Í Garðabæ hefur börnum á leikskólaaldri fjölgað með stækkandi bæjarfélagi og stórum árgangi sem er að hefja leikskólagöngu sína í haust. Vegna þessarar fjölgunar leikskólabarna í bænum er stefnt að því að opna nýjan leikskóla í Garðabæ í haust. Nýi leikskólinn hefur fengið heitið Mánahvoll og verður staðsettur á Vífilsstöðum, við hliðina á leikskólanum Sunnuhvoli sem er þar fyrir. Leikskólabyggingin verður samsett úr einingahúsum sem flutt verða á staðinn.
Ungbarnaleikskóli fyrir 12-24 mánaða gömul börn
Mánahvoll verður 6 deilda ungbarnaleikskóli fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða. Kristín Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem leikskólastjóri Mánahvols en hún hefur undanfarin tvö ár starfað sem aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Ökrum í Garðabæ.
Leikskólinn Mánahvoll tekur til starfa í ágúst með einni deild til að byrja með og svo bætast við fleiri deildir um haustið. Fyrstu vikurnar hefst starfsemi skólans í húsnæði leikskólans Krakkakots á Álftanesi þar til búið verður að setja upp og útbúa hús Mánahvols á Vífilsstöðum. Gert er ráð fyrir að það verði í byrjun október sem starfsemin flyst yfir á Vífilsstaði.
Á næsta ári fjölgar leikskólum enn í bænum þegar nýr leikskóli rís í Urriðaholti. Byggingarframkvæmdir við þann leikskóla eru í undirbúningi en niðurstöður úr hönnunarsamkeppni um leikskólann lágu fyrir í byrjun júní og gert er ráð fyrir að skólinn verði tilbúinn á árinu 2022.
Mynd. Framkvæmdir eru hafnar við leikskólann Mánahvol á Vífilsstöðum