Tónlistarskóli Garðabæjar fagnar 60 ára afmæli en skólinn var stofnaður árið 1964 og hét þá Tónlistarskóli Garðahrepps, en fyrsta skólaárið voru 30 nemendur við skólann og 3 kennarar, en skólinn hefur vaxið fiskur um hrygg því nú stunda tæplega 500 nemendur nám í skólanum og við hann starfa 45 kennarar.
Garðapósturinn heyrði hljóðið í Laufey Ólafsdóttur, skólastjóra og Lindu Margréti Sigfúsdóttur, aðstoðarskólastjóra við Tónlistarskóla Garðabæjar, en í tilefni af afmælinu verður boðið upp á ferna afmælistónleika á morgun, laugardaginn, 9. nóvember, í tónlistarsal skólans í Kirkjulundi og eru allir boðnir hjartanlega velkomnir.
Hvað mega gestir eiga von á að sjá og heyra á afmælistónleikunum – hvað verður boðið upp á? ,,Tónleikagestir eiga von á fjölbreyttri dagskrá sem sýnir þá miklu breidd og kraft sem er í skólastarfinu. Við leggjum áherslu á samspilsatriði þannig að fram koma blásarasveitir, strengjasveitir, þverflautukórar, hóp píanóatriði og rytmasamspil og margt fleira. Sem dæmi um samstarf þvert á deildir í skólanum má nefna að Stórsveitin og elsta strengjasveitin ásamt nemendum úr söngdeildinni hafa undirbúið atriði fyrir afmælishátíðina. Við getum lofað mjög skemmtilegri og metnaðarfullri dagskrá,“ segja þær Laufey og Linda.
Höfum lagt meiri áherslu á samspil
Laufey, þú tekur við sem skólastjóri árið 2012 og Linda þú kemur inn ári síðar, hvernig hefur skólinn þróast á þessum árum – hafa áherslur og hlutverk tónlistarskólans breyst mikið á ykkar tíma? ,,Skólar eru í stöðugri þróun og það á einnig við um tónlistarskóla. Það sem hefur helst breyst á síðustu árum og er mjög sýnilegt í skólastarfinu er að við höfum lagt meiri áherslu á samspil og samstarf og höfum fjölgað samspilshópum í skólanum. Þá stofnuðum við nýja deild haustið 2012 sem kennir samkvæmt Suzukiaðferðinni á fiðlu, víólu, selló og píanó. Við höfum einnig lagt áherslu á samstarf við aðra tónlistarskóla til að auka námsframboð og tækifæri nemenda til að taka þá í fjölbreyttari verkefnum,“ segja þær.
Stór og öflug söngdeild
En það sem ég rek augun í þegar ég skoða námsbrautirnar hjá ykkur þá bjóðið þið upp á klassíska söngdeild – svo þið eru ekki eingöngu að kenna á hljóðfæri? ,,Það er rétt við kennum líka söng, skólinn hefur mjög lengi verið með stóra og öfluga söngdeild. Það hafa margir frábærir söngvarar útskrifast úr söngdeildinni sem hafa sett mark sitt á íslenskt tónlistarlíf og starfað bæði hér á landi og erlendis,“ segir Laufey.
Í grunninn er tónlistarnám mjög hefðbundið
Hvað með kennsluaðferðir, hafa þær breyst eitthvað í tímanna rás með t.d. með bættir aðstöðu eða með komu snjalltækninnar o.fl.? ,,Í grunninn er tónlistarnám mjög hefðbundið, það þarf að læra ákveðna nálgun og tækni við hljóðfærið, læra að lesa nótur og fleira sem er ekki hægt að læra nema maður á mann í tónlistartímum. Einna mikilvægast er svo að nemandinn þarf að æfa sig heima til að ná færni á hljóðfærið. Vissulega notum við tæknina þar sem við á. Við notum til að mynda vefnámsumhverfi sem stuðning í tónfræðikennslu og sumir kennarar nota öpp við kennslu,“ segir Linda.
Hér hefur tekist vel til með sameininguna og við getum verið stolt af henni
En það verða ákveðin tímamót við skólann árið 2013, þegar Tónlistarskóli Garðabæjar og Álftaness eru sameinaðir, þið hafið þá nýlega hafið störf við skólann, var einhugur um þá ákvörðun og hefur samstarfið gengið vel? ,,Við erum einn öflugur skóli með samheldinn hóp kennara og góða nemendur úr öllum Garðabæ. Hér hefur tekist vel til með sameininguna og við getum verið stolt af henni. Kennarar skólans fara í grunnskóla Garðabæjar og kenna og nemendur geta því sinnt náminu á skólatíma, sem gerir námið aðgengilegra fyrir alla,“ segir Linda
Tónlistarnámið er mjög vinsælt og það komast færri að en vilja – er skólinn löngu sprunginn? ,,Bærinn hefur stækkað hratt á síðustu árum og íbúum fjölgað þannig að biðlisti í tónlistarskólann endurspeglar það. Það er ánægjulegt að eftirspurnin sé svona mikil og er skólanum okkar til sóma, en auðvitað myndum við vilja að fleiri kæmust að og að við gætum annað allri eftirspurn,“ segir Laufey.
Erum bjartsýnar á að stækkun skólans sé á áætlun
Undanfarnar mánuði hefur skólanefnd tónlistarskólans rýnt í framtíð skólans, næstu skref og mikilvægi þess að stækka skólann – hvernig er staðan með það? ,,Við erum bjartsýnar á að stækkun skólans sé á áætlun. Hún myndi bæta aðstöðu skólans, þ.e. nemenda og kennara umtalsvert,“ segir Laufey.
En hvað með annan búnað og hljóðfæri, þarf að fara að uppfæra mörg þeirra eða kemur hver nemandi með sitt hljóðfæri kannski fyrir utan stærstu hljóðfærin? ,,Við erum ágætlega stödd hvað varðar hljóðfærakost í skólanum. Við leigjum út hljóðfæri til yngri nemenda í strengjadeild og blásaradeild en önnur hljóðfæri leigjum við ekki út,“ segir Linda.
Hvaða áhrif hefur tónlistarmenntun á líf og þroska ungs fólks – af hverju eiga börn og unglingar að velja tónlistarnám? ,,Tónlistarnámi þjálfar marga þætti s.s. samhæfingu, tilfinningagreind, að hlusta og geta unnið með öðru fólki, aga, að skipuleggja sig og svo ótal margt fleira. Það eru til margar rannsóknir sem hafa sýnt fram á jákvæð áhrif tónlistarnáms á börn og ungmenni óháð því hversu lengi þau eru í tónlistarnámi,“ segir Laufey.
Margt ungt tónlistarfólk er mjög duglegt að skapa vettvang fyrir listsköpun sína
Eru nemendur ykkar fyrst og fremst að læra á hljóðfæri sér til gamans eða til að stefna út í lífið sem listamenn og hvaða atvinnumöguleikar eru í boði fyrir nemendur sem útskrifast úr Tónlistarskóla Garðabæjar? ,,Í upphafi tónlistarnáms eru flestir komnir til að læra af áhuga og sér til ánægju, en svo eru alltaf nokkrir nemendur sem finna þegar fram líða stundir að þeir geti hugsað sér að leggja fyrir sig tónlist. Eftir útskrift úr Tónlistarskóla Garðabæjar geta þeir nemendur sem vilja halda áfram á tónlistarbrautinni sótt um að fara í Listaháskólann eða til útlanda í háskólanám í tónlist. Það er næga vinnu að fá við tónlistarkennslu að loknu háskólanámi í tónlist fyrir þá sem það vilja og svo sjáum við að margt ungt tónlistarfólk er mjög duglegt að skapa vettvang fyrir listsköpun sína og það er frábært. Við sjáum þetta líka endurspeglast í menningarviðburðum bæjarins – og víðar í samfélaginu. Tónlistarfólk Garðabæjar kemur víða við og stendur sig vel,“ segir Laufey.
Skólinn er fyrir alla óháð aldri
Ég tala um börn og unglinga í tónlistarnáminu, en hvernig er það, geta allir, sama á hvaða aldri þeir eru komið og stundað tónlistarnám í Tónlistarskóla Garðabæjar? ,,Flestir nemendur okkar eru á leik-, grunn-, og framhaldsskólaaldri en skólinn er fyrir alla óháð aldri. Það eru alltaf nokkrir eldir einstaklingar sem vilja koma og læra hjá okkur en flestar umsóknir í skólann eru fyrir nemendur á grunnskólaaldri,“ segir Linda.
Ótrúlega gefandi að vinna í Tónlistarskóla Garðabæjar
Hvað segja svo skólastjórarnir – hvernig hefur tíminn ykkar verið hjá Tónlistarskóla Garðabæjar? ,,Það er ótrúlega gefandi að vinna í Tónlistarskóla Garðabæjar með öllu því frábæra starfsfólki sem þar er og fá að vinna með öllu þessu unga fólki sem kemur í skólann til okkar og fá að taka þátt í sigrum þeirra stórum sem smáum. Verkefnin eru fjölbreytt, Það er enginn dagur eins og það er alltaf gaman að koma í vinnuna,“ segja þær.
Helsta áskorunin sú að skólinn verði áfram mikilvægur í tónlistaruppeldi barna og ungmenna í Garðbæ
Tónlistarskóli Garðabæjar á sjálfsagt eftir að verða háaldraður, hverjar verða nú helstu áskoranirnar í skólastarfinu á næstu árum? ,,Áskorunin hlýtur að vera sú að skólinn verði áfram mikilvægur í tónlistaruppeldi barna og ungmenna í Garðbæ. Bjóði upp á fyrsta flokks kennslu og nám við hæfi hvers og eins og að nemendum okkar líði vel og fari frá okkur með góðar minningar um veruna í skólanum,“ segir Linda.
En Tónlistarskóli Garðabæjar fagnar merkum tímamótum með afmælishátíð á laugardaginn – og þið hvetjið bæjarbúa til að koma við, skoða og njóta þess sem boðið verður uppá? ,,Við hvetjum alla Garðbæinga til að koma í skólann og njóta tónlistar og fagna með okkur á þessum tímamótum,“ segja þær stöllur að lokum.
Forsíðumynd: Tvær öflugar á 60 ára afmælisár Tónlistarskóla Garðabæjari! Linda Margrét Sigfúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar og Laufey Ólafsdóttir skólastjóri tónlistarskólans