Undirbúningur Rökkvunnar stendur sem hæst

Hópur ungra tónlistarmanna í Garðabæ hafa frá því snemma í sumar unnið hörðum höndum að undirbúningi listahátíðarinnar Rökkvunnar sem fram fer í annað sinn dagana 29. og 30. september á Garðatorgi.

Dagskráin verður fyrst og fremst í formi tónleika en ungir hönnuðir og listamenn sýna og selja einnig vörur á markaði sem stendur yfir báða dagana. Menningarfulltrúi Garðabæjar telur það skipta miklu máli að leyfa ungu fólki að spreyta sig í að skipuleggja svo stóra hátíð og setja þannig mark sitt á menningarlífið í bænum. „Að fá vængi og finna að maður veldur flóknu verkefni er lykill að því að eflast og það er svo mikilvægt fyrir okkur sem erum við stjórnvölin að gefa ungmennunum okkar þessháttar tækifæri,“ segir Ólöf Breiðfjörð.

Rökkvuhópurinn fékk til liðs við sig Moses Hightower og Diktu sem verða rúsínurnar í pylsuendanum á föstudagskvöldi annarsvegar og laugardagskvöldi hinsvegar.

Ungt tónlistarfólk frær svo að spreyta sig á stóra sviðinu sem og á Rökkvukránni en dagskrá á stóra sviði hefst báða dagana kl. 17. Kusk og Óviti, Sigga Ózk og Piparkorn eru meðal þeirra sem koma fram á stóra sviðinu en mjög áhugaverðir tónlistarmenn koma fram á Rökkvukránni svo sem Silva og Steini sem nýlega skutust upp á stjörnuhimininn bætir Ólöf við.

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar fylgist náið með gangi mála en Rökkvuhópnum til stuðnings er að sjálfsögðu Ólöf menningarfulltrúi, Gunni Rich og í raun ansi margir starfsmenn Garðabæjar sem koma að framkvæmd Rökkvunnar.

Það verður spennandi að gleðjast síðustu helgina í september í Garðabæ!

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar