Varnarjaxlinn Þórarinn Ingi Valdimarsson leikur sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna á morgun er liðið tekur á móti FH á Samsungvellinum í lokaleik Bestu-deildarinnar kl. 16:15.
Þórarinn lét strax mikið af sér kveða eftir að hann kom árið 2018 og hjálpaði Stjörnunni að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil, en fyrir átti þessi grjótharði og skemmtilegi Eyjamaður tvö Íslandsmeistaratitla fyrir sem hann vann með FH árin 2015 og 2016.
Garðapósturinn sló á þráðinn til Tóta eins og hann er ávallt kallaður.
Hafði samband við Dúlluna
Ef við byrjum aðeins á upphafinu, hvernig kom það til að þú komst til Stjörnunnar árið 2018? ,,Ég var ekki að fá þær mínútur sem ég vildi í byrjun tímabilsins hjá FH. Þá tók ég gott spjall við minn mann, Dúlluna sem var þá í vinnu hjá Stjörnunni. Hann var fljótur að heyra í Victor Olsen og það var klárað á innan við sólarhring ef ég man rétt.“
Alvöru karakterar í Stjörnuliðinu
Og það var strax talað um að þú hefðir haft mikil áhrif á stemmninguna innan liðsins, látið vel í þér heyra og verið hvetjandi? ,,Sko, þegar ég kem árið 2018 er Stjarnan með mjög massíft lið. Leikmenn voru alvöru karakterar og var blandan hrikalega góð. Það er kannski í seinni tíð þegar ungir og efnilegir leikmenn koma upp að þá er ég í þessu til þess að hjálpa þeim að verða betri.“
Kvöld sem seint gleymist
Og þú hittir heldur betur á það árið sem þú komst því þið lönduðu bikarmeistaratitli á þínu fyrsta ári, eftirminnilegur leikur? ,,Já heldur betur, það er kvöld sem mun aldrei gleymast. Það sem gladdi mann mest var að gera þetta fyrir stuðningsmenn Stjörnunnar og með liðsfélugum sínum.“
Samstaða og metnaður einkennir Stjörnuna
En segðu mér hvernig hefur tíminn verið hjá Stjörnunni? ,,Tíminn hjá Stjörnunni er búinn að vera einstakur og er ég þakklátur fyrir að vera partur af fótboltasögunni hérna. Það sem einkennir félagið er samstaða og metnaður. Þetta er alltaf bara fótbolti inn á vellinum sjálfum en munurinn liggur í framtíðarsýn innan félagsins. Stjarnan er ekki bara að horfa á 1-2 ár eins og vill oft til í fótbolta á Íslandi. Hér er verið að horfa á eitthvað stærra og meira.
Er ekkert endilega að hætta í fótboltanum
En hvað kemur til að þú sért að hætta, ert 34 ára, sem er ekkert sérstaklega hár aldur fyrir knattspyrnumenn í dag? ,,Ég hef svo sem ekkert gefið út að ég sé hættur þannig séð, minn tími í Stjörnuliðinu er bara kominn á enda. Nú tekur bara frí við hjá manni og ef það kemur einhver löngun hjá mér eftir það skoða ég það.“
Hvað tekur svo við hjá Tóta ef þetta verður síðasti leikurinn? ,,Það mun bara koma í ljós , nú er það bara fókus á fjölskylduna og heimilislífið. Við erum búsett í Garðabæ og munum vera hér áfram. Það er fínt að komast kannski í sumarfrí yfir sumartímann ef ég enda á því að hætta alveg,“ segir hann brosandi.
Getur ekki sleppt takinu alveg af kjúllunum
Og eiga stuðningsmenn Stjörnunnar ekki eftir að sjá Tóta mæta á Samsungvöllinn á næstu árum – kominn með létt Stjörnuhjarta? ,,Það er 100%. Ég mun fylgjast vel með og styðja liðið. Ég get líka ekki sleppt takinu alveg á kjúllunum, þarf að rífast í þeim og láta þá aðeins heyra það við og við. Stjörnuhjartað er orðið stórt og mun halda áfram að stækka,“ segir þessi mikla kempa að lokum.