Vera Rut óskar eftir stuðningi í 4. sæti

Ég heiti Vera Rut er 31 árs, í sambúð með Jóni Hilmari og saman eigum við Aríönnu Elínu, fjögurra ára. Við fjölskyldan búum í Urriðaholti í Garðabæ með okkur búa hundarnir Mikki og Pumba.

Ég hef starfað í stjórn Sjálfstæðisfélags Garðabæjar undanfarin ár, eða frá því að ég flutti heim í Garðabæ eftir búsetu annars staðar. Garðabær er minn heimabær, hér fór ég í leikskóla, grunnskóla og seinna framhaldsskóla. Ég stundaði íþróttir með Stjörnunni, var í skátafélaginu Vífli og var öðru félagsstarfi í bænum. Ég tel mig því þekkja bæjarfélagið og hagi fólks í bænum.

Í dag starfa ég sjálfstætt sem viðburðarstjóri, vinn að stofnun nýs fyrirtækis ásamt tveimur æskuvinkonum mínum úr Garðabæ auk þess sem ég stunda nám við lagadeild Háskóla Íslands. Áður starfaði ég í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg, hjá SÁÁ og tek enn vaktir við og við á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

Vinnudagarnir eru oft langir hjá mér og það þýðir lítið annað en að skipuleggja sig vel og standa vaktina eins og hún er. Þar skiptir máli að sýna eldmóð og virkja þann kraft sem er til staðar. Eins legg ég mikið upp úr því að koma nýjum hugmyndum í framkvæmd. Ég lærði það ung að enginn mun gera hlutina fyrir þig og það er ekki hægt að bíða við símann eftir því að einhver nái í þig. Þess vegna er ég að bjóða mig fram núna, því ég hef margar hugmyndir fyrir Garðabæ og langar að koma þeim í framkvæmd. Það er vissulega best að búa í Garðabæ, hér má þó margt gera enn betur og mig langar að hjálpa við þá framkvæmd.

Það er mín einlæga sýn að við þurfum að yngja upp lista flokksins, fá fólk úr nýjum hverfum og foreldra ungra barna. Sjálf bý ég í Urriðaholti sem er nýjasta hverfi Garðabæjar. Urriðaholt byggir á þeirri hugsjón um að íbúa byggð eigi að hámarka lífsgæði fólks. Hverfið er enn í uppbyggingu og áætlanir gera ráð fyrir að það verði tilbúið árið 2024. Um 70% íbúa í Urriðaholti eru undir fertugu, um 16% íbúa hverfisins eru börn á leikskólaaldri.

Það er ekki endilega eitt stefnumál sem er mikilvægara en annað. Garðabær er frammúrskarandi bæjarfélag þó alltaf sé hægt að finna leiðir til að gera enn betur, þar eru mál barna og ungmenna mér ofarlega í huga, traust fjárstjórnun, samgöngur, öruggar tengingar á milli bæjarhluta og eflingu heilsugæslu í samstarfi við ríkið.

Ég hef trú á því að mín reynsla og mínir snertifletir við hina ýmsu þætti bæjarins eigi erindi í hóp bæjarfulltrúa flokksins í Garðabæ. Þess vegna býð ég mig fram og óska eftir ykkar stuðning í fjórða sæti.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar