Verklagsreglurnar eiga að tryggja öryggi barna og að jafnræði sé gætt í aðgerðum við fáliðun

Leikskólanefnd Garðabæjar samþykkti á síðasta fundi sínum verklagsreglur vegna fáliðunar/manneklu í leikskólum bæjarins.

Hlutfall leikskólakennara með því hæsta á höfuðborgarsvæðinu

Garðapósturinn heyrði í Margréti Bjarnadóttur, formanni leikskólanefndar Garðabæjar og spurði hana m.a. hver staðan er þegar kemur að starfsmannamálum í leikskólum Garðabæja og hversu margir kenn- arar, sem starfa í leikskólum í dag, eru menntaðir leikskólakennarar? ,,Í leikskólum Garðabæjar er hlutfall leik-skólakennara um 32% sem er með hæsta móti á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall leikskólakennara í einkareknum leikskólum liggur ekki fyrir, en samkvæmt lögum um leikskóla þá er heimilt að ráða starfsfólk án leikskólamenntunar til starfa við leikskóla fáist ekki leikskólakennari. Ríflega helmingur starfsfólks í leikskólum Garðabæjar eru með leikskólakennaramenntun eða aðra háskólamenntun,” segir Margrét.

Þið voruð að samþykkja verklagsreglur vegna fáliðunar, hverjar eru þær og hvernig ætlar Garðabær að bregðast við ef það vantar starfsfólk á leikskólana? ,,Tilgangur verklagsins er að tryggja að fram fari mat á aðstæðum þegar upp kemur sú staða að skortur verður á starfsfólki í leikskólum vegna veikinda eða annarra orsaka. Verklagsreglurnar eiga að tryggja öryggi barna og að jafnræði sé gætt í aðgerðum við fáliðun. Í verklagsreglum kemur fram til hvaða aðgerða er hægt að grípa áður en kemur til þeirrar stöðu að senda þurfi börn heim. Einnig er kveðið á um hvernig skal haga aðgerðum ef til kemur að mannekla kalli á tímabundna fækkun barna í leikskólum.”

Ný pláss eru að bætast við

Eru ekki öll leikskólapláss í leikskólum Garðabæjar fullnýtt út af manneklu? ,,Allflest leikskólapláss eru fullsetin en ný pláss eru að bætast við. Endurnýjuð deild á leikskólanum Krakkakoti á Álftanesi verður opnuð í lok mars, laus pláss verða til úthlutunar á leikskóla í Urriðaholti í maí og nýr 120 barna leikskóli verður opnaður í byrjun næsta árs í Urriðaholti,” segir Margrét.

Nýr 120 barna leikskóli verður opnaður í byrjun næsta árs í Urriðaholti

Horft til öryggisþátta barnanna og til þess að ganga ekki of nærri starfsfólkinu og vernda það

En af hverju eru þið að setja þessar reglur þar sem staðan er nokkuð góð í leikskólum Garðabæjar? ,,Vinnureglur um fáliðun eru fyrst og fremst settar til að geta brugðist við ef upp kemur mannekla á leikskólum. Þá er tryggt að öryggi barna er í fyrirrúmi sem og að jafnræði gildi um aðgerðir. Líkt og öðrum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu hafa óvenju mikil veikindi sem og vöntun á mannafla á vinnumarkað haft áhrif á leikskólastarf. Í leikskólum Garðabæjar starfar fagfólk sem hefur gæði starfsins í fyrirrúmi en í einhverjum tilfellum hefur mannekla haft áhrif á skipulag leikskólastarfs. Horft er til öryggisþátta barnanna og til þess að ganga ekki of nærri starfsfólkinu og vernda það. Í þeim undantekningatilfellum sem grípa þarf til verklagsreglna um fáliðun er það vegna þess að ekki er hægt að tryggja öryggi barna og gæði starfsins vegna manneklu.”

Staðan nokkuð góð í Garðabæ

,,Staðan er nokkuð góð í Garðabæ en vissulega mættu leikskólakennarar vera fleiri. Mjög margir þættir hafa áhrif á ráðningarmál í leikskólum og segja má að leikskólastarf standi á ákveðnum tímamótum. Hafin er vinna við að kortleggja stöðuna og vinna tillögur að úrbótum en slík vinnu þarf að vinna í góðu samstarfi meðal annar við stjórnendur, starfsfólk og foreldra,” segir Margrét.

Fella niður leikskólagjöld á ákveðnum tíma árs

Þið hafið líka áhuga að fella niður leikskólagjöld kjósi foreldrar að hafa börn sín í leyfi á milli jóla- og nýárs og/eða í páskavikunni. Það hlýtur að vera ánægja með þetta á meðal foreldra sem vilja og geta verið með börnum sínum á þessum tíma, en þurfa foreldrarnir ekki að láta vita með góðum fyrirvara vegna starfsmannamála, innkaupa o.fl.? ,,Fram til þessa hafa þó nokkrir foreldrar kosið að hafa börn sín í fríi á þessum árstímum en það hefur verið val foreldra- og verður áfram. Nú er verið að koma á móts við barnafjölskyldur og bjóða upp niðurfellingu á leikskólagjöldum milli jóla- og nýárs og/eða í Dymbilviku kjósi for- eldrar að vera í fríi með börnum sínum. Foreldrar munu þurfa að láta vita með góðum fyrirvara hvernig þessu verður háttað og sama fyrirkomulag verður á öllum leikskólum Garðabæjar,” segir Margrét en nánari útfærsla mun liggja fyrir síðar samkvæmt henni..

Staðan í leikskólum Garðabæjar í dag

· Verið er að úthluta börnum fædd 2022 í leikskólum Garðabæjar. Þegar hefur fyrsta úthlutun farið fram og hafa öll börn fædd sem fædd eru fyrir mars 2022 fengið tilboð um leikskólavist. Önnur úthlutun stendur yfir og þá fábörn fædd í apríl til júlí 2022 úthlutun á leikskólum.

· Á næsta skólaári munu öll börn sem fædd eru á fyrstu 7 mánuðum ársins 2022 fá leikskólapláss. Í byrjun árs 2024 mun opna nýr 120 barna leikskóli í Urriðaholti sem er viðbót við þau pláss sem þegar eru til staðar í sveitarfélaginu.

· Við stærstu úthlutunina í ágúst 2022 voru yngstu börnin 12 mánaða.

· Staða húsnæðismála í leikskólum í Garðabæ er góð. Viðgerð hefur staðið yfir í einum leikskóla vegna rakavanda- mála en ekki hefur komið til lokana vegna þess. Endurgerð deild við leikskóla á Álftanesi (Krakkakoti) verður tilbúin á næstu dögum og í byrjun árs opnar nýr 120 barna leikskóli í Urriðaholti.

· Það eru ekki mörg ómönnuð stöðugildi við leikskóla Garðabæjar. Stöðugildi við leikskóla í Garðabæ eru 263 og starfandi eru 341 starfsmaður á leikskóla.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar