Vendikennsla og Vaxandi hugafar

Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2015 og  hefur sl. 6 ár úthlutað yfir 100 milljónum til verkefna í grunnskólum Garðabæjar. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi  í bænum og gefa fagfólki tækifæri til að þróa fagsvið sitt í framsæknu starfi með börnum og ungmennum. Úthlutað hefur verið til yfir 100 verkefna sem snerta ýmsa fleti skólastarfsins auk hinna hefðbundnu námsgreina. Árið 2018 var send spurningakönnun til fagfólks í grunnskólum bæjarins, til að fá álit þeirra á sjóðnum og áhrifum hans á skólastarfið. Samkvæmt þeirri könnun telja yfir 90% að áhrif sjóðsins á skólastarf í Garðabæ séu góð og sama hlutfall telur að styrkir sjóðsins auki tækifæri til starfsþróunar og framsækni i skólastarfi. Ávinningurinn sé öflugra skólastarf og fyrir nemendur og eftirsóttara starfsumhverfi. Hér verður veitt innsýn í þróunarverkefni í Álftanesskóla um Vendikennslu og Vaxandi hugarfar. Í næstu blöðum Garðapóstsins verða kynnt fleiri þróunarverkefni grunnskólanna í Garðabæ.

Vendikennsla í náttúrufræði og stærðfræði

Þróunarverkefnið Vendikennsla í raungreinum hófst í Álftanesskóla árið 2013 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Verkefnið hefur verið styrkt af þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar oftar en einu sinni og því verið unnt að þróa það áfram. Verkefnið byggir á því að búin eru til kennslumyndbönd í náttúrufræði, líffræði og stærðfræði og þau gerð aðgengileg, ekki aðeins nemendum skólans og foreldrum, heldur öllum sem áhuga hafa á að nýta sér þau.

Skapar margvísleg tækifæri í námsferlinu

Verkefnin hafa orðið til þess að nemendur alls staðar á landinu hafa hvenær sem er aðgang að myndböndum (námsefni) í náttúru- og stærðfræði. Myndböndin nýtast einkum nemendum á elsta stigi en geta einnig nýst nemendum á mið- og framhaldsskólastigi. Efnið er aðgengilegt foreldrum og geta þeir því fylgst með námi barna sinna og aðstoðað með hjálp myndbandanna. Á það jafnt við um nemendur með námsörðugleika sem bráðgera nemendur. Verkefnið gefur nemendum margvísleg tækifæri í námi svo sem; að vinna sjálfstætt, í samvinnu við aðra, nýta myndböndin í þekkingarleit, við úrvinnslu verkefna. Myndböndin eru aðgengileg á þessari vefslóð, en þau eru gríðarlega mikið nýtt: https://www.youtube.com/channel/UC7c_8_Q5wiBpjGtgRxYcxjQ

Taktu skrefið: Vaxandi hugarfar og námsvitund

Annað þróunarverkefni Álfanesskóla er Vaxandi hugarfar og námsvitund. Í því verkefni var útbúin vefsíða með verkefnum, greinum, myndböndum og ýmsum  gögnum sem snúa að þessari áherslu. Afraksturinn er verkefnabanki sem skólinn og aðrir skólar hafa aðgang að. Hér er slóð á verkefnabankann http://alftanesskoli.is/namid/aherslur/

Trú á eigin getu og vilji til að vaxa

Megintilgangur Vaxandi hugarfars er styðja við það hugarfar nemenda að þeir geti þróað eigin færni, hæfni, vinnulag, samvinnu og hjálpsemi. Vaxandi hugarfar er talið hafa jákvæð áhrif á áhugahvöt nemenda sem eykur metnað, vilja og getu til að  einbeita sér að náminu og þrautseigju. Þannig stuðlar vaxandi hugarfar að betri námsárangri, aukum þroska og árangursríku vinnulagi.

Ábyrgð og sjálfsagi

Þessi áhersla tengist Uppeldi til ábyrgðar, sem miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn barna og unglinga, þjálfa þau í að ræða tilfinningar og átta sig á eigin þörfum. Kennarinn þarf að skapa umhverfi og aðstæður sem vekja nemendur til vaxandi hugarfars og þessari nálgun er einnig ætlað að styðja starfsmenn skóla við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Vaxandi hugarfar nýtist mjög vel í tengslum við leiðsagnarmat þar sem nemendur vinna mat á námi sínu á mismunandi vegu og nám þeirra er endurskoðað reglulega. Leiðsagnarmat er samspil kennara og nemenda.

Niðurstaða

Vendikennsla er leið sem nemendur nýta vel þar sem þeir geta sótt útskýringar t.d. á flóknu stærðfræðidæmi í símann sinn eða annað tæki þegar þeim hentar. Þetta er námsaðferð þar sem tæknin vinnur með okkur og er nýtt í auknum mæli. Myndböndin sem Álftanesskóli hefur unnið eru vönduð og gríðarlega mikið notuð. Vaxandi hugarfar er verkefni sem fær nemendur til að átta sig á að við höfum val um viðhorf og hugarfar. Trú á eigin getu er forsenda þess að við leyfum okkur að hafa áhuga á einhverju og saman skapar þetta árangur og jafnvel ástríðu gagnvart viðfangsefninu. Hér eru dæmi um tvö þróunarverkefni sem tengjast mjög vel þróun tækninnar í námsumhverfi og árangursfræðum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar