Um tíu þúsund félagsmenn skráðir í Ferðafélag Íslands

Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag sem á sér langa sögu en félagið var stofnað árið 1927. Frá stofnun hafa gildi félagsins haldist óbreytt og snúið að því að stuðla að ferðalögum um Ísland og auka við áhuga og heilbrigði fólks með aukinni útivist og hreyfingu í góðum félagsskap. Í dag eru um tíu þúsund félagsmenn skráðir í félagið og hafa þeir aldrei verið fleiri. 

„Það er alltaf pláss fyrir nýja félagsmenn hjá FÍ,“ segir Heiða Meldal sem hefur verið ferðafulltrúi FÍ sl 10 ár. Heiða segir mikinn áhuga vera á meðal fólks á skipulögðum ferðum félagsins og að félagsmönnum hafi farið fjölgandi síðustu ár.
Við fórum að ferðast meira um landið okkar í heimsfaraldrinum og þannig hefur aukinn áhugi landsmanna kviknað á ferðalögum og útiveru hér á landi. Þetta hefur opnað augu okkar fyrir nýjum ævintýrum á okkar heimaslóðum,“ segir Heiða.

Ferðaáætlun FÍ 2023

Nýverið gaf Ferðafélag Íslands út ferðaáætlun fyrir árið 2023. Þar ber að líta vel útilátinn og veglegan bækling á stafrænu formi þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um allar skipulagðar ferðir sem eru á dagskrá félagins út árið. Ferðirnar eru jafnmisjafnar og þær eru margar og taka mið af árstíðum.

„Margar af okkar ferðum seljast upp á mjög skömmum tíma,“ segir Heiða og bendir á að ferðir um Hornstrandir, Laugaveg, Lónsöræfi og Víknaslóðir séu sérlega vinsælar en ekki síður ferðir um sögulegar slóðir. 
„Það er mikil ásókn í þessar ferðir og eins hefur Ferðafélag barnanna verið vinsælt undanfarin ár. Við erum þá að fara í langar og skemmtilegar ferðir með börnin, til dæmis eins á Laugaveginn, og börnin standa sig svo vel. Í

Ferðafélagi barnanna er ferðast á forsendum barnanna, stoppað við hvern stein ef svo ber undir. ,,Ferðafélag barnanna var stofnað 2010 að noskri fyrirmynd. Í kjölfarið samdi hópur barna ferðarelgur Ferðafélags barnanna; þar segir til að þau vilji alltaf hafa gaman, aldrei vera kalt og ekki svöng, Þetta eru auðvitað frábærar reglur og eiga sannarlega við fullorðna fólkið líka,“ segir Heiða.

Heiða segir að Ferðafélag Íslands eigi samstarf við fjölmarga aðila, meðal annars Háskóla Íslands en það samstarf hófst fyrir rúmum 10 árum á aldarafmæli Háskólans. „Fróðleikur í fararnesti er samstarfsverkefni Ferðafélags barnanna og Háskóla Íslands. Í heildina eru 23 ferðir farnar á vegum Ferðafélags barnanna og er meiri hluti þeirra ókeypis en lengri ferðir kosta,“ útskýrir Heiða og telur verkefnið vera ákveðna uppeldisstöð sem kunni að stuðla að áhuga barna á útiveru í hreyfingu til frambúðar.

Ferðir á hæstu tinda Öræfjajökuls njóta mikillla vinsælda og eru flestar farnar í maí mánuði.

Eitthvað fyrir alla

„Það er eitthvað í boði fyrir alla hjá FÍ. Við erum með dagsferðir, helgarferðir og svo sumarleyfisferðir, skíðaferðir, Ferðafélag barnanna og FÍ Ung sem og gönguferðir fyrir eldri og heldri.” segir Heiða og ítrekar að það eigi allir að geta fundið ferðir við hæfi. ,,Það er um að gera að skrá sig inn og drífa sig út, segir Heiða Meldal ferðafulltrúi FÍ.
Auk þess sem Ferðafélag Íslands stendur fyrir fjölbreyttri ferðaáætlun rekur félagið og deildir þess 40 fjallaskála á hálendi Íslands og í óbyggðum og stendur fyrir umfangsmiklu útgáfustarfi og má þar nefna árbækur félagsins, gönguleiðarit og kort.

Ferðir á hæstu tinda Öræfjajökuls njóta mikillla vinsælda og eru flestar farnar í maí mánuði.

Forsíðumynd: Í Ferðafélagi Íslands er fjölbreytt framboð af ferðum, allt frá Ferðafélagi barnanna yfir í ferðir fyrir eldri og heldri félaga sem hér eru í ferð í Þórsmörk

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar