Nú renna upp síðustu klukkustundir kosningabaráttunnar. Á laugardaginn er kosið milli tveggja leiða. Annars vegar Reykjavíkurmódelsins, undir forystu flokkanna sem þar leiða. Hins vegar leiðar okkar sjálfstæðismanna, sem hefur endurspeglast í rekstri sveitarfélaganna í Suðvesturkjördæmi.
Kosningarnar fara ekki fram í neinu venjulegu árferði. Segja má að nú renni upp eins konar ögurstund fyrir íslenskt samfélag. Klára þarf verkefnið að ná niður verðbólgu og vöxtum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin og ef við höldum áfram á réttri leið munuverðbólga og vextir lækka hratt á næsta ári. Það er langstærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á Íslandi.
Fyrir unga…
Sumir segja að ég tali of mikið um fortíðina, þylji upp iðagrænar hagtölur og reifi gamla sigra. Stundum er nokkuð til í því, en við megum þó aldrei gleyma þeim árangri sem hefur náðst, vegna þess að á honum byggjum við. Við megum ekki kaupa heimsmynd þeirra sem stöðugt selja einhvers konar niðurrifsmynd af samfélaginu okkar. Við höfum lækkað skatta, hagur fólks hefur heilt yfir vænkast ár frá ári, nýjar atvinnugreinar vaxið hratt og Ísland orðið stærra og meira spennandi á alla vegu.
Með þessu er hins vegar ekki sagt að allt sé fullkomið, frekar en annars staðar, og nú verður að horfa til framtíðar. Fæðingartíðni fer lækkandi og við höfum áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði. Við þessu þarf að bregðast og stuðla að því að ungt fólk hafi trú á Íslandi og vilji stofna hér fjölskyldu. Til þess viljum við meðal annars veita foreldrum barna að þriggja ára aldri skattaafslátt og efla fæðingarorlofskerfið enn frekar. Það mikilvægasta er svo að tækifærin séu til staðar – að hér verði til eftirsóknarverð störf á fjölbreyttum sviðum. Á húsnæðismarkaði þarf að einfalda skipulagsferli og regluverk, auk þess að skylda sveitarfélög til að tryggja nægt lóðaframboð. Það gengur ekki að höfuðborgin reki stöðugt lestina í þeim efnum. Samhliða þarf að afnema óþarfa þröskulda á borð við stimpilgjöld og efla séreignarleiðina enn frekar, sem hefur hjálpað tugum þúsunda íslenskra fjölskyldna að eignast eigið húsnæði.
… sem aldna
Við heyrum sömuleiðis eðlilegt ákall um að styðja enn betur við fólk á seinni hluta æviskeiðsins. Fólkið sem byggði upp landið okkar og lagði hér grunn að lífskjörum sem eru með þeim bestu í heiminum á skilið áhyggjulaust ævikvöld. Hér á að vera gott að eldast. Við viljum sveigjanlegri starfslok og ætlum að hækka frítekjumörk ellilífeyris. Þar munar mestu um frítekjumark atvinnutekna – ekkert hjálpar fólki meira en að gera því kleift að hjálpa sér sjálft. Nýta verður tækifærin í nýju fyrirkomulagi við uppbyggingu hjúkrunarheimila, en það er ekki síður mikilvægt að veita betri þjónustu svo fólk geti búið lengur á sínu eigin heimili.
Taktískar kosningar
Það er skiljanlegt að margir kalli eftir breytingum við kosningar. Hins vegar er mikilvægt að þær breytingar felist ekki í kollsteypum fólks sem við þekkjum alltof vel af vettvangi Reykjavíkurstjórnarinnar, sem nú vill einnig taka við taumunum á landsvísu.
Þær breytingar sem mestu skipta að mínu mati eru þessar: Lægri álögur á fólk og fyrirtæki, fleiri tækifæri fyrir fólk til að blómstra og bæta hag sinn á sínum eigin forsendum, opinber þjónusta þar sem lausnirnar fæðast úti í samfélaginu – ekki eingöngu á forsendum ríkisins.
Til að koma þessum breytingum til leiðar þarf að kjósa taktískt, og eina taktíska kosningin í þeim efnum er stærri Sjálfstæðisflokkur.
Bjarni Benediktsson, höfundur er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins