Útilífsmiðstöð skátafélagsins Vífils formlega vígð

Útilífsmiðstöð skátafélagsins Vífils í Heiðmörk verður vígð formlega miðvikudaginn 11. maí nk, en það voru þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Thelma Rún Van Erven, félagsforingi Skátafélagsins Vífils, sem undirrituðu samninginn miðvikudaginn 19. júní 2019 og tóku um leið skóflustungu að nýju útilífsmiðstöðinni. 

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Thelma Rún Van Erven, félagsforingi Skátafélagsins Vífils, undirrituðu samninginn 2019. Með þeim á myndinni er Björn Hilmarsson, skáti og formaður húsnefndar Vífils sem hélt utan um framkvæmdina og Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.

Samkvæmt samningnum úthlutaði Garðabær skátafélaginu Vífli lóð í Heiðmörk til að byggja útilífsmiðstöð. Stærð lóðarinnar er um 3000 m2 og útilífsmiðstöðin er um 200 m2að gólffleti og þar að auki er svefnloft um 100 m2. Skátafélagið Vífill stóð að byggingu hússins og bar ábyrgð á framkvæmdunum. Einnig tók skátafélagið að sér framkvæmdir við aðkomu frá Vífilsstaðahlíð, s.s. lagningu rafmagns og vatnsveitu. 

Samkvæmt samningi getur Garðabær jafnframt notað húsnæðið fyrir tómstunda- og fræðslustarfsemi á vegum leik- og grunnskóla bæjarins. Jafnframt lýstu samningsaðilar yfir áhuga á að húsnæðið verði nýtt sem áningarstaður í útivist almennings t.d. í skipulögðum útivistarviðburðum í Heiðmörk á vegum bæjarfélagsins og skátafélagsins.

Útilífsmiðstöðin er staðsett við Grunnuvötn í Heiðmörk.

Við vígsluna verður skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning við Vífil, ávörp flutt og húsið skoðað.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar