Vaxandi vesturbær í sterku samfélagi – Álftanes þar sem sveitin blómstrar

Nýársdagur fyrir níu árum, 1. janúar 2013, markaði tímamót í sögu Garðabæjar. Þann dag sameinuðust á ný hrepparnir gömlu, Garðahreppur og Bessastaðahreppur, þá sem Garðabær og Álftanes, í eitt og sama sveitarfélagið.

Sameiningin var á sinn hátt endapunktur á hringrás sem hófst síðla árs 1878 þegar Garðahreppur varð til ásamt Bessastaðahreppi við skiptingu Álftaneshrepps hins forna í tvennt.

Sameiginleg arfleifð

Skipting landsins í hreppa sem varð til á öndverðri þjóðveldisöld er gamalgróin með þjóðinni. Talið er að upprunaleg hreppaskipan Íslands eigi sér m.a. rætur í fátæktarframfærslu og þörf bænda fyrir samvinnu á öldum áður og elstu heimildir um hreppaskipan landsins er að finna í hinu forna lagasafni, Grágás. Hrepparnir voru framan af nokkurs konar samábyrgðar- og framfærslusvæði.
Við þessa upprunalegu hreppaskipan varð meðal annars til Álftaneshreppur, á svæði sem nú nær til Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Síðla árs 1878 var Álftaneshreppi skipt í tvennt eftir áralangar deilur höfðingjanna tveggja; Þórarins Böðvarssonar í Görðum og Gríms Thomsen á Bessastöðum, m.a. um ómagaframfærslu og sveitfesti og til urðu sveitarfélögin Bessastaðahreppur og Garðahreppur. Reyndar gekk tillagan sem samþykkt var á fundi hreppsnefndar Álftaneshrepps á árinu 1878 út á að skipta hreppnum í þrennt; í Bessastaðahrepp, Garðahrepp og Hafnarfjörð því á sama tíma lá fyrir ósk búenda á þéttbýlissvæðinu þar um að Hafnarfjörður fengi kaupstaðarréttindi. Yrði það ekki samþykkt á Alþingi skyldi hreppnum skipt í tvennt, í Bessastaðahrepp og Garðahrepp.

Alþingi samþykkti síðari tillöguna og varð Hafnarfjörður því hluti af Garðahreppi allt til ársins 1908 en Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní það sama ár.

Á árinu 1974 var Garðahreppur orðinn langstærsti hreppur landsins, með um 4.000 íbúa og í miklum vexti. Þótti þá eðlilegt að sækja um kaupstaðarréttindi til Alþingis. Slík réttindi fólu það í sér að þéttbýlisstaðurinn varð að sérstöku lögsagnarumdæmi sem var aðgreint frá sýslunni, með eigin bæjarstjórn og bæjardómara auk þess sem í kaupstað fengu íbúar rétt til að reka verslun og iðnað. Smærri þéttbýlisstaðir sem ekki höfðu kaupstaðarréttindi voru stundum nefndir kauptún.
Umsókn hreppsnefndar um kaupstaðarréttindi hlaut skjóta afgreiðslu á Alþingi og voru lög þar um samþykkt 12. desember 1975. Lögin tóku gildi 1. janúar 1976 og öðlaðist þá Garðahreppur kaupstaðarréttindi og fékk í kjölfarið heitið Garðabær.

Þann 17. júní 2004 var svo heiti Bessastaðahrepps formlega breytt í Sveitarfélagið Álftanes.

Kosið um sameiningu 2012

Kosið var um sameiningu Garðabæjar og Álftaness 20. október 2012 og tók sameiningin gildi 1. janúar 2013. Rúmlega 53% íbúa Garðabæjar samþykktu sameininguna en á Álftanesi var niðurstaðan afdráttarlausari, þar hlaut sameiningartillagan tæplega 88% greiddra atkvæða.
Þessi niðurstaða var talsvert ólík þeirri sem fékkst 1993 þegar kosið var um sameiningu Garðabæjar og Bessastaðahrepps, en þá samþykktu 90% Garðbæinga sameiningu en ekki nema 40% Álftnesinga. Svipuð niðurstaða fékkst svo aftur í formlegri skoðanakönnun á Álftanesi og í Garðabæ á árinu 1998 um hvort taka ætti upp viðræður um sameiningu. Enda var ólíkri stöðu saman að jafna á þessum árum því þá lágu helstu lykiltölur í fjárhag sveitarfélaganna mun nær hver annarri en síðar varð.

Álftanesvöllur upplýstur að kvöldlagi

Tvö kjörtímabil liðin

Nú eru senn liðin tvö heil kjörtímabil bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi. Síðastliðin átta ár hef ég sem fulltrúi í bæjarstjórn Garðabæjar fengið tækifæri til þess að leggja mitt af mörkum til þess að stuðla að farsælum framgangi sameiningar Garðabæjar og Álftaness.
Þar hef ég leitast við að tala máli Álftnesinga á þann veg að sameiningin í heild sinni tækist sem best fyrir alla Garðbæinga.

Staðan níu árum eftir sameiningu

Áætlanir sem lagt var upp með um jákvæð fjárhagsleg áhrif sameiningar Garðabæjar og Álftaness hafa gengið eftir og gott betur. Rekstur bæjarsjóðs hefur gengið vel öll árin sem liðin eru frá sameiningu og allt bendir til þess að sú verði einnig raunin á árinu 2021, þrátt fyrir veruleg neikvæð áhrif covid faraldursins síðastliðin tvö ár.

Skatttekjur bæjarsjóðs eru háar þrátt fyrir að 13.7% útsvarsprósenta í Garðabæ sé langlægsta útsvarshlutfall sem fyrirfinnst á höfuðborgarsvæðinu og meðal stærri sveitarfélaga á landinu öllu. Þá hefur álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði í Garðabæ lækkað jafnt og þétt, úr 0,26% árið 2012 (var 0,41% á Álftanesi það sama ár) í 0,179% árið 2022.

Ein leið til að kanna hvort sameining Garðabæjar og Álftaness hafi skilað sér í bættum búsetuskilyrðum er að skoða niðurstöður árlegrar þjónustukönnunar Gallup hér í bænum. Eftir að ánægjuvog íbúa í Garðabæ féll töluvert milli áranna 2012 og 2013 sem kann að mega rekja til breyttrar íbúasamsetningar eftir sameiningu Garðabæjar og Álftaness, hækkaði ánægjuvogin strax aftur 2014 og hefur áfram haldist há á tímabilinu 2015-2021.

Niðurstöður þjónustukönnunar Gallup í Garðabæ á undanförnum árum benda eindregið til þess að þjónustustigið í bænum sé á heildina litið orðið ívið hærra og mun jafnara en áður var og að sameiningin 2013 hafi skilað sér í jákvæðri byggðaþróun á svæðinu í heild.

Fallegar íbúðir fyrir ungt fólk á miðsvæði Álftaness

Framkvæmdir eru nú hafnar við byggingu nýs íbúðarkjarna við Lambamýri á miðsvæði Álftaness, þess fyrsta af þremur kjörnum á svæðinu þar sem mikil áhersla er lögð á samspil íbúðarbyggðar og náttúru.

Ekki er vafi á að Garðbæingar munu fagna þessu nýja íbúðarhverfi, einkum unga fólkið okkar sem er að vaxa úr grasi og vill búa áfram í sinni heimabyggð á Álftanesi eftir að hafa flutt úr foreldrahúsum. Mikil eftirspurn er eftir íbúðum á Álftanesi sem verður hægt að mæta á komandi árum með þessu nýja íbúðarhverfi á miðsvæðinu.

Á jarðhæð fyrsta fjölbýlishússins sem nú rís við Lambamýri er gert ráð fyrir glæsilegri aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf eldri borgara.

Samhliða hefst á nýju ári uppbygging nýs íbúðarhverfis í Kumlamýri en þar verða byggð 26 parhús í þyrpingu, lík einbýlishúsum að útliti. Þar standa einstaklingar og fjölskyldur að framkvæmdum.
Við skipulagningu íbúðarhverfisins á miðsvæðinu og húsaþyrpingarinnar í Kumlamýri var tekið mið af hugmyndinni um Álftanes sem „sveit í borg“.

Framundan er semsé spennandi uppbygging nýrrar íbúðarbyggðar í vesturbænum okkar á Álftanesi.

Við Lambamýri á Álftanesi er hafin bygging fallegra íbúða

Garðabær sem heild – Sérstaða hverfa

Líkt og samfélagið okkar hér í Garðabæ hefur ákveðna sérstöðu meðal sveitarfélaga landsins hefur sérhvert hverfi bæjarins sína sérstöðu og sinn eigin staðaranda. Mikilvægt er að hlúa að þessari sérstöðu hverfa bæjarins. Eins og sérhver strengur fiðlunnar hefur sinn eigin tón, mynda strengirnir allir saman hljóðfærið í heild sem gefur hljóðfærinu ákveðinn karakter.

Við eigum eldri hverfin í Garðabæ, s.s. Arnarnesið, Flatirnar, Lundina og Garðahverfið svo dæmi séu tekin. Og nýrri hverfin eins og Álftanesið eftir sameiningu, Ásana, Akrahverfið, Sjálandið og Urriðaholtið. Andann í þessum hverfum og öllum öðrum hverfum bæjarins þurfum við að varðveita.
Í þessu samhengi er mér sérstaklega hugsað til sérstöðunnar í nýjasta hverfinu okkar í Urriðaholti. Nálægð við náttúruperlurnar Heiðmörk og Urriðavatn, einnig Kauptúnið, golfvöll, skógræktarsvæði, stofnbraut og hversu margt ungt fólk býr þar eru allt atriði sem hafa áhrif á staðarandann.

Byggðin í Urriðaaholti og náttúruperlan Urriðavatn

Uppbygging Urriðaholts var á margan hátt tímamótaverkefni hérlendis í mótun nýs bæjarhverfis með vistvottun hverfisins (Breeam Communities) þar sem sjálfbær þróun og virðing fyrir umhverfi og samfélagi er höfð að leiðarljósi. Á næstu árum þurfum við sérstaklega að hlúa að Urriðaholtinu með í huga að þar þróist og verði til sterkur og góður staðarandi og velferð.

Líkt og bæjarstjórnir liðinna ára í Garðabæ hafa unnið ötullega að því að byggja upp sterkt samfélag í Garðabæ með velferð íbúanna að leiðarljósi þurfa bæjarfulltrúar framtíðarinnar að stuðla áfram að því að sérhvert hverfi bæjarins fái áfram notið sinnar sérstöðu.

Komi til þess að ég fái áframhaldandi umboð Garðbæinga til þess að koma þar að málum mun ég leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða.

Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar