Uppskeran tekin upp í fallegu veðri í skólagörðunm

Uppskeruhátíð skólagarðanna í Silfurtúni var haldin laugardaginn 7. september sl. í mildu og fallegu haustveðri.
Börn og eldri borgarar sem voru með garð í skólagörðunum í sumar mættu yfir daginn ásamt fjölskyldum sínum og unnu saman að því að stinga upp kartöflur og uppskera grænmeti úr görðunum.

Eins og undanfarin sumur, bauðst eldri borgurum að kaupa garð eftir að börnunum hafði verið úthlutaður garður og töluverður áhugi var á því. Í skólagörðunum í sumar voru ræktaðar kartöflur, fjölmargar káltegundir, salöt og krydd-jurtir. Jafnvel þótt sumarið hafi byrjað í kaldara lagi og tíðarfarið á höfuðborgarsvæðinu í sumar hafi verið fremur þungbúið og svalt þá var uppskeran almennt góð hjá flestum.

Heiðar, Sunna Rós og Berglind í skólagörðunum

Boðið var upp á grillaðar pylsur og kanilsnúða til að fagna góðri uppskeru og sumarstarfi. Skólagarðarnir í Silfurtúni eru eingöngu ætlaðir börnum á aldrinum 6-13 ára og eldri borgurum.

Þetta eru einu skólagarðarnir í bænum, en íbúar bæjarins geta leigt sér matjurtarkassa yfir sumarið og eru þeir staðsettir í Hæðarhverfi, Urriðaholti og á Álftanesi.

Forsíðumynd: Emma, Harpa og Vífill með fína uppskeru.

Vinkonurnar Gunnhildur og Elísabet
Mæðgurnar Auður og Sunna
Það var góð stemmning í skólagörðunum sl. laugardag þegar fjölskyldur og vinir mættu til að taka upp afrakstur sumarsins. F.v. Þuríður, Eva, Auður, Emma, Haraldur og Ingibjörg.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar