- og dansæfingar, og notum yoga til að ná stjórn á hugsunum okkar. Til viðbótar þessu nota ég aðferð sem kallast FLEKINN – STIGINN- BRYGGJAN sem hjálpar börnunum að auka sjálfstraust sitt og átta sig á að að ekkert vandamál er of stórt til að leysa. Þetta snýst um að hafa ríkt sjálfstraust, þekkja sín mörk og að geta þegar uppi er staðið metið árangurinn eða niðurstöðuna rétt og af sanngirni. Ef við upplifum sátt og jafnvel ánægju í kjölfar atburða í lífi okkar erum við mun betur í stakk búin til að takast á við næsta verkefni.
Við eigum nefnilega öll að hafa gaman af lífinu. Við eigum skilið að fá að hlæja og treysta þeim sem okkur þykir vænt um. Ef við erum ánægð í eigin skinni eigum við mun auðveldara með að lifa slíku lífi og þess vegna skiptir máli að kenna börnum aðferðir til að styrkja sjálfsmynd sína og auka sjálfstraustið. Það er þetta sem við vinnum með á námskeiðinu. Við kennum börnunum að sjá sig í réttu ljósi, kennum þeim að meta eigin hæfileika og færum þeim tól svo þau geti mætt öllum lífsins áskorunum af öryggi og með ríkt sjálfstraust,” segir Kolbrún að lokum.

Hvatapeningar ganga upp námskeiðagjaldið

Allar nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á heimasíðunni www.sjálfstyrking.is.

Námskeiðin verða haldin í Garðabæ og geta foreldrar barna með lögheimili í sveitarfélaginu sótt um Hvatapening frá bænum sem gengur upp í námskeiðsgjaldið.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar