Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr 4/1995 er í 3. grein fjallað um fasteignaskatt. Fasteignaskattur á íbúðir getur verið allt að 0.5% og ofan á það má leggja allt að 25% álag þannig að hæst getur þetta gjald verið 0.625%. Í Garðabæ hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins verið að lækka fasteignaskattsprósentuna árlega síðastliðin 8 ár og er gjaldið nú meðal þess lægsta á landinu eða 0.179% á íbúðahúsnæði. Fyrir 2 árum var síðan hafist handa við að lækka fasteignaskattsprósentuna á atvinnuhúsnæði.
Í Garðabæ eru 9 fasteignamatssvæði
Í Garðabæ eru til dæmis 9 fasteignamatssvæði og ef einstaka eignir eru seldar á háu verði á einstökum svæðum smitast það verð yfir á aðrar eignir svæðisins. Íbúðareigendur geta þó farið í það að óska eftir endurmati á eign sinni til lækkunar samkvæmt 21. grein laganna sem að fæstir gera.
Það er auðvitað ánægjulegt fyrir íbúa sveitafélagsins að eignir þeirra aukist að verðmætum en vegna mikillar hækkunar fasteigna undanfarið er þetta líka óheppilegt þar sem að fasteignamatið er stofn til greiðslu fasteignaskatta.
Breytum fasteignagjaldsstofninum
Þrátt fyrir þessa lækkun á fasteignaskattsprósentu sem hefur m.a. verið möguleg vegna fjölgunar íbúða í bænum, hefur gjaldið sem íbúðaeigendur greiða samt sem áður og oftar en ekki hækkað í krónutölu. Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976 með breytingum nr. 47/2000, þá segir í 17. grein að fasteignamatið skuli taka mið af gangverði umreiknað til staðgreiðslu og samkvæmt 18. grein skal Fasteignamat ríkisins skoða tölfræði fylgni gangverðs og gefa út fasteignamat árlega á grundvelli þess.
Lögin um fasteignamatið eru í grunnin 45 ára gömul og er því full ástæða fyrir nýtt Alþingi að taka þau upp og endurskoða enda mikið breyst á þessum 45 árum.
Réttast væri að breyta fasteignagjaldastofninum þannig að miðað væri við kaupverð eða byggingarkostnað viðkomandi fasteignar í stað síbreytilegs mats á staðgreiðsluverði í umsjón stofnunnar út í bæ. Ef að kaupverð/byggingarkostnaður eignarinnar er stofninn, þá veit eigandi af hvaða stofni hann greiðir fasteignagjöld meðan hann býr í viðkomandi eign og lækkanir á fasteignagjaldi berast þá viðkomandi eiganda. Síðan ætti sveitarfélagið að hafa heimild til að óska eftir endurmati á eignum ef þurfa þykir vegna hugsanlega málamyndasamninga eða óeðlilegs byggingarkostnaðar.
Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi og formaður Skipulagsnefndar Garðabæjar.