Það var hátíðleg stemning í Urriðaholtsskóla á föstudaginn þegar Menntadagur Garðabæjar var haldinn. Þá komu um 500 kennarar og starfsfólk í leik- og grunnskólum bæjarins saman og nutu glæsilegrar dagskrár og hlýddu svo á áhugaverð erindi á málstofum sem boðið var upp á yfir daginn.
Bjarni Snæbjörnsson, Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs opnuðu dagskrána með sannkallaðri söngleikjasveiflu. Þá hélt Fríða Bjarney Jónsdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, afar áhugavert erindi undir yfirskriftinni „Tengjumst og tölum saman; Viðhorf og samskipt í inngildandi skóla- og frístundastarfi.“
Í kjölfarið var metnaðarfullu starfi leik- og grunnskóla í Garðabæ gert hátt undir höfði og veittu leik- og grunnskólanefndir Garðabæjar viðurkenningar til þriggja kennara fyrir framúrskarandi verkefni og framlag sitt til menntamála í bænum. Það voru þau Gauti Eiríksson, Ólafur Schram og Hrafnhildur Sigurðardóttir sem hlutu viðurkenningar í ár.
Einnig voru veittar viðurkenningar til leik- og grunnskóla bæjarins fyrir vinnu sína með samskiptasáttmála Garðabæjar. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir sá um að kynna dagskrána.
Þá var komið að málstofum dagsins þar sem kennurum og starfsfólki í leik- og grunnskólum Garðabæjar gafst tækifæri á að hlýða á áhugaverð erindi um verkefni sem hlotið hafa styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár.