Ungur nemur gamall temur

Nú fer árinu 2021 að ljúka og tímabilið hálfnað hjá handboltanum. Í Olís deildinni hefur strákunum gengið alveg ágætlega og eru einungis 3 stigum frá toppliðinu en stelpurnar hafa tapað nokkrum leikjum naumt og eru í 6. sæti deildarinnar. Yngri flokka starfið er farið á fullt skrið og hafa verið haldin 2 stór fjölliðamót í TM-höllinni þar sem að ca 440 ungir iðkendur kepptu á hvoru móti og fóru þau öll hæst ánægð og þreytt heim með verðlaun um hálsinn. Töluverð meiðsli hafa verið að hrjá leikmenn karlaliðsins og eru óvenju margir leikmenn frá í augnablikinu. Þá er gott að geta leitað í yngri flokkana eftir leikmönnum og í leik Stjörnunnar gegn Fram í meistara flokki karla tók hann Patrekur þjálfari enn einn nýliðann inn í hópinn og að þessu sinni var það markvörðurinn Baldur Ingi Pétursson. Hann er 17 ára í 3. flokki og uppalinn Stjörnumaður og það sem gerði þetta val skemmtilegra er að hann Brynjar Darri Baldursson, einnig uppalinn Stjörnumaður sem hafði lagt skóna á hilluna kom inní hópinn aftur og varði markið sem markmaður nr 1. Skemmtileg tilviljun þar sem að pabbar þeirra beggja hafa starfað sem formenn deildarinnar.

Stjórn Handboltans óskar öllum Garðbæingum og Stjörnumönnum gleðilegrar hátíðar og sjáumst aftur á nýju ári. Framtíðin er björt. Skíni Stjarnan.

Á myndinni eru félagarnir Baldur Ingi og Brynjar Darri.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar