Góð samskiptafærni er mikilvægt veganesti í lífinu. Til að eiga í sem bestum samskiptum þurfum við öll að taka ábyrgð og vera fyrirmyndir. Taka ábyrgð á eigin framkomu og afstöðu og vera tilbúin að sýna mildi og sveigjanleika. Það felur m.a. í sér að kenna börnum hvernig við sýnum virðingu og setjum okkur í spor annarra í stað þess að vera ásakandi eða dæma. Mikilvægi þess að hlusta á aðra, fá fram ólíkar hliðar á málunum og gefa sér ekki forsendur sem kannski standast ekki. Hvernig við tölum við og um aðra, komum fram við aðra á samfélagsmiðlum, styðjum við og sýnum sjálfsstjórn. Dagleg samskipti á heimili er það sem börnin læra svo og samskipti fullorðinna við vini sína. Hvernig og hvenær við drögum mörk skiptir miklu máli og tengist sjálfsvirðingu.
Að þjálfa samskiptafærni
Innan skólanna byggir efling samskiptafærni á því að þjálfa nemendur í góðum samskiptum og skapa þannig góða skólamenningu. Þjálfun í samskiptafærni felst meðal annars í því að átta sig á eigin framkomu og áhrifum hennar, hvernig hægt er að hafa sjálfsstjórn, aðferðum til að auka félags- og tilfinningafærni, vináttufærni og sjálfsöryggi nemenda. Þriðjudagurinn 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti. Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn dómhörku og einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. Alla daga vinna skólar í Garðabæ með samskipti og virðingu hjá nemendum sínum. Í anda baráttudagsins verður unnið með gildi góðra samskipta í Garðabæ.
Nýr samskiptasáttmáli í Garðabæ
Undanfarið ár hefur stýrihópur sem skipaður er fulltrúum frá öllum grunnskólum bæjarins ásamt grunnskólafulltrúa Garðabæjar undir handleiðslu Vöndu Sigurðardóttur, unnið að endurgerð eineltisáætlunar sem mun fá heitið Samskiptasáttmáli Garðabæjar. Megin markmið sáttmálans er að þjálfa börn í að eiga góð samskipti, auka öryggi og vellíðan í námi og leik ásamt því að takast á við ágreining. Samskiptasáttmálinn byggir á markvissri þjálfun allra nemenda í góðum samskiptum. Leiðarljós samskiptasáttmála Garðabæjar er að auka vellíðan, velferð, lífsgæði og heilsu barna.
Með þessu er á markvissan hátt stuðlað að jákvæðum samskiptum og aukinni þekkingu barna, forráðafólks og starfsfólks á einkennum samskiptavanda og eineltis. Með aukinni þekkingu og markvissri þjálfun eiga hlutaðeigendur að geta brugðist við, vita hvert skal leita og hvernig er unnið úr málum. Í áætluninni er tiltekin aldurstengd samskiptaþjálfun sem skal fara fram í skólasamfélaginu í Garðabæ. Samskiptasáttmálinn verður innleiddur og kynntur á nýju ári.
Markmið samskiptaáætlunar
Að skipa samskiptateymi í öllum grunnskólum.
Að skapa uppbyggilegan og jákvæðan skólabrag.
Að stuðla að vellíðan nemenda.
Að hafa markvissa og lausnamiðaða samvinnu heimila og skólasamfélags.
Að hafa markvissa forvarnarvinnu í skólasamfélaginu.
Að vinna eftir ákveðnum ferlum ef upp kemur samskiptamál.
Að þjálfa börn í góðum samskiptum.
Að þjálfa börn í að takast á við ágreining sem upp kann að koma í samskiptum.
Að þjálfa og fræða starfsfólk í að þekkja og greina birtingarmyndir samskiptamála.
Að efla og fræða forráðafólk í að aðstoða börn sín við að takast á við samskiptamál.
Miðlun góðra lífsgilda ásamt reglulegri fræðslu og umræðum um góð samskipti er mikilvæg. Þjálfun í samskiptafærni veitir börnum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegu samtali um málefni sem varða daglegt líf þeirra. Áhersla er lögð á að deila ábyrgð og vera góðar fyrirmyndir, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða. Við erum öll í þessu saman.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður skólanefndar Garðabæjar