Halldór Valberg Skúlason, félagsforingi Skátafélagsins Svana og Jónatan Smári Svavarsson, verkfræðingur og skáti, mættu á síðasta fund íþrótta- og tómstundaráðs þar sem þeir fóru yfir starf félagsins á Álftanesi og hugmyndir þeirra að „Mannlífsmiðstöð skáta á Álftanesi“.
Skátarnir vilja hafa jákvæð áhrif á einstaklinga í óvægnum heimi
Skátafélagið er í dag með aðstöðu á Bjarnastöðum en um 100 skátar á aldrinum 8 til 25 ára eru í félaginu. Gerðu þeir grein fyrir þeirri sýn skátanna að hafa jákvæð áhrif á einstaklinga í óvægnum heimi og hjálpa þeim að þroskast með því að fá ábyrgð og takast á við ögrandi verkefni í góðum hópi.
Breytt þjóðfélag kallar á breyttar áherslur
Jafnframt gerðu þeir grein fyrir þeirri skoðun sinni að breytt þjóðfélag kalli á breyttar áherslur í skátastarfi og samstarf við aðra hópa óháð aldri.
Hugmyndir Skátafélagsins varðandi Mannlífsmiðstöðina er að hún verði staðsett vestan við íþróttavöllinn við Breiðumýri á sama stað og skátarnir höfðu áður aðstöðu. Horfa þeir til þess að um verði að ræða 300 -500 fm hús en þarfagreining og forhönnun mun leiða ljós endanlega stærð.
Áætlun þeirra varðandi kostnað við undirbúning Mannlífsmiðstöðvar sem felst í þarfagreiningu, aðlögun á nærumhverfi, samtali við hagaðila, jarðvegskannanir, arkitekta- og verkfræðitekningar áamt verkefnastjórn hljóðar upp á 35-45 milljónir.
ÍTG lýsti yfir ánægju sinni með áherslur Skátafélagsins Svana og lagði til að málið verði skoðað nánar m.a. með tilliti til fjármögnunar.