Fullbyggður Urriðaholtsskóli verður heildstæður grunnskóli fyrir 1.-10. bekk ásamt sex deilda leikskóla. Innangengt verður frá skólanum að búningsklefaálmu, íþróttasal og sundlaug.
Heildarhönnun skólans gerir ráð fyrir um 640 grunnskólanemendum og um 120 leikskólanemendum.
Íbúðum í Urriðaholti hefur fjölgað frá upphaflegum áætlunum. Samkvæmt úttekt VSÓ Ráðgjafar sem kynnt var í bæjarráði 15. febrúar sl. má reikna með um 700 grunnskólanemendum í Urriðaholtsskóla um nokkura ára skeið.
Urriðaholtsskóli
Í Urriðaholtsskóla eru nú 150 grunnskólanemendur. Reiknað er með 210-230 nemendum haustið 2022 í 1.-8. bekk og haustið 2023 verða um 300 nemendur í 1.-9. bekk.
Skólabyggingin inniheldur nú stjórnunarálmuna, leikskólann, kennslurými 250-300 nemenda, tónlistarkennslurými og tæknirými skólans. Þar er einnig bókasafnið, almennings- og skólabókasafn.
Í sumar verða settar tvær lausar kennslustofur við skólann.
Hönnun 2. byggingaráfanga Urriðaholtsskóla er á lokastigi. Verkið verður boðið út á næstunni. Í þessum áfanga verður kennslurými fyrir um 360 nemendur, raungreinastofa, list- og verkgreinaaðstaða, mötuneyti, stoðþjónusturými og skólalóðin.
Skólabyggingin er þá með kennslurými fyrir um 640 grunnskólanemendur og um 120 leikskólanemendur. Ákveðin vikmörk eru til staðar ef á þarf að halda því 5 ára börnin geta lært hvorum megin sem er innan skólans, leikskólamegin eða grunnskólamegin.
Öruggt aðgengi nemenda að útileiksvæðum á framkvæmdartíma verksins verður tryggt.
- áfangi Urriðaholtsskóla verður tekinn í notkun haustið 2023.
Frá 2027-2028 gæti vantað pláss fyrir 60-100 nemendur í nokkur ár. Það tímabundna ástand má leysa með lausum kennslustofum eða með byggingu kennslurýmis ofan á þak íþróttahúss skólans.
Íþróttahúsið og sundlaugin
Ég sé fyrir mér að hönnun 3. áfanga Urriðaholtsskóla sem er íþróttahús með löglegum handboltavelli og sundlaug, skjólgóð útisvæði með heitum pottum og barnasvæði, verði unnin í samráði við íbúana í Urriðaholti.
Innisundlaug í líkingu við Sjálandslaug, sem er yfirbyggð og nýtist bæði sem almenningslaug og skólasundlaug, gæti verið góð fyrirmynd að glæsilegri Urriðaholtslaug.
Félagsmiðstöð hverfisins
Með tilkomu unglingadeildar Urriðaholtsskóla eykst þörf fyrir ýmsa starfsemi nemenda á unglingastigi aðra en hefðbundið tómstundastarf, félagslíf og samkomuhald grunnskólans.
Félagsmiðstöð Urriðaholts verður innleidd í áföngum samhliða unglingadeild skólans. Starfsemin styður við forvarnir í hverfinu, stuðlar að jákvæðum þroska og gerir ungmennin okkar hæfari til að takast á við lífið.
Uppbygging og rekstur félagsmiðstöðvar kallar á náið samstarf við foreldrasamfélagið í Urriðaholti frá upphafi starfseminnar.
Félagsmiðstöðin verður á jarðhæð skólans, samtengd eldhúsi, list- og verkgreinarýmum og bókasafninu. Félagsmiðstöðin mun einnig geta nýtt tónmenntastofu skólans og hljóðherbergi í salnum til listsköpunar og upptöku á tónlist.
Hér bíður íbúa í Urriðaholti, starfsfólks og nemenda Urriðaholtsskóla spennandi uppbyggingarstarf í hverfinu.
Innra starfið skiptir mestu
Skólahúsnæði og umgjörð um skólastarf er eitt. En það allra mikilvægasta er þó starfsfólkið sem vinnur innan skólabyggingarinnar.
Við höfum verið einstaklega heppin með stjórnendur, kennara og annað starfsfólk Urriðaholtsskóla sem leggur mikla alúð í starfið sitt.
Fyrir það ber að þakka.
Gunnar Valur Gíslason
Bæjarfulltrúi og formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar
Sjá nánar: www.gunnarvalur.is