Egill Askur Eineberg vann í sumar að verkefninu Út um allan bæ á vegum Skapandi sumarstarfa í Garðabæ. Verkefnið felur í sér að hanna tölvuleik þar sem þátttakendur geta tekið þátt í einföldum leikjum þar sem sögusviðið eru hinir ýmsu staðir í Garðabæ. Markmiðið með þessu verkefni er að kynna Garðabæ í gegnum einstaka miðlun, þ.e. tölvuleik, sem byggir á menningu bæjarins og staðháttum. Leikurinn á að vera aðgengilegur almenningi á öllum aldri.
„Ég hef mikið unnið í forritun í frítímanum mínum. Ég hef mikinn áhuga á tölvuleikjagerð og ákvað því að nýta þá þekkingu mína og sækja um þetta verkefni í Skapandi sumarstörfum. Það eru til flott tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi en engin þeirra fókusa á íslenskan veruleika. Því þótti mér áhugavert að hanna leik sem á sér stað í bæjarlandi Garðabæjar“ – segir Egill. Dæmi um leik er fuglaleikur í Gálgahrauni þar sem teknar eru myndir af fulgum á flugi og safnað stigum.