Útför Ólafs G. Einarssonar, heiðursborgara Garðabæjar fór fram frá Vídalínskirkju í dag.

Útför Ólafs G. Einarsson, fyrrverandi sveitarstjóra í Garðahreppi, heiðursborgara Garðabæjar og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra fór fram í Vídalínskirkju klukkan 13 í dag.

Æviágrip 

Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fæddist á Siglufirði 7. júlí 1932. 

Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 27. apríl 2023. Foreldrar Ólafs voru þau Ólöf Ísaksdóttir húsmóðir, f. 21.9. 1900, d. 1.5. 1987, og Einar Kristjánsson forstjóri, f. 21.7. 1898, d. 27.10. 1960. Systkin: Dóróthea Júlía Einarsdóttir Eyland, f. 28.7. 1929, maki Gísli Jón Juul Eyland, f. 21.12. 1926, d. 8.7. 2018, og Kristján Bogi, f. 1.8. 1943, d. 24.1. 1996, maki Sólveig Haraldsdóttir, f. 26.3. 1944.

 Ólafur kvæntist á aðfangadag 1955 Rögnu Bjarnadóttur, f. 21.11. 1931, d. 20.1. 2015. Foreldrar hennar voru Guðfinna Guðnadóttir húsmóðir, f. 1.11. 1888, d. 13.4. 1973, og Bjarni Bjarnason söðlasmiður, f. 23.8. 1874, d. 26.3. 1958. Ragna og Ólafur eignuðust eina dóttur, Ástu Ragnhildi, f. 17.1. 1968, d. 15.1. 2021. Maki Þröstur Sigurðsson, f. 7.3. 1966. Synir þeirra eru Ólafur Þór, f. 1989, Fannar Steinn, f. 1996, og Viktor Ingi, f. 2000. Dóttir Ólafs er María, f. 26.8. 1974. Maki Jon Anning, f. 29.5. 1972. Synir Maríu eru Tómas Ari, f. 2005, Davíð Hrafn, f. 2007, og Stefán Haukur, f. 2009. Þau eru búsett í Svíþjóð.

 Ólafur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1953. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1960 og var að því loknu ráðinn sveitarstjóri í Garðahreppi, sem hann gegndi til ársins 1972. Hann var oddviti hreppsnefndar 1972-1975 og forseti bæjarstjórnar 1976, þegar Garðabær fékk kaupstaðarréttindi, til loka kjörtímabils 1978. 

Ólafur var kosinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1971 og sat á Alþingi til 1999. Hann var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1979- 1991, menntamálaráðherra 1991-1995 og forseti Alþingis 1995-1999, er hann lét af þingstörfum. Ólafur sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969-1971 og 1980-1991 og í framkvæmdastjórn flokksins 1981-1991. Hann var formaður Þingvallanefndar 1988-1991, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 1983-1986 og formaður 1986-1991.

Hann sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1998-2007 og var formaður þess 2001-2006. Ólafur var formaður Hjálparstarfs kirkjunnar 1998-2000 og formaður orðunefndar 2003- 2010. Hann var útnefndur heiðursborgari Garðabæjar árið 2010. 

Kveðja frá Garðabæ 

„Hann blasti við mér sem sveitarfélag sem hlyti að hafa alveg óvenjulega góða möguleika til þróunar. Lítið hafði verið byggt og þarna voru mikil landgæði til að byggja á. Þarna var einnig mikilfengleg náttúra í næsta nágrenni sem þurfti að vernda.“ 

Svo sagði Ólafur G. Einarsson, í blaðaviðtali við Garðapóstinn 2001, frá verkefnum sínum í Garðahreppi þegar hann tók við starfi sveitarstjóra árið 1960. Ólafur vann vel úr þessum spilum þegar hann kom til starfa hjá hreppnum. 

 Hann var gerður að heiðursborgara Garðabæjar árið 2010. Með því vildi bæjarstjórn sýna Ólafi þakklæti fyrir störf hans í þágu bæjarins og bæjarbúa og undirstrika að verk hans í Garðabæ verða í minnum höfð. 

Nokkrir þættir voru einkennandi í störfum Ólafs og mörkuðu djúp spor sem við fylgjum að mörgu leyti enn þann dag í dag. Skipulag var framsýnt þar sem lögð var áhersla á stórar lóðir og snyrtilegar götur. Allur frágangur á götum og lögnum var fyrr á ferðinni en almennt tíðkaðist. Ólafur skynjaði vel mikilvægi þess að öflugt félagsstarf þyrfti í samfélagið unga og studdi stofnun og starf ýmissa félaga. Sú grasrót og sá félagsauður sem þá myndaðist er enn stór hluti af samfélaginu í Garðabæ. 

Ólafur var málafylgjumaður og greinilega lipur í samningum líka. Ganga þurfti hratt til samninga við landeigendur til þess að þróa byggðina áfram og leysti það farsællega. Þá er áberandi að hann stóð vaktina fyrir bæinn vegna ýmissa hagsmunamála, s.s. vegna Hafnarfjarðarvegar og skipasmíðaiðnaðar, sem var blómlegur hér. 

Ég átti því láni að fagna að kynnast Ólafi persónulega. Ég sat í stjórn Hugins, félagi ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, ásamt Ástu heitinni dóttur hans. Hann fylgdist vel með okkar starfi og hvatti okkur til dáða. Þá minnist ég þess að eftir framboðsfund í FG fyrir kosningarnar 1991 gaf hann sér tíma til að spjalla við mig. Þakkaði hann sérstaklega fyrir góða fundarstjórn á ansi líflegum fundi þar sem margar kanónur voru. Það þótti mér vænt um. Ólafur átti líka stóran þátt í að framtíðarhúsnæði FG varð að veruleika. 

Örlögin höguðu því svo þannig að við fjölskyldan keyptum síðar húsið gengt húsi Ólafs á Stekkjarflöt. Í gegnum nábýlið kynntist ég Ólafi betur enda tókum við alloft tal saman um pólitík og dægurmál. Það voru fjörlegar samræður þar sem ég kynntist betur persónunni, húmornum, sagnagáfunni og vísnamanninum. Ólafur fór svo gjarnan á kostum þegar hann ávarpaði okkur á árlegu götugrilli Stekkjarflatar. Eins er mér minnisstætt þegar hann leiddi Garðbæinga í söguferð um Flatirnar. Þar voru sögurnar sagðar af leiftrandi list, þar sem hann blandaði saman sagnfræðinni og góðum skammti af kryddi til að gera sögurnar enn meira spennandi. Hann kunni líka að enda þær á góðu „punchline“.

Nú er Ólafur G. Einarsson, heiðursborgari Garðabæjar, látinn. Við minnumst hans með hlýhug og þakklæti fyrir mótandi áhrif hans á samfélagið okkar. Kæri Þröstur, synir og aðrir aðstandendur, fyrir hönd Garðabæjar færi ég ykkur hlýjar samúðarkveðjur. 

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar