Tillögur um breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru til umræðu á fundi bæjarráðs í síðustu viku en á fundinn mættu fulltrúar Jöfnunarsjóðs og gerðu þeir almennt grein fyrir starfsemi sjóðsins og fóru nánar yfir tillögur að breytingum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Fulltrúar meirihlutans hafa gert athugasemdir við ákvæði í drögum að frumvarpinu, en Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar fellst ekki á afstöðu meirihlutans.
Breyttar aðstæður í sveitarfélaginu
„Viðreisn fellst ekki á afstöðu meirihlutans þess efnis að brýnt sé að mótmæla harðlega tillögu um frekari jöfnun á framlögum úr jöfnunarsjóði. Jöfnunarsjóður er mikilvægt tæki til að jafna stöðu sveitarfélaga um allt land. Tækifæri Garðabæjar til að auka tekjur sínar verulega liggja ljósar fyrir. Garðabær er eitt af fáum sveitarfélögum sem halda möguleikum til tekna í lágmarki.
Enn frekar er mikilvægt að benda á að í ljósi breyttrar aðstæðna í sveitarfélaginu með tilkomu fjölbreyttari íbúasamsetningu er tímabært að endurskoða ákvörðun um útsvarsprósentu til þess að mæta auknum þunga í allri grunnþjónustu sem sveitarfélaginu ber skylda til að sinna,“ segir í bókun Söru Daggar Svanhildardóttur sem hún lagði fram á fundinum.
Ákvæðið vegur að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga
Fulltrúra Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði áréttuðu bókun frá fundi bæjarráðs 21. mars sl. þar sem gerðar eru athugasemdir við ákvæði í drögum að frumvarpi um að ef sveitarfélag fullnýtir ekki heimild sína til álagningar útsvars skuli lækka framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til viðkomandi sveitarfélags að fjárhæð sem nemur mis-mun á hámarksálagningu útsvars og álagningu sem sveitarfélagið hefur samþykkt eins og lögmælt er. Í tilviki Garðabæjar getur slík skerðing verið um 600 m.kr. ,,Ákvæðið vegur að sjálfstjórnarrétti sveit- arfélaga til að ráða málum sínum sjálf og felur í sér þvingun gagnvart sveitarfélögum til að leggja á hámarksútsvar sem fær ekki staðist með vísan til þess að það er á valdi hverrar sveitarstjórnar að ákvarða álagningarhlutfall útsvars innan ákveðinna marka samkvæmt ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 m.s.br. Þá verður að telja að slík þvingunaraðgerð geti ekki samrýmst markmiðum og hlutverki Jöfnunarsjóðs um að koma að útgjaldaþörf sveitarfélaga m.a. vegna verkefna sem sveitarfélög hafa tekið við af ríkinu eins og rekstur grunnskólans. Bent er á að við þessar aðstæður væri eðlilegt að endurskoða hlutdeild Jöfnunarsjóðs af útsvarsstofni sveitarfélaga vegna rekstur grunnskólans en hlutdeildin hefur verið óbreytt 0,77%frá árinu 1996. Á sama tíma hefur starfsumhverfi grunnskólans tekið miklum breytingum og er orðið mun einsleitara,“ segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að senda umsögn í samráðgátt stjórnvalda með athugasemdum við drög að frumvarpi að heildarlögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga ásamt því að greina frá ofangreindum bókunum.
Forsíðumynd: Sara Dögg Svanhildardóttir